þriðjudagur, desember 09, 2008

Jesús eða Múhammeð - hvort viltu?

Skúli Skúlason hefur verið að skoða Islam og múslíma. Í grein sinni ABU HAMZA OG ELDPREDIKANIR HANS ber hann saman eitt grundvallaratriði:

,,Sælir eruð þér, þá er menn smána yður. Ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður. Jesús (Matteus 5:11).
,,Og drepið þá hvar sem þér finnið þá og rekið þá út þaðan sem þeir ráku ykkur áður út, því ofsóknir eru verri en slátrun.” (merkir: vantrú er verri en morð). Kóran: 002:191.

Hvorum mundir þú vilja fylgja, Jesú eða Múhammeð?

Eitt ráð: Fáðu þér bæði Biblíuna og Kóraninn og berðu saman kenningar Kóransins og kenningar Jesú.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Sigmundur Ernir: Hvernig væri að hafa raunverulegan áhuga?

Vísir slær upp:
Mikil svörun við kvörtunum Sigmundar

Ég er einn þeirra sem ekki eru hissa á að Sigmundur Ernir eigi erfitt með að fá menn í þáttinn hjá sér. Mér hefur alltaf þótt pólitískur áhugi hans af heldur skornum skammti og það sem hann sýnir hrein uppgerð á stundum. Og hann hefur oftsinnis sjálfur talað niðrandi um pólitík almennt og sagst lítinn áhuga hafa á slíkum málum.

Hvernig í ósköpunum geta menn þá búist við að fá alvöru spurningar? Reyndin er sú að hann kemur iðulega með skrifaðar eða undirbúnar spurningar til viðmælenda sinna, en ef svarið býður upp á frekari spurningar, þá er hann ekki betur heima en að hann einfaldlega sleppir slíku.

Maður sem stýrir umræðuþætti þarf að hafa brennandi ástríðu fyrir umræðuefninu, ekki bara því að vera stjarna.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Er að leita að nýrri vinnu

Ég bættist fyrir helgina í hóp þeirra sem hafa fengið uppsagnarbréf. Ég er kannski lánsamari en margir aðrir að því leyti að ég er með sex mánaða uppsagnarfrest (í rauninni fimm, en fékk 6). Ég þarf því að setjast niður og vinna mitt CV og koma því til einhverra sem hugsanlega geta bætt við sig einhverjum með mína kunnáttu og getu.

Að vísu er fyrirtækið, sem ég vinn hjá, að vona að það komist yfir erfiða hjallann í febrúar eða mars. Gangi það upp, á ég von á að fá að halda áfram. Ég er hins vegar búinn að vera hjá fyrirtækinu í næstum 13 1/2 ár, þannig að það er kannski kominn tími til að hreyfa sig. Ekki svo að skilja að maður hafi staðnað i starfi hér. Öðru nær. Maður er alltaf að bæta við sig. Og ég hef fengið tækifæri til þess að brydda upp á nýjungum, svo sem að innleiða FrameMaker sem umbrotsforrit og er nú að innleiða breytingakerfi (versioning control) fyrir handbækurnar til þess að auka öryggi við útgáfubreytingar.

Þetta er búinn að vera mjög spennandi tími, og ég vona svo sannarlega að það megi verða svo áfram. En ég er líka tilbúinn að taka til hendinni áð öðrum stöðum.

Ég legg þetta í hendur Guðs eins og aðra hluti og bið hann að leiða mig þangað sem hann vill.