mánudagur, nóvember 07, 2011

Minn Guð og ég

Það má kalla þetta ljóð.

Minn Guð og ég

Minn Guð er svo stór
  hann er inni í tímanun og utan hans
  hann er inni í efninu og utan þess—
í stuttu máli
  hann er bæði inni í og utan við sköpun sína.

Og sköpunin er ekkert minni háttar verk.
Í dag þykjast menn hafa séð—eða öllu heldur reiknað út—endimörk heimsins
en hafa þeir allar forsendur til þess að reikna út stærð hans?
(Og hvað er þá fyrir utan endimörkin?)

Milljarðar ljósára. Ótrúlegur massi af efni.
Og svo er efnið mestan part ekkert nema mismunandi rafsvið (eftir því sem fræðingar hafa komist næst).

Og þessi stóri Guð, sem allt þetta hefur gert
  hann elskar mig
  —litla mig.

Eins og borðið, stóllinn, húsið, fiðlan, flygillin
  vitna um höfunda þess:
arkitektinn, smiðinn, handlangarann,
—þessi er frábær—þessi hefur engan smekk, enga getu—þessi fer á spjöld sögunnar
—Michaelangelo, DaVinci, Stradivarius, Baldwin, Guðmundur Samúelsson—
þannig vitnar sköpunarverkið:
alheimurinn, sól, jörð, tungl, eldfjöll, hafís, Grænlandsís, hverir, móar, sóleyjar, fíflar, störinn, sandurinn, fiskarnir, kýrin á básnum, hundurinn, flóin, starrinn, lóan,
þannig vitnar allt um höfund þess, arkitekt, smið, handlangara, hann sem er allt í öllu.

Þannig opinberar hann sig öllum hugsandi verum.
Og okkur, mönnunum, opinberar hann sig einnig í sínu orði fyrir munn
spámanna sinna, postula sinna,
gegnum ritara Heilagrar ritningar
og gefur mér kost á nánari kynnum.

Hann segir mér að það,
að hugrenningar mínar og samviska ýmist ásaka mig eða afsaka,
sé vegna þess að ég sé syndari—samviska mín sé ekki hrein,
ég þurfi að þvost af syndum mínum.
Hann segir mér að forfeður mínir hinir fyrstu hafi verið skapaðir hreinir,
  með hreina samvisku.
En svo kom eitthvað og truflaði þá.
Beindi augum þeirra annað.

Og þeir hrösuðu.
Sviku Guð.
Völdu eftirsókn eftir visku fremur en eftirsókn eftir lífinu.
Þá var samviska þeirra ekki lengur hrein.
Þeir þurftu að fela sig
fela sig fyrir Guði.
Þeir þurftu að hylja sig.
Allt í einu varð egóið til.
Guð var ekki lengur vinur
heldur óvinur,
fannst þeim, sem áður höfðu lifað eingöngu fyrir hann.

En Guð kom strax með plan B:
Hann skyldi senda son sinn til þess að friðþægja
  svo að við gætum hreinsast.
Er nokkuð sem hindrar?
Já, því miður: Egóið.
Egóið er alltaf að þvælast fyrir.

„Sá sem ekki afneitar sjálfum sér er mín ekki verður,“ sagði Sonurinn.
Hann hafði afneitað sínu sjálfi. Í staðinn kom sjálf Föðurins.
Og mennirnir hötuðu hann og krossfestu í bræði (meðan örfáir stóðu þegjandi hjá).

Yfirgefinn af öllum, yfirgefinn af Guði sjálfum, fór hann
  úr heimi héðan til dánarheima.
En vegna réttlætis síns, vegna þess að hann hafði afneitað sjálfum sér,
gat dauðinn ekki haldið honum.

Og hann reis upp frá dauðum og birtist mörgum, já allt að
fimm hundruðum í einu,
en líka fáum í senn.
Birtist, talaði, mataðist, hvarf á ný
og steig að lokum upp til himna að mörgum ásjáandi.
—Og þeir horfðu bara upp í loftið í undrun.

Þá kom engill og sagði við þá:
„Á hvað eruð þið eiginlega að glápa? Hann er farinn. Hvað sagði hann ykkur?“
—Heldur svona aulalegt fyrir þá.

Hann hafði lofað þeim úthellingu Heilags anda.
Og það rættist á hvítasunnudag, þar sem saman var komið fólk hvaðanæva úr heiminum.
Heilagur andi, sem sannfærir um synd, réttlæti og dóm
  hann sannfærði.

Hann hefur sannfært mig.
Ég vil hafa þennan Guð.
Hann hefur frelsað mig með því að gefa mér réttlæti Sonar Guðs, Jesú Krists.
Hann hefur þvegið mig í „blóði Lambsins sem úthellt er frá upphafi heims“.

Takk, Jesús.
Takk, minn Guð, þú ert svo stór.

mánudagur, ágúst 01, 2011

Amsturdammur og Hitta í Mosfellssveit

Í föðurætt er ég af Klingenbergsætt, eins og sagt er í upphafi þessa bloggvefjar. Ætt föðurömmu minnar er hins vegar rakin til Miðdals í Mosfellssveit (og víðar). Sonur Gísla Helgasonar og Arndísar Jónsdóttur, þar búandi 1789, Gísli Gíslason bjó með konu sinni, Guðrúnu Sigmundsdóttur, að Hittu, Amsturdammi og Varmá. Ég hef átti í vandræðum með að staðsetja Amsturdamm, en rakst á þessa athugasemd Sigurðar Hreiðarssonar við athugasemd við athugasemd á bloggi hans:
21 
Smámynd: Sigurður Hreiðar

[...klippt...]
En Helga Guðrún -- um götunafnið Amsturdam -- um aldir var kot til í Mosfellssveit sem stóð milli Reykja og Helgafells litlu austar en stóru byggingarnar í Reykjalundi standa nú sem hét Amsturdammur. Tvennum sögum fer af tilurð heitisins, ég hef séð því haldið fram að það hafi í öndverðu byggt Hollendingur sem kom frá Amsterdam en almenna skýringin og sú sem mér líkar engu síður er að þetta kot hafi verið óttalegur amstursdammur. Svo þegar hús tóku að rísa við heimreiðina að rústum gamla eyðikotsins kom þetta götuheiti nánast af sjálfu sér, Amsturdam.
Sigurður Hreiðar, 21.9.2008 kl. 12:24
Takk fyrir þessar upplýsingar, Sigurður.

Hitta mun hins vegar hafa verið kotbýli í túninu á Mosfelli, eftir því sem kemur fram í upphafi "Niðjatals frá Gísla Helgasyni bónda 1765-1836 og konu hans Arndísi Jóhsdóttur 1770-1838, samanteknu og skrásettu af Jóhanni Eiríkssyni, Reykjavík 1955".
Einhvers staðar rakst ég á það að upprunalegt nafn Hittu hefði getað verið Hytte, en mér finnst það satt að segja ólíklegt. Svo mikið er til af skrítnum nöfnum (að því er núlifendum finnst) og mörg sem hafa glatað merkingu sinni.

Af þessari ætt eru m. a. Sr. Jónas Gíslason heitinn og Michelsenarnir í Hveragerði, en Sigríður Ragnarsdóttir giftist 1940 Paul Valdemar Michelsen garðyrkjumanni, syni Jörgens Franch Michelsen úrsmiðs.

miðvikudagur, júlí 13, 2011