miðvikudagur, júlí 02, 2008

Paul Simon tónleikarnir í Laugardalshöll

Það var næstum troðfullt í Laugardalshöll í gærkvöldi þegar Paul Simon og hljómsveit stigu á svið u.þ.b. korter yfir átta. Á sviðinu voru til reiðu einhverjir 20 gítarar og bassar af ýmsum gerðum, stórt trommusett, stórt "bongótrommusett" eða slagverkssett, ein fjögur hljómborð, flauta sem gæti verið ættuð frá Andