þriðjudagur, desember 12, 2006

Nýi bassinn

Jæja! Sá gamli komin með þann gráa? Eða jafnvel verra: "old man's folly"?

Það verður tíminn að leiða í ljós. En sem sé, ég var að fá mér einn þann rosalegasta bassa sem sést hefur "hér á landi á" eins og kántrýkóngurinn orðaði það í hástemdu ljóði. Ég fór að hafa endurnýjaðan áhuga á að prófa að spila á bassa í fyrrahaust. Þessi löngun mín hafði lagst í dvala fyrir mörgum árum síðan, enda enginn til að spila með og bassinn ekki beint tilvalið einleikshljóðfæri. En alltaf hefur hann togað í mig.

Fyrir um ári síðan fór mig að langa aftur til þess að prófa þetta en það var ekki fyrr en sl. vor að ég fór að skoða málið af alvöru. Að lokum talaði ég við Gústa minn, sem er, eins og allir, sem þekkja hann vita: snillingur á bassa og hafði a.m.k. átt bandalausan bassa, sem hann hafði m. a. notað á Narsissu diski. Hann var til í að lána mér bassann. Þetta var Peavy einhver sérútgáfa með tveim aktívum pikkuppum, á margan hátt skemmtilegur bassi, en mér fannst hálsinn full mjór, einkum við hálsinn. Ég náði mér í upplýsingar á netinu og byrjaði að æfa ... og æfa ... og ... ég varð bara ekkert leiður á dæminu. Þetta var bara meira og meira gaman. Ég var búinn að sækja dálítið samkomur hjá Íslensku Kristskirkjunni, og þegar vantaði bassaleikara þar, þá fann ég alltaf fyrir bassanum í höfðinu á mér. Á endanum hafði ég samband við þá og kom í prufu í byrjun okt. 2006 og byrjaði strax að spila sunnudagsmorguninn eftir.

Það gat náttúrulega ekki gengið til lengdar að vera alltaf með láns bassa, svo að ég fór alvarlega að kíkja á bassa. Mér fundust þeir flestir of dýrir eða ekki nógu góðir, sem ég sá í búðunum hér, svo ég skannaði netið, einkum eBay. Fljótlega fór ég að rekast á furðusmíðar sem vökt athygli mína. Þetta voru handsmíðaðir bassar, yfirleitt bandalausir, oftast mjög óvenjulegir í laginu, stundum ljótir, stundum flottir.

Ég ákvað að kanna málið nánar og skoðaði vefinn hjá wishbass.com og annan vef, þar sem Steve Wishnevsky er með sýnishorn af akkústik hljóðfærum, sem hann smíðar. Einnig skoðaði ég umsagnir á Harmony Central, en þær voru undantekningarlítið mjög góðar. Á endanum stóðst ég ekki mátið, þegar ég sá þennan bassa auglýstan á góðu verði (eins og reyndar allt hjá þessum gæja. Það er eihver hugsjón hjá þessum gamla hippa að smíða góð hljóðfæri á góðu verði, helst úr viði frá Bandaríkjunum. Þetta var það sem ég vildi. 5 strengja, 3 áttundir mikið sustain og frábært pickup, Kent Armstrong Humbucker keramískt sápustykki, passíft, en með mikinn kraft og tónvídd. Boddýið er úr padúk viði frá Afríku eða Asíu, tveir helmingar límdir á þynnu úr hlyn, en hálsinn, sem er heill í gegn, er úr rósaviði, mahóný og hlyni. Fingrabrettið er úr rósaviði. Strengirnir ganga gegnum búkinn, og eykur það eigin hljóm bassans mjög. Ég kýldi á bassann og fékk góða tösku fyrir 50 USD með (50% afsl.).

Smá töf varð á sendingu hjá ShopUSA vegna mistaka í vöruhúsi, en annars stóðu þeir sig vel, enginn aukakostnaður þó að þetta færi í flug.

Og svo kom bassinn. Hann virtist stærri en ég hafði reiknað með. Wish hafði þurft að víkka út í töskunni til að koma honum fyrir, og bassinn vó 4,5 kg, en ekki 4.0 eins og hann hafði gefið í skyn ("8 lbs on the old bathroom scale").

Í ágústlok eða septemberbyrjun fékk ég mér Vox T-60 bassamagnara, frábæran til æfinga og fyrir lítil gig. Ég hafði prófað hann á 5-strengja bassa og skilaði hann honum vel. Wishbass bassinn skilaði sér enn betur. Strengirnir reyndar óvenju bjartir, en auðvelt að stilla tónin á 4ra banda tónjafnaranum á magnaranum, sem auk þess er með svokölluðum "bassilator", sem bætir áttund neðar við tóninn. Í Íslensku Kristskirkjunni hljómaði gamli 200w Gallien-Kruger magnarinn allt í einu vel, þegar þessi bassi var kominn við.

Það tók smá tíma að venja sig á svo sveran háls, sem Wish býður uppá, en síðan er hann mjög þægilegur. Og nú er bara að æfa sig...

Ef þetta er "old man's folly" eða grár fiðringur, þá stendur það alla vega enn.

