þriðjudagur, maí 27, 2008

Mogginn og fréttir úr eigin ranni

Ég var að heyra að uppsagnir væru í gangi á Morgunblaðinu, t. d. hefði íþróttafréttastjórinn fengið reisupassann. Það finnst mér svolítið merkilegt, þar sem íþróttafréttir Moggans hafa þótt með þeim áreiðanlegustu í bransanum. Og ef rétt er sem ég heyrði, að ástæða uppsagnarinnar væru fyrirhugaðar breytingar á stefnu í íþróttafréttaritun blaðsins, þá vakna nokkuð margar spurningar.

Ég fór því að kíkja á vef Moggans http://www.mbl.is eftir fréttum um uppsagnir og upplýsingum um ritstjórn blaðsins og hvort þar væru upplýsingar um fréttastjóra einstakra málaflokka. Því er skemmst frá að segja að engar fréttir fann ég um uppsagnir og engar um hverjir væru fréttastjórar málaflokka -- og svo náttúrulega það að Styrmir Gunnarsson er enn ritstjóri Moggans og mbl.is. Ekki miklar breytingar þar á bæ!

föstudagur, maí 23, 2008

Ísland áfram í Júróvisíón -- með tvö lög!

Algerlega gegn mínum kenningum, þá komst Ísland upp ur undanriðlinum. Þessi riðill var mjög sterkur að mínu mati og það voru þarna a.m.k. 2-3 lög, sem mér fundust að hefðu átt að komast upp og svo álíka mörg, sem mér fundust að hefðu átt að falla.

Hins vegar var Ísland fyrst í "rásröðinni", sem er sterkt -- EF vel tekst til og lagið er gott -- og performansinn var frábær, þó svo að mér finnist ekki mikið til um lagið.

Og svo komst hitt lagið "Ho, ho, ho..." áfram þó það væri í búningi annarra (Lettland). Reyndar skelfileg tilhugsun að hafa báðar versjónirnar í gangi í sömu keppninni...

Sem sé, eins og Silvía Nótt sagði svo eftirminnilega: "Til hamingju, Ísland" (sleppum því sem á eftir kom).

miðvikudagur, maí 07, 2008

Vilnius og Trakai heimsókn

Útsýni úr Gediminasturni

Við hjónin skruppum til Vilnius um daginn. Flugum út miðvikudaginn 30. apríl og komum aftur á sunnudagskvöld. Í stuttu máli reyndist ferðin frábærlega skemmtileg. Við höfðum pantað þann 4. til 9. maí, en tvö síðustu flug Primera/Heimsferða/TerraNova voru felld niður vegna lítillar þátttöku. Það hefur verið mjög lítil þátttaka, því að hvorki var fullt út né til baka. Við þurftum reyndar að borga aðeins meira, þó að þetta væri deginum styttri ferð, því að slíkur er verðmunur á hótelum í Vilnius á virkum dögum og helgum.

Artis Centrum Hotel Artis hótel, séð ofan af 4 hæð niður í afgreiðslusalinn (lobbýið)

Við þurftum líka að skipta um hótel, og vorum heppin með það því að Hótel Artis er betur staðsett en Conti, sem er nokkuð utan við Dögunarhlið (Gates of Dawn), sem markar skil gamla og nýja bæjar. Hótelið er við hliðina á Varnarmálaráðuneytinu og ofan við forsetahöllina. Þar fyrir neðan er Dómkirkjutorgið og Gediminasturninn. Sem sé neðarlega í gamla bænum, stutt ofan við ána Neris

Miðvikudagur 30. apríl

Dögunarhliðið
Nei, þetta er ekki skakki turninn í ... Myndin er tekin á 14mm og því kemur fram þessi linsuskekkja. Þetta er Dómkirkjan og turninn.

Komið var á hótelið nokkuð seint um kvöldið, þannig að við þurftum að fara út til þess að finna okkur stað til að borða á. Mjög margir staðir voru að loka, en Double Coffee eru með einn stað niður á Gediminas gatve (Guðmundargötu) þar sem opið er allan sólarhringinn. Þar fengum við ágætis léttan verð og komum okkur síðan heim á hótel.

Hótelherbergið var rúmgott og allt í góðu lagi, nema að fjögurra stjörnu hótel virðast ekki bjóða upp á kaffikönnu eða slíkt á herberginu. Minibarinn var hins vegar tiltölulega ódýr og ekkert mál að fá sér vatnsflösku þar.

Fimmtudagur 1. maí

Boðið var upp á gönguferð um gamla bæinn í fylgd leiðsögumanna á fimmtudagsmorgun 1. maí. Það var mjög skemmtileg og fróðleg ganga, því að þarna er gífurlega mikil saga. Húsin eru reyndar flest endurbyggð, en byggingarstíllinn er frá 14. til 19. aldar, jafnvel eitt og eitt hús örlítið yngra. Þarna úir og grúir allt af kirkjum og matsölustöðum og einnig má finna útimarkaði og búðir sem selja gripi úr rafi (amber) og vörur úr hör, bæði fatnað og leikföng.

Mörg falleg hús í gamla bænum frá ýmsum tímabilum

Eftir gönguferðina lögðum við okkur og fórum síðan út að borða. Við fórum niður á indverskan veitingastað neðar í götunni, Sue's Indian Raja (rétt fyrir ofan Klaipeda hótelið) og fengum þar frábæran indverskan mat.

Föstudagur 2. maí

Á föstudeginum var almennur frídagur í Litáen og Póllandi og var því allt krökkt af Pólverjum hvert sem farið var, enda var Litáen og Pólland sameinað í eitt ríki í ca 150 ár og náði ríkið allt til Svartahafs um tíma og var þannig stærsta ríki Evrópu. Þennan dag fórum við í ferð með leiðsögu í Trakai kastalann, sem er nokkuð suðvestan við Vilnius (eða Vilnus eins og heimamenn bera það fram). Þar er mjög fallegt. Mikil kyrrð þrátt fyrir allt fólkið.

Um kvöldið fórum við á Lokys á Stikliu gátve og fengum okkur villigölt, sem var ágætur á bragðið, en nokkuð mikið leður undir tönn. Maður borðar bara hægt.

Laugardagur 3. maí

Við komuna til Vilius tjáði fararstjórinn okkur að vegna ónógrar þátttöku hefði verið fellt niður "Litáska kvöldið", þar sem við áttum að fá að kynnast menningu og matargerð heimamanna. Þar með fór uppbót sem okkur hafði verið lofað þegar við þurftum að taka ákvörðunina um að breyta ferðinni eða að fara ekki. Billeg uppbót! ;-) Við þurftum því að sjá um okkur sjálf.

Við fórum um morguninn í KGB safnið og eyddum ca 3 tímum þar. Allmerkilegt safn, einkum fyrir þá sem ekki hafa séð stríðsminjasöfn áður. Þetta virkaði ekki eins sterkt á okkur hjónin eins og Oradour sur Glane.