Ég bættist fyrir helgina í hóp þeirra sem hafa fengið uppsagnarbréf. Ég er kannski lánsamari en margir aðrir að því leyti að ég er með sex mánaða uppsagnarfrest (í rauninni fimm, en fékk 6). Ég þarf því að setjast niður og vinna mitt CV og koma því til einhverra sem hugsanlega geta bætt við sig einhverjum með mína kunnáttu og getu.
Að vísu er fyrirtækið, sem ég vinn hjá, að vona að það komist yfir erfiða hjallann í febrúar eða mars. Gangi það upp, á ég von á að fá að halda áfram. Ég er hins vegar búinn að vera hjá fyrirtækinu í næstum 13 1/2 ár, þannig að það er kannski kominn tími til að hreyfa sig. Ekki svo að skilja að maður hafi staðnað i starfi hér. Öðru nær. Maður er alltaf að bæta við sig. Og ég hef fengið tækifæri til þess að brydda upp á nýjungum, svo sem að innleiða FrameMaker sem umbrotsforrit og er nú að innleiða breytingakerfi (versioning control) fyrir handbækurnar til þess að auka öryggi við útgáfubreytingar.
Þetta er búinn að vera mjög spennandi tími, og ég vona svo sannarlega að það megi verða svo áfram. En ég er líka tilbúinn að taka til hendinni áð öðrum stöðum.
Ég legg þetta í hendur Guðs eins og aðra hluti og bið hann að leiða mig þangað sem hann vill.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli