þriðjudagur, desember 09, 2008

Jesús eða Múhammeð - hvort viltu?

Skúli Skúlason hefur verið að skoða Islam og múslíma. Í grein sinni ABU HAMZA OG ELDPREDIKANIR HANS ber hann saman eitt grundvallaratriði:

,,Sælir eruð þér, þá er menn smána yður. Ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður. Jesús (Matteus 5:11).
,,Og drepið þá hvar sem þér finnið þá og rekið þá út þaðan sem þeir ráku ykkur áður út, því ofsóknir eru verri en slátrun.” (merkir: vantrú er verri en morð). Kóran: 002:191.

Hvorum mundir þú vilja fylgja, Jesú eða Múhammeð?

Eitt ráð: Fáðu þér bæði Biblíuna og Kóraninn og berðu saman kenningar Kóransins og kenningar Jesú.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Sigmundur Ernir: Hvernig væri að hafa raunverulegan áhuga?

Vísir slær upp:
Mikil svörun við kvörtunum Sigmundar

Ég er einn þeirra sem ekki eru hissa á að Sigmundur Ernir eigi erfitt með að fá menn í þáttinn hjá sér. Mér hefur alltaf þótt pólitískur áhugi hans af heldur skornum skammti og það sem hann sýnir hrein uppgerð á stundum. Og hann hefur oftsinnis sjálfur talað niðrandi um pólitík almennt og sagst lítinn áhuga hafa á slíkum málum.

Hvernig í ósköpunum geta menn þá búist við að fá alvöru spurningar? Reyndin er sú að hann kemur iðulega með skrifaðar eða undirbúnar spurningar til viðmælenda sinna, en ef svarið býður upp á frekari spurningar, þá er hann ekki betur heima en að hann einfaldlega sleppir slíku.

Maður sem stýrir umræðuþætti þarf að hafa brennandi ástríðu fyrir umræðuefninu, ekki bara því að vera stjarna.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Er að leita að nýrri vinnu

Ég bættist fyrir helgina í hóp þeirra sem hafa fengið uppsagnarbréf. Ég er kannski lánsamari en margir aðrir að því leyti að ég er með sex mánaða uppsagnarfrest (í rauninni fimm, en fékk 6). Ég þarf því að setjast niður og vinna mitt CV og koma því til einhverra sem hugsanlega geta bætt við sig einhverjum með mína kunnáttu og getu.

Að vísu er fyrirtækið, sem ég vinn hjá, að vona að það komist yfir erfiða hjallann í febrúar eða mars. Gangi það upp, á ég von á að fá að halda áfram. Ég er hins vegar búinn að vera hjá fyrirtækinu í næstum 13 1/2 ár, þannig að það er kannski kominn tími til að hreyfa sig. Ekki svo að skilja að maður hafi staðnað i starfi hér. Öðru nær. Maður er alltaf að bæta við sig. Og ég hef fengið tækifæri til þess að brydda upp á nýjungum, svo sem að innleiða FrameMaker sem umbrotsforrit og er nú að innleiða breytingakerfi (versioning control) fyrir handbækurnar til þess að auka öryggi við útgáfubreytingar.

Þetta er búinn að vera mjög spennandi tími, og ég vona svo sannarlega að það megi verða svo áfram. En ég er líka tilbúinn að taka til hendinni áð öðrum stöðum.

Ég legg þetta í hendur Guðs eins og aðra hluti og bið hann að leiða mig þangað sem hann vill.

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Micro$oft á gömlu gengi -- Open Source áfram á kr. 0,-

Morgunblaðið | 20.11.2008 | 08:30

Microsoft tekur stöðu með krónunni

Ég fékk eftirfarandi skeyti gegnum RGLUG (... sem segir allt sem þarf):
from Smári McCarthy
to stjorn@fsfi.is,
rglug
date Wed, Nov 19, 2008 at 10:23 PM
subject Microsoft veitir Íslandi afslátt
-- [efni klippt út úr haus] --

Microsoft hefur ákveðið að öll viðskipti við Íslendinga miðist við að evran kostaði 120 krónur. Það er mun minna en raunverulegt gengi er á markaði. Hjá Seðlabankanum kostar evran um 175 krónur en 215 krónur hjá Seðlabanka Evrópu.

120 króna gengi Microsoft þýðir að vörur frá fyrirtækinu verða talsvert ódýrari en þær hefðu orðið ella. Í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi segir að þetta komi sér vel fyrir þúsundir íslenskra fyrirtækja og stofnanna sem eru með fasta leyfissamninga við Microsoft.
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item237870/

"Í ljósi hins göfuga útspils Microsoft um að miða verð sín við gamalt gengi á evrunni hefur frjálsi heimurinn ákveðið að halda áfram að gefa hugbúnaðinn sinn frítt eins og hann hefur gert alla tíð. Mun þá nýjasta útgáfa af Ubuntu Linux sem kom út í Október kosta 0 krónur, og sömuleiðis munu Firefox vafrinn og OpenOffice.org skrifstofupakkinn vera fríkeypis áfram."
- Smári

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

How to replace Notepad in Windows XP [Hacker's Corner!]

I have had hard times replacing Notepad and it seems to come back ever so often. Finally (I hope) I found the solution. It is here, both in the initial suggestion and even better in the discussions:
http://weblogs.asp.net/rweigelt/archive/2004/08/12/213085.aspx

The basic thing is to replace notepad.exe wherever it resides, in the C:\WINDOWS subdirectories, mainly, ServicePackFiles\i386\ (which seems to be the main source) and SYSETM32\DLLCACHE\ (hidden file, second main source) and SYSTEM32\. Then, and only then, you can replace the C:\WINDOWS\notepad.exe without fear of it becoming overwritten.

I replaced it with the Crimson editor Notepad replacement (the notepad.exe that comes with the installation). It seems OK, except that when opening, it comes up with a warning:

C:\WINDOWS\ (or C:\WINDOWS\SYSTEM32\) contains an invalid path.
Then it just works.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Sigur Obama - von um betri heim - í bili

Guði sé lof! Bandaríkjamenn hafa séð að sér og kosið sér forseta, sem virðist hafa almenna skynsemi til að bera, ásamt því að vera einstaklega vel máli farinn og skýr í framsetningu. Ég bind miklar vonir við Obama og það virðist umheimurinn gera líka, svo sem sjá má t.d. af hækkun á hlutabréfamörkuðum og ummælum víða að.

Guð blessi þennan mann og verndi. Já, ekki er vanþörf á að biðja fyrir honum, því að góðir menn á forsetastóli verða oft fyrir miklu hatri, að maður minnist ekki á tilræðin, sbr. JFK og Abe.

Megi Guð gefa okkur betri tíma, tíma afturhvarfs til hans og fráhvarfs frá græðgi, dómhörku og yfirgangi.

Til hamingju, Bandaríkjamenn!

fimmtudagur, október 30, 2008

Eru Sjálfstæðismenn guðlegar verur?

Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína

Það er alveg stórfurðulegt hvað siðferðiskröfur og lög ná lítið til Sjálfstæðismanna. Hvernig dettur þessum mönnum í hug að geta verið taldir hæfir til þess að rannsaka mál sem varðar syni þeirra? Ætli Sjálfstæðismenn myndu þegja ef þessum stöðum gegndu Samfylkingarmenn eða Vinstri Grænir?

Ég held vart.

miðvikudagur, október 29, 2008

Bréf til www.visir.is

To: ritstjorn@visir.is
CC: atligu@365.is
Subject: Kæruleysisleg umfjöllun fréttamanns Vísis.

Ágæta ritstjórn.

Frétt ykkar í dag "Truflaður trúboði og dýraníðingur til höfuðs Obama" virðist rituð af einhverjum undarlegum hvötum, eins og til að nota tækifæri til að kasta rýrð á kristið fólk og kirkjur. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er að eftir að ég las fréttina á visir.is, þá leitaði ég Internetið hátt og lágt, en fann ekkert þessum tilgreindu orðum til staðfestu:

TILVITNUN HEFST:

Byssur og bænahald er helsta áhugamál íbúa í Bells en þar býr ákaflega kirkjurækið fólk sem stundar skotveiði af krafti. Daniel Coward var þó aldrei sagður hafa fundið sig í veiðimennskunni en hins vegar hafi hann rækt tíðir af þeim mun meiri ákefð og varla farið út úr kirkjunni. Meðal annars lagði hann stund á trúboðastarf áður en hann vendaði sínu kvæði í kross og gerðist nýnasisti en honum þótti sjónarmiðum þess hóps ekki gert nægilega hátt undir höfði í Bells.
TILVITNUN LÝKUR

Það sem ég komst næst þessu var blogg á "http://www.majorityrights.com/", tilvitnun í www.telegraph.co.uk, "Barack Obama plotters revealed to be small-town outcasts who met on internet", þar sem segir um þennan hluta málsins:

TILVITNUN HEFST:

Guns and religion are strong in Bells and most men are keen hunters, although Cowart had apparently not been one of them. He was more likely to have been found in church, said neighbours who said Cowart _had once done missionary work for one of them_.
TILVITNUN LÝKUR
(Áhersla innan _ _ er mín).

Er hægt að sjá af þessu að pilturinn hafi "lagt stund á trúboðastarf"?

Um fullyrðinguna "en hins vegar hafi hann rækt tíðir af þeim mun meiri ákefð og varla farið út úr kirkjunni," finn ég ekkert.

Mættum við Íslendingar, jafnvel við sem teljum okkur kristin, biðja um vandaðri umfjöllun.

Fréttin er af mjög alvarlegum atburðum og engan veginn við hæfi að vera með sleggjudóma í tengslum við hana.

Með fyrirfram þakklæti,

Böðvar Björgvinsson
Vegghömrum 45, 112 R.

Viðauki

Eftir nokkur e-mail skeyti erum við Atli (blaðamaðurinn) sammála um að vera ósammála. Hann telur sína túlkun vera rétta m.t.t. að þetta var samið fyrir þátt í morgun á Bylgjunni, sem sé á léttu nótunum og "talmálslegri" en fyrir prentmiðil, og hann sá þetta sem "[frétt] af draumórum tveggja bjána".

Lesendur geta síðan dæmt hver fyrir sig. Ég Googlaði málið og fannst það sem ég sá ekki fyndið heldur sorglegt og sennilega sorgarsaga á bak við piltana tvo.

þriðjudagur, október 28, 2008

Er Bretum treystandi fyrir loftrýmisgæslu?

Það kemur fyrir að ég sé sammála að hluta því sem VG halda fram (sjá grein í DV: Vg vill að hætt verði við loftrýmisgæslu Breta)

Ég er reyndar ekki endilega sammála því að við eigum að hætta alfarið við loftrýmisgæsluna, en mér finnst í ljósi atburða undanfarinna vikna (Darling Brown og allt það gums) að við eigum alfarið að hafna þessari þjónustu af hálfu Breta. Ég ímynda mér ekki annað en að aðrar þjóði skilji okkar sjónarmið ef við biðjum einhverja aðra (Frakka, Norðmenn, etc) að leysa Breta af.

fimmtudagur, október 16, 2008

Kafka's Iceland

In the Morgunbladid story Allir eru sekir about Gauti Kristmannsson's Opinion letter in the NY Times, there is a link to his letter called: The Ice Storm.

A recommended reading.

Verkamannafélagið Hryðja

Það kom upp góð hugmynd í matartímanum í dag. Bretar eru að beita á okkur hryðjuverkalögum og þá er náttúrulega ómögulegt að vera ekki Hryðjuverkamaður. Auðveldasta leiðin til þess að koma því í kring er að stofna félag, Verkamannafélagið Hryðju og helst að gerast stofnfélagi.

þriðjudagur, október 14, 2008

Lífeyrissjóðir í bankarekstri?

Nokkrir lífeyrissjóðir eru að reyna að kaupa Kaupþing, innlenda hlutann. Ég á erfitt með að trúa að bankaeftirlit og aðrar stofnanir sem málið kann að varða leyfi þetta. Ástæðan er sú að sem meðlimum í þessum sjóðum er stórum hluta landsmanna stillt upp fyrir þeim valkostum að færa sín viðskipti yfir til Kaupþings og styðja þannig við hlutafjárbindingu lífeyrissjóðanna, eða að vinna gegn sínum lífeyrissparnaði með því að skipta við annnan banka eða sparisjóð. Er það ásættanlegt að veita einum banka slíkt forskot? Hvað með samkeppnina?

Að skíta í nyt sína - Viðtal Egils við Jón Ásgeir

Eitt það versta sem komið gat fyrir bændur hér áður fyrr var ef kýr skeit í nytina. Ef hún gerði það ítrekað, var hún einfaldlega slegin af.

Mér fannst þetta vera útkoman hjá Agli Helgasyni í Silfrinu á sunnudag í viðtali hans við Jón Ásgeir. Þáttastjórnandi þarf að geta haft hemil á skapi sínu og vera sæmilega sanngjarn ásamt því að nota góð rök og úthugsaðar spurningar.

„Ég reiddist bara fyrir hönd þjóðarinnar" Þessi yfirlýsing hans er engin afsökun. Egill einfaldlega tapaði þessum slag, því miður. Það er einkennilegt ef Jón Ásgeir er svona sekur um alls konar svindl og svínarí, að færustu menn skuli ekki getað náð honum í net sín. Egill kom með nokkrar áleitnar spurningar, samkvæmt ábendingum sem hann hafði augljóslega fengið einhvers staðar frá, en virtist ekki maður til að fylgja þeim eftir. Annað hvort var undirbúingur hans ekki nógu góður eða að það var einfaldlega ekkert í þessu (no case).

Egill missir sig síðan í skapofsa og skeit þar með í nyt sína. Sem hann hefur því miður gert nokkrum sinnum. Hann er því að missa tiltrú mína. Það er kannski kominn tími til að slá kúna af (Silfur Egils).

fimmtudagur, október 09, 2008

Grein Þorsteins Gylfa í Fréttabl. 9. okt 2008

Ég vona að ég verði ekki tekinn af lífi fyrir að kvóta þessa grein hér í heilu lagi. En það er svo oft þannig að svona greinar hverfa af netinu eftir ákveðnnn tíma. Hún er hins vegar þess virði að eftir sé munað. Tengillinn er þessi: Versti seðlabankastjórinn (með mynd af Þorsteini). Það er hins vegar kannski svolítið óheppilegt að á vefsíðunni er myndin undir fyrirsögninni. :-/

Fréttablaðið, 09. okt. 2008 06:30
Versti seðlabankastjórinn

Þorvaldur Gylfason skrifar:
Bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey Sachs segir stundum söguna af fundi sínum með Viktor Gerasjenkó, þá seðlabankastjóra í Moskvu. Gerasjenkó var flokksjaxl af gamla skólanum, forhertur kommúnisti. Hann hafði aldrei haft fyrir því að kynna sér efnahagsmál eða hagfræði, en hikaði samt ekki við að taka við stjórn Seðlabanka Rússlands.
Þegar ríkisstjórn Jeltsíns forseta bað Sachs að leggja á ráðin um hagstjórn eftir 1991, hlaut Sachs að leggja leið sína í seðlabankann til að reyna að leiða bankastjóranum fyrir sjónir, að of mikil útlánaþensla hlyti að ýfa verðbólguna. Gerasjenkó var á öðru máli og sagði Sachs, að aukin útlán bankakerfisins og peningaprentun myndu þvert á móti draga úr verðbólgu, væri þess gætt að koma lánsfénu í réttar - vinveittar - hendur. Hann átti við ríkisfyrirtækin, sem römbuðu á barmi gjaldþrots, enda var þeim stjórnað af mönnum eins og honum sjálfum. Sachs sat lengi hjá Gerasjenkó og reyndi að miðla honum af reynslu þjóða, sem hafa misst stjórn á útlánum bankakerfisins og peningamagni, en bankastjórinn lét sér ekki segjast. Sachs sagði nokkru síðar af sér sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar og hefur ekki síðan stigið fæti á rússneska grund. Verðbólgan æddi áfram, og seðlabankinn jós olíu á eldinn. Gerasjenkó var rekinn úr bankanum 1994, en hann var ráðinn þangað aftur 1998-2002 (þannig er Rússland). Hann var sagður versti seðlabankastjóri heims og bar nafngiftina með rentu.

Seðlabanki Íslands er í svipuðum vanda staddur. Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu bankanna að ósk þeirra og lagði hana síðan frá sér, þótt bindiskyldan sé ásamt stýrivöxtum nauðsynlegt vopn gegn óhóflegri útlánaþenslu við íslenzkar aðstæður. Bankarnir una háum stýrivöxtum, því að þeir geta ávaxtað fé á þeim kjörum í Seðlabankanum. Bankarnir una ekki bindiskyldu, því að hún skerðir útlánagetu þeirra. Seðlabankinn átti að hafa hemil á bönkunum, en lagðist flatur fyrir framan þá. Reynslan sýnir, að stýrivaxtavopn Seðlabankans dugir ekki eitt sér til að hemja útlánavöxt og verðbólgu svo sem vita mátti. Seðlabankinn ber því höfuðábyrgð á útlánaþenslu bankanna, verðbólgunni af hennar völdum og um leið einnig að talsverðu leyti á bankahruninu nú, enda þótt neistinn, sem kveikti bálið, hafi borizt utan úr heimi.
Í annan stað vanrækti Seðlabankinn ítrekaðar aðvaranir um óhóflega skuldasöfnun bankanna og of lítinn gjaldeyrisforða og hafði sjálfur lítið sem ekkert frumkvæði í málinu. Ríkissjóður neyddist því á elleftu stundu til að taka dýr erlend lán til að auka forðann, sem er þó enn allt of lítill miðað við miklar skammtímaskuldir bankanna.
Hefði Seðlabankinn verið vakandi, hefði gjaldeyrisforðanum ekki verið leyft að dragast aftur úr erlendum skammtímaskuldum bankanna, og þá væri Seðlabankinn í stakk búinn að verja gengi krónunnar gegn áhlaupum spákaupmanna. En Seðlabankinn svaf, og gengið hrapaði. Það þýðir ekki fyrir bankastjórn Seðlabankans að stíga nú fram og segjast hafa varað ríkisstjórnina við á einkafundum.
Í þriðja lagi hefur Seðlabankinn vanrækt að leita eftir aðstoð hvort heldur frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem er ýmsum tækjum búinn til að taka á vanda sem þessum. Í staðinn hefur bankastjórn Seðlabankans farið með fleipur eins og það, að Sjóðurinn sé til þess að aðstoða gjaldþrota þjóðir, sem er alrangt. Ýmis önnur ógætileg ummæli formanns bankastjórnarinnar hafa aukið vandann. Aðstoð að utan hlyti að vera bundin skilyrðum um bætta hagstjórn, svo sem eðlilegt er og alsiða.

Rússar setja trúlega engin slík skilyrði. Einmitt þar liggur hættan. Tilgangurinn með því að þiggja erlenda aðstoð við aðstæður sem þessar er að endurvekja traust umheimsins með því að þiggja ráð af öðrum. Sé Rússalánið, ef af því verður, engum skilyrðum háð, getur það ekki haft nein áhrif til að endurreisa traust útlendinga á íslenzku efnahagslífi. Þvert á móti hafa ríkisstjórnin og Seðlabankinn kosið að auglýsa það ósannlega fyrir umheiminum, að Ísland njóti einskis trausts lengur meðal gamalla vina og bandamanna.

Seðlabankanum ber að lögum að stuðla að stöðugu verðlagi og virku og öruggu fjármálakerfi. Bankastjórnin veldur hvorugu hlutverkinu. Verðbólga og gengisfall ógna afkomu margra heimila og fyrirtækja. Bankarnir og fjármálakerfið eru í uppnámi. Ríkisstjórnin og Alþingi bera ábyrgð á Seðlabankanum. Bankastjórn Seðlabankans verður að víkja án frekari tafar. Að því tilskyldu verður hægt að hefja endurreisnarstarfið í samvinnu við erlenda sérfræðinga.

miðvikudagur, október 08, 2008

Staðfastir menn!

Seðlabankinn gefst upp á því að festa gengið - Visir.is

Var ég eitthvað að blaðra um Davíð í síðasta bloggi? Ekki kannski um fálm eða fum. Vita þeir ekkert? Kunna þeir ekkert? Maður hefur á tilfinningunni að allar ákvarðanir Seðlabankans séu meira eða minna rangar.

Hjálp! Getur nokkur aukið mér trú á fjármálayfirvöld á Íslandi?

Ónýtir þjónar

Skelfilegt var að heyra sjálfumgleðina í Davíð Oddssyni í Kastljósi í gærkvöldi.

  • Hann munaði ekkert um að klína hluta af eigin sök varðandi það frumhlaup hans að senda tilkynningu til blaðanna um að Rússar væru búnir að ákveða að lána okkur stórfé. Verulegt glappaskot, sem eingöngu skrifast á DO, á sendiherra Rússa.
  • DO munaði ekkert um að gera lítið úr ummælum fjármálaráðherra Noregs um lán okkur til handa. "Þetta væri ekki nema 1/8 af þörfinni!"
  • DO tókst enn fremur að sparka í Seðlabanka Bandaríkjanna og fleiri.

Er maðurinn gjörsamlega veruleikafirrtur og ábyrgðarlaus? DAVÍÐ ODDSSON VERÐUR AÐ VÍKJA ÚR SEÐLABANKANUM OG ÞAÐ STRAX!

Og hvað með alla þá sem áttu að gæta hagsmuna þjóðarinnar gagnvart útþensluglæpamönnum. Ég á við það, ef rétt er að IceSave (og kannski fleiri íslenskir bankar erlendis?) hafi sjálfkrafa skuldbundið þjóðina (Seðlabankann) til þess að ábyrgjast verulega stórar fjárhæðir innlána, svo stórar að Ísland gæti aldrei borgað það, að hvorki Seðlabankinn, Fjármálaráðuneytið eða Fjármálaeftirlitið hafi séð ástæðu til að grípa í taumana. Áttu þessir menn allt í einu ekki að gæta hagsmuna okkar, íbúa þessa lands? DO segist hafa talað yfir ríkisstjórninni fyrir ári síðan. Hvað sagði hann? Hvað segist hann hafa sagt og hvað segja hinir að hann hafi sagt?

Það er komin full ástæða til að menn fari að axla ábyrgð og segja af sér. Jafnvel á þessum erfiðu tímum. Mér sýnist að þessir sömu menn (DO, Árni Matt o.fl.) hafi ekkert lært og séu fremur til trafala nú en gagns.