Ég þarf að fá mér betri strengi fljótlega, og einnig góða ól og kannski eitthvað til að hengja bassann upp á.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Ósanngjarnar kröfur múslíma

Háværar eru kröfur múslíma þessa dagana um friðhelgi fyrir "guðlasti", sem birst hefur í blöðum í formi teikninga, jafnvel skopteikninga, af Múhameð "spámanni". Jafnframt gera múslímar kröfur til þess að fá að byggja moskur sem víðast á vesturlöndum.

Hvernig væri að skoða hvernig hlutunum er varið í heimalöndum múslíma, þar sem þeir eru í meirihluta og hafa stjórnvaldið.
  1. Leyfa þeir byggingu kristinna kirkna? Óvíða.
  2. Leyfa þeir múslímum, sem það vilja, að gerast kristnir? Nei. Þeir sem vilja verða kristnir eru ofsóttir með ýmsu móti, bæði með því að hafna þeim viðurværis, með fangelsunum og jafnvel með lífláti.
  3. Sýna þeir öðrum trúarbrögðum virðingu? Yfirleitt ekki. Þó eru í Malasíu lög, sem skylda þegnana til að sýna trúarbrögðum hver annars virðingu, og ég held að þau séu almennt virt.
Væri ekki eðlilegt að stjórnvöld á vesturlöndum nýttu tækifærin (þau sem þeir hafa ekki enn glatað) til þess að þrýsta á stjórnvöld múslímaríkja að auka trúfrelsið í þeirra löndum?

Hvað finnst ykkur?

mánudagur, febrúar 13, 2006

Túskildingsóperan og Þjóðleikhúskjallarinn

Konan bauð mér í leikhúsferð á föstudagskvöldið var með vinnustaðnum hennar. Þau langaði að sjá Túskildingsóperuna. Mig hafði ekki langað, en þegar þeir sýndu í sjónvarpi frá sýningunni, virtist hún orðin spennandi, og ég var til. Það átti að byrja á því að fara út að borða og varð Þjóðleikhúskjallarinn fyrir valinu. Ætti ekki að geta klikkað.

Kvöldverðurinn

Það átti að mæta kl. 18:00 þannig að það ætti að gefa þokkalegan tíma til að njóta matarins. Jæja. Súpan var borin fram einhvern tíma eftir kl. 19:00. Þokkaleg. Gulrótarsúpa. Maturinn kom ekki fyrr en um 19:40 og var rétt volgur, borinn fram á köldum diskum, þannig að á örfáum mínútum var maturinn orðinn kaldur. Slæmt, ekki síst vegna þess að ef maturinn hefði verið þokkalega hlýr, hefði hann verið mjög góður. Þjónustan bar auk þess því vott að óvant fólk væri að þjóna til borðs.

Hvað eru þeir menn að hugsa sem reka þennan veitingastað? Vilja þeir ekki viðskipti? Nokkrir gerðu athugasemdir, en engin viðbrögð komu við þeim úr eldhúsinu. Hefðum við ekki verið orðin tímabundin (sýningin átti að hefjast kl. 20:00), þá hefði maður skilað matnum og beðið um heitan.

Túskildingurinn

Sýningin átti að hefjast kl. 20:00, en eitthvað olli því að ekki var byrjað að hleypa inn fyrr en korteri yfir. Allt í lagi svosem með það -- föstudagskvöld og enginn að flýta sér.

Við sátum á 8. bekk, sem er kannski full framarlega fyrir þessa sýningu. Í hljómsveitinni voru valinkunnir hljóðfæraleikarar, en einhvern veginn hljómaði flutningurinn groddalega -- líkt og í lélegri lúðrasveit á 7. áratugnum. Reyndar engar falskar nótur. Sýningin byrjaði glæsilega með liprum söng og líkamshreyfingum (les=dansi) Selmu Björnsdóttur og lofaði góðu um framhaldið. Því miður var ekki staðið við það loforð. Um það er engan veginn leikurum um að kenna. Þeir stóðu sig með stakri prýði. Einkum Egill Ólafsson og Ólafía Hrönn, sem oft er mistæk, en ekki hér.

Ekki veit ég hvort Stefán Jónsson á þessa leikgerð, en hún er gjörsamlega misheppnuð. Sagan, sem er væntanlega það sem ber uppi leikrit, týndist gjörsamlegq í alls konar sniðugum uppákomum og uppátækjum. Sömuleiðis mórallinn. Hvað átti verkið að færa okkur dauðlegum leikhúsgestum? Maður gat engan veginn séð tilganginn með helmingnum af þessari akróbatik auglýsingum o.s.frv., kannski vegna þess að það var of mikið af þeim og þessir hlutir voru ekki settir inn í neitt samhengi.

Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort leikhúsfólk (leikarar, leikstjórar etc) sé orðið leitt á sjálfu sér.

Túskildingsóperan er ekkert stórvirki í leiklistarsögunni, tónlistin einkennist af þeirri tónlistarþreytu, sem einkenndi svo margt fram eftir síðustu öld. En verkið varð ennþá minna í þessum búningi.

Ég er reynslunni ríkari og reyni væntanlega næst að vanda betur til vals á því sem ég kaupi mig inn á.