Það er leitt að þurfa að halda þessu fram, en ég sé mig knúinn til þess. Og flokkurinn minn, Samfylkingin. Hvar stendur hún í þessu máli? Er hún að kóa með þessum kónum?

mánudagur, október 06, 2008

Tapað/Fundið

Íslenska krónan týndist nú um helgina. Finnandi er vinsamlega beðinn að hafa samband við afgreiðslu Bleðlabankans.

fimmtudagur, október 02, 2008

Ríkisstjórnin segi af sér (Mig vantar nýja sultaról)

Maður er byrjaður að herða sultarólina, en ég óttast að kreppan komi nú það hratt yfir að ólin slitni fljótlega. Vantar því nýja til að eiga á lager. :-(

Ég get annars ekki séð annað út úr fréttum en að Davíð Oddsson og undirokaðir kollegar hans í $eðlabankanum (réttara: Bleðlabankanum) hafi platað ríkisstjórning upp úr skónum varðandi Glitnismálið og verði því að segja af sér. Vonandi ná hluthafar vopnum sínum.

Ég varð sérstaklega fyrir vonbrigðum með Björgvin G. Sigurðsson ráðherra bankamála og Össur Skarp, sem var "stand-in" fyrir Ingibjörgu. Ég hélt að þessir menn hefðu lært að vara sig á Dabba kóngi.

Ég tek það fram að ég hef enga sérstaka samúð með Jóni Ásgeiri eða öðrum stórmógúlum í bransanum, en Dabbi er búinn að vinna þjóðinni meira en ógagn bæði á sínum stjórnmálaferli og nú ekki síður sem Bleðlabankastjóri.

mánudagur, september 29, 2008

Köld kveðja ríkislögreglustjóra

Í þessari grein, Lögreglustjóri kveður (28. Sept. 2008) segir Haraldur Jóhannessen:

Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri lætur af embætti 1. október nk. Óvenjulegt er að lögregluforingi kveðji samstarfsmenn sína til margra ára með stóryrðum og hrakspám eða líki lögreglustarfi við sandkassaleik.
Innan raða lögreglunnar hefur síðastliðin ár verið rætt um stefnur og strauma í löggæslumálum að hvatningu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Skipulagsbreytingar hafa reynt á hæfni og getu yfirmanna og hafa þeir sýnt festu og áræðni til að ná settum markmiðum. Um þetta hefur verið samstaða meðal allra lögreglustjóra. Einn úr hópnum kýs nú að fara aðra leið. Það er hans val.
Ég óska Jóhanni R. Benediktssyni velfarnaðar á nýjum vettvangi, þótt kveðja hans til okkar, sem viljum metnað lögreglu sem mestan, sé ekki lögreglustjóra samboðin.

Ég get ekki séð annað en að Jóhann hafi reynst einn albesti maður lögreglunnar með tilliti til þjónustu við landsmenn -- og ég hefði haldið að lögreglan væri til þess að þjóna landsmönnum en ekki embættismönnum og ráðherrum. Þess vegna harma ég þessa grein Haraldar. Mín tilfinning og skoðun er að einhvers konar annarleg sjónarmið (önnur en að þjóna landsmönnum) búi að baki.

Hefur ekki umdæmi Jóhanns sýnt einstaka fylgni og frábæra vinnu í sambandi við að ná fíkniefnum úr umferð? Unnu þeir ekki þarft verk með að sýna fram á að hluti hælisleitenda hefðu komið á fölskum forsendum? O.s.frv. Ekki hefur þetta embætti orð á sér fyrir leti, spillingu, óvandvirkni eða neitt slíkt.

Amerískt orðatiltæki segir: "If it ain't broke, don't fix it." Betur ef dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri sæju það.

mánudagur, ágúst 25, 2008

Ryðsveppur í víðinn

Ég uppgötvaði fyrir skömmu að víðirinn í "garðholunni" "minni" er kominn með ryðsvepp. Ég hélt að þetta hefði komið með mold sem ég keypti í Garðheimum, en við nánari skoðun eftir svar frá þeim, sýnist mér að þetta hafi verið í raun sýnilegt frá því snemmsumars, sbr. þessa grein hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, en þar segir m. a. (birt án leyfis):

Helsta einkenni ryðsveppa er að þeir framleiða allt að fimm mismun­andi gerðir af gróum sem oftast koma fram í ákveðinni tímaröð. Á vorin vaxa litlar gróhirslur er kallast pelar (pycnidia) upp af einkjarna sveppþráðum á efra borði blaðanna en í þeim myndast örsmá pelagró, frjófrumur, sem við samruna þráða af gagnstæðri æxlunargerð mynda tvíkjarnaþræði í blaðinu.

Það gæti verið að þetta væri kuskið á blöðunum, sem ég hélt fyrst að væri blaðlús. Þessi lús át hins vegar ekki neitt...

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Auglýsingar utan vega í dreifbýli

Nýlega voru fréttir af því í fjölmiðlum að Vegagerðin hefði látið fjarlægja bíla sem báru auglýsingar og höfðu verið skildir eftir nálægt vegum. Vísað var í eftirfarandi grein umhverfislaga:

  43. gr. Auglýsingar utan þéttbýlis. Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt, að uppfylltum ákvæðum annarra laga, að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á þeim stað þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram. Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um efni greinarinnar og úrskurðar um vafaatriði.

Er það ekki dásamlegt hversu lagasetningin er loðin. Samkvæmt þessu gæti umhverfisráðuneytið (les: Vegagerðin) ákveðið að auglýsingar mættu ekki vera nær vegum en 5 metrar eða 10 kílómetrar. Þeir hafa ákveðið að 30 metrar skuli vera hreint svæði. Það er væntanlega til að fyrirbyggja að afætur eins og veitingastaðir, listamenn, söfn eða fyrirtæki geti bent vegfarendum á að það gæti kannski verið þess virði að stoppa, taka næsta afleggjara o.s.frv. til þess að kynna sér málin og kannski hagnast á því með góðum kaupum eða góðri upplifun.

Vissulega þarf að setja ákveðin öryggismörk og kannski reglur um hæð og aðra stærð skilta, styrkleika og fjarlægð frá vegi. En 30 metrar er allt of mikið. Það er sem sé það svæði hvoru megin við veginn sem Vegagerðin þykist eiga. Enn og aftur má líta til annara landa en Noregs, sem Vegagerðin lítur til í öllum málum. Og meira að segja þar minnir mig að viðmiðin séu ekki svona ströng.

Hins vegar er svo til þess að líta, að of mikið af auglýsingum geta verið veruleg lýti á umhverfinu. En mætti ekki setja ákvörðunarvaldið að meira leyti til sveitarfélaganna? Lítum síðan til annarra landa, þar sem þessir hlutir virðast vera í góðu lagi, svo sem í einstöku ríki Bandaríkjanna (í öðrum ríkjum þeirra eru þessi mál í ólestri), Frakklands, Þýskalands og fleiri landa.

Enn á ný fæ ég það á tilfinninguna að þegar þeir hjá Vegagerðinni (og Umhverfisráðuneytinu) ferðast til útlanda, þá líti þeir ekkert upp úr bjórglasinu. "Hausinn í sandinn". Það er mottóið.

mánudagur, ágúst 11, 2008

Geta tvívíðir hlutir verið sýnilegir?

Ekki veit ég hvaða bullukollur setur saman eða þýðir þessa frétt í Mogganum Vísindamenn segjast skrefi nær hulinshjálmi en ég lærði bæði í gagnfræðaskóla og menntaskóla að tvívíðir hlutir hafi aðeins lengd og breidd og flokkist þannig sem stærðfræðilegt hugtak fremur en hlutur. Þetta eru geómetrískir fletir. Þar sem þriðju víddina vantar (sem allt efni hefur (teningar, kúlur eða önnur regluleg eða óregluleg form), útilokar það að "hluturinn" sjáist. Kannski blaðamaðurinn vilji upplýsa hvenær hann sá tvívíðan hlut síðast.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Paul Simon tónleikarnir í Laugardalshöll

Það var næstum troðfullt í Laugardalshöll í gærkvöldi þegar Paul Simon og hljómsveit stigu á svið u.þ.b. korter yfir átta. Á sviðinu voru til reiðu einhverjir 20 gítarar og bassar af ýmsum gerðum, stórt trommusett, stórt "bongótrommusett" eða slagverkssett, ein fjögur hljómborð, flauta sem gæti verið ættuð frá Andesfjöllum, saxófónar af nokkrum gerðum, trompet og fleira.

Palli byrjaði með stuðsmelli, en svo komu ýmis ný og ókunn lög í bland við gamalt og rólegra. Smám saman fór hann yfir í meira af þekktustu lögum sínum og endaði á nokkrum þekktum smellum, m.a. "You Can Call Me Al" og "Diamonds On The Soles Of Her Shoes".

Með karlinum, sem mun vera 67 ára að aldri, voru nokkrir tónlistarmenn sem verið höfðu með honum allt frá því á Graceland plötunni, eftir því sem mér var sagt. Ótrúlega góðir. Svo var einnig um hina.

Hljóðið var þétt og hljóðblöndun nokkuð góð, nema hvað húsið virtist drepa bassaleikinn í ofmögnuðum bassatrommum, alla vega á þeim stað sem ég var, fyrir miðjum vinstri væng, rétt framan við mitt gólf.

Það var hrein unun að taka inn þessa oft flóknu blöndu af textum (skáldið Paul Simon), lögum (lagasmiðurinn Paul Simon) og flóknum takti og útsetningum (heimstónlistarmaðurinn Paul Simon).

Keyrslan var á fullu til kl. 22:20 fyrir utan tvö uppklöppunarhlé, sem greinilega var gert ráð fyrir, því að kynning meðlima hljómsveitarinnar hófst ekki fyrr en rétt fyrir fyrri uppklöppun og lauk einhverjum einu eða tveim lögum fyrir lok tónleikanna.

Tónleikagestir klöppuðu mikið á milli atriða, en tóku samt ekki almennilega við sér fyrr en eftir uppklöppun og sungu fullum hálsi með í "The Boxer". Einkum var áberandi hvað þeir kunnu vel "La-la-la" hluta viðlagsins. ;-)

Frábærir tónleikar.


Takk fyrir, Paul Simon og hljómsveit.

Nú er bara beðið eftir Art Garfunkel. Hann er líka góður en allt öðruvísi.

þriðjudagur, maí 27, 2008

Mogginn og fréttir úr eigin ranni

Ég var að heyra að uppsagnir væru í gangi á Morgunblaðinu, t. d. hefði íþróttafréttastjórinn fengið reisupassann. Það finnst mér svolítið merkilegt, þar sem íþróttafréttir Moggans hafa þótt með þeim áreiðanlegustu í bransanum. Og ef rétt er sem ég heyrði, að ástæða uppsagnarinnar væru fyrirhugaðar breytingar á stefnu í íþróttafréttaritun blaðsins, þá vakna nokkuð margar spurningar.

Ég fór því að kíkja á vef Moggans http://www.mbl.is eftir fréttum um uppsagnir og upplýsingum um ritstjórn blaðsins og hvort þar væru upplýsingar um fréttastjóra einstakra málaflokka. Því er skemmst frá að segja að engar fréttir fann ég um uppsagnir og engar um hverjir væru fréttastjórar málaflokka -- og svo náttúrulega það að Styrmir Gunnarsson er enn ritstjóri Moggans og mbl.is. Ekki miklar breytingar þar á bæ!

föstudagur, maí 23, 2008

Ísland áfram í Júróvisíón -- með tvö lög!

Algerlega gegn mínum kenningum, þá komst Ísland upp ur undanriðlinum. Þessi riðill var mjög sterkur að mínu mati og það voru þarna a.m.k. 2-3 lög, sem mér fundust að hefðu átt að komast upp og svo álíka mörg, sem mér fundust að hefðu átt að falla.

Hins vegar var Ísland fyrst í "rásröðinni", sem er sterkt -- EF vel tekst til og lagið er gott -- og performansinn var frábær, þó svo að mér finnist ekki mikið til um lagið.

Og svo komst hitt lagið "Ho, ho, ho..." áfram þó það væri í búningi annarra (Lettland). Reyndar skelfileg tilhugsun að hafa báðar versjónirnar í gangi í sömu keppninni...

Sem sé, eins og Silvía Nótt sagði svo eftirminnilega: "Til hamingju, Ísland" (sleppum því sem á eftir kom).

miðvikudagur, maí 07, 2008

Vilnius og Trakai heimsókn

Útsýni úr Gediminasturni

Við hjónin skruppum til Vilnius um daginn. Flugum út miðvikudaginn 30. apríl og komum aftur á sunnudagskvöld. Í stuttu máli reyndist ferðin frábærlega skemmtileg. Við höfðum pantað þann 4. til 9. maí, en tvö síðustu flug Primera/Heimsferða/TerraNova voru felld niður vegna lítillar þátttöku. Það hefur verið mjög lítil þátttaka, því að hvorki var fullt út né til baka. Við þurftum reyndar að borga aðeins meira, þó að þetta væri deginum styttri ferð, því að slíkur er verðmunur á hótelum í Vilnius á virkum dögum og helgum.

Artis Centrum Hotel Artis hótel, séð ofan af 4 hæð niður í afgreiðslusalinn (lobbýið)

Við þurftum líka að skipta um hótel, og vorum heppin með það því að Hótel Artis er betur staðsett en Conti, sem er nokkuð utan við Dögunarhlið (Gates of Dawn), sem markar skil gamla og nýja bæjar. Hótelið er við hliðina á Varnarmálaráðuneytinu og ofan við forsetahöllina. Þar fyrir neðan er Dómkirkjutorgið og Gediminasturninn. Sem sé neðarlega í gamla bænum, stutt ofan við ána Neris

Miðvikudagur 30. apríl

Dögunarhliðið
Nei, þetta er ekki skakki turninn í ... Myndin er tekin á 14mm og því kemur fram þessi linsuskekkja. Þetta er Dómkirkjan og turninn.

Komið var á hótelið nokkuð seint um kvöldið, þannig að við þurftum að fara út til þess að finna okkur stað til að borða á. Mjög margir staðir voru að loka, en Double Coffee eru með einn stað niður á Gediminas gatve (Guðmundargötu) þar sem opið er allan sólarhringinn. Þar fengum við ágætis léttan verð og komum okkur síðan heim á hótel.

Hótelherbergið var rúmgott og allt í góðu lagi, nema að fjögurra stjörnu hótel virðast ekki bjóða upp á kaffikönnu eða slíkt á herberginu. Minibarinn var hins vegar tiltölulega ódýr og ekkert mál að fá sér vatnsflösku þar.

Fimmtudagur 1. maí

Boðið var upp á gönguferð um gamla bæinn í fylgd leiðsögumanna á fimmtudagsmorgun 1. maí. Það var mjög skemmtileg og fróðleg ganga, því að þarna er gífurlega mikil saga. Húsin eru reyndar flest endurbyggð, en byggingarstíllinn er frá 14. til 19. aldar, jafnvel eitt og eitt hús örlítið yngra. Þarna úir og grúir allt af kirkjum og matsölustöðum og einnig má finna útimarkaði og búðir sem selja gripi úr rafi (amber) og vörur úr hör, bæði fatnað og leikföng.

Mörg falleg hús í gamla bænum frá ýmsum tímabilum

Eftir gönguferðina lögðum við okkur og fórum síðan út að borða. Við fórum niður á indverskan veitingastað neðar í götunni, Sue's Indian Raja (rétt fyrir ofan Klaipeda hótelið) og fengum þar frábæran indverskan mat.

Föstudagur 2. maí

Á föstudeginum var almennur frídagur í Litáen og Póllandi og var því allt krökkt af Pólverjum hvert sem farið var, enda var Litáen og Pólland sameinað í eitt ríki í ca 150 ár og náði ríkið allt til Svartahafs um tíma og var þannig stærsta ríki Evrópu. Þennan dag fórum við í ferð með leiðsögu í Trakai kastalann, sem er nokkuð suðvestan við Vilnius (eða Vilnus eins og heimamenn bera það fram). Þar er mjög fallegt. Mikil kyrrð þrátt fyrir allt fólkið.

Um kvöldið fórum við á Lokys á Stikliu gátve og fengum okkur villigölt, sem var ágætur á bragðið, en nokkuð mikið leður undir tönn. Maður borðar bara hægt.

Laugardagur 3. maí

Við komuna til Vilius tjáði fararstjórinn okkur að vegna ónógrar þátttöku hefði verið fellt niður "Litáska kvöldið", þar sem við áttum að fá að kynnast menningu og matargerð heimamanna. Þar með fór uppbót sem okkur hafði verið lofað þegar við þurftum að taka ákvörðunina um að breyta ferðinni eða að fara ekki. Billeg uppbót! ;-) Við þurftum því að sjá um okkur sjálf.

Við fórum um morguninn í KGB safnið og eyddum ca 3 tímum þar. Allmerkilegt safn, einkum fyrir þá sem ekki hafa séð stríðsminjasöfn áður. Þetta virkaði ekki eins sterkt á okkur hjónin eins og Oradour sur Glane.

föstudagur, apríl 11, 2008

Yfirgrínari Íslands (með kolsvartan húmor)

Davíð Oddsson seðlabankastjóri og yfirgrínari Íslands hættir víst aldrei að atast í okkur landsmönnum. Hann virðist hafa haft það að markmiði allt síðan í Útvarpi Matthildi að hafa landa sína að fíflum. Sem formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra stóð hann fyrir þeirri tegund kapítalisma, sem velflestir hugsandi menn sáu fyrir að myndi leiða til skammrar uppsveiflu og síðan hrynja. Svo hljóp hann náttúrulega í burtu, rétt áður en hann sjálfur vissi að niðursveiflan væri að hefjast.

Svo fór Davíð í Seðlabankann, svona til að hjálpa til með vaxtaokri og yfirlýsingum um að allt væri á heljarþröm, líkt og kemur fram í fréttum í dag, þar sem hann - í nafni Seðlabankans, og svona rétt til að toppa allt - spáir því að húsnæðisverð muni lækka um "allt að 30% til ársins 2010", og hækkar á sama tíma vexti í heimsmet, 15,5%.

  1. Þessi yfirlýsing er náttúrulega ekkert annað en að Davíð Oddsson, fyrir hönd Seðlabanka Íslands, er að segja að Seðlabankinn hafi gjörsamlega brugðist hlutverki sínu eða hafi engin ráð til að sinna því. Ef hann væri samkvæmur sjálfum sér (og meinti eitthvað með þessum yfirlýsingum) þá myndi hann og stjórn bankans segja af sér öll sem eitt í dag. En því er ekki að heilsa, því að Davíð þarf að grínast með þjóðina áfram á sinn sjúklega hátt.
  2. Er það hlutverk Davíðs Oddssonar sem Seðlabankastjóra að tala niður húsnæðisverð á Íslandi? Er hann kominn í hóp húsnæðisbraskara, sem sjá sér nú hag í að bíða þess að lánveitendur krefjist viðbótarveða eða hirði eignir af fólki fyrir lítið ella, og geta þá keypt á lágu verði?
  3. Hvers vegna er Davíð Oddsson sífellt að grafa undan eftirmanni sínum í stól forsætisráðherra, Geir Hårde?
  4. Er Davíð Oddsson algerlega samviskulaus?
  5. Getur verið að Davíð Oddsson sé ekki að grínast, heldur sé bara heimskur?
  6. Er ekki tími til kominn að minnka áhrif Davíðs Oddssonar og fyrirbyggja þannig frekari hörmungar í efnahagsmálum þjóðarinnar?

mánudagur, mars 17, 2008

Stóráfangi í tölvumálum Íslands!

Loksins, loksins, loksins kom að því. Ríkisstjórnin hefur mótað sér stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað, þar sem segir m. a. að
þess skuli gætt að gefa frjálsum og opnum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um kaup á nýjum búnaði og ávallt skuli leitast við að gera sem hagstæðust innkaup.
Sjá nánar: Stefna um frjálsan og opinn hugbúnað. Það er aðeins einn hængur á þessu og hann gamalkunnur: hvernig túlka menn "hagstæðust innkaup"? MicroSoft menn eru sérfræðingar í að hagræða hlutunum þannig fyrir hugsanelgum kaupendum að það sé svo erfitt og dýrt og kosti svo mikinn mannskap o.s.frv. til að læra og viðhalda opnum hugbúnaði, að það sé í raun ódýrara að kaupa MicroSoft vöruna. Þetta vita Open Source menn að er argasta BS. En ráðuneytismenn, vita þeir það?

miðvikudagur, janúar 02, 2008

2007 - viðburðaríkt ár

  • Árið 2007 var óvenju viðburðaríkt og blessun Guðs áþreifanleg.
  • Tvenn brúðkaup barna okkar hjóna, mitt eigið stórafmæli, stórverkefni varðandi umbrot, ein utanlandsferð til London um mánaðarmótin nóv/des.
  • Þrennir flutningar alls hjá börnunum. Það reyndust enn vera not fyrir jeppann varðandi flutningana.
  • Miklar annir í vinnunni framan af ári.
  • Miklar annir við umbrot á Gídeon Nýjatestamentum í sumar og fram á haust. Sumarfríið fór í þetta að mestu.
  • Spilað í guðsþjónustu í ÍK til vors, en ekki í haust. Wishbass bassinn er virkilega skemmtilegur. Ætli ég tími nokkurn tíma að selja hann?
  • Fyrirlestur í ÍK í haust.
  • Tengdapabbi farinn að láta á sjá. Parkinson uppgötvaðist loks í haust, en hann hefur verið að hrjá gamla manninn lengi. Það er gott að geta aðstoðað gömlu hjónin. Þau eru líka svo þakklát fyrir það litla sem maður gerir.
  • Svo kom Óli mágur í heimsókn frá Danmörku með soninn og vin hans. Þeir dvöldu hjá okkur í 11 daga. Mjög gaman. Töluvert ferðast með þá.
  • Notaði peningagjöf og aukapening til þess að kaupa hátalarakit frá IPL. Hlakka til að smíða utan um það. Hóf blogg um það á speakerboxes.blogspot.com
  • Skruppum norður í Ólátagarð á sumardaginn fyrsta. Það var virkilega gaman að hitta alla þar.
  • Vel heppnuð ferð með starfsmannafélagi á vinnustað konunnar til London um mánaðarmótin nóv.-des. var svo ekki til að skemma fyrir ánægjulegu ári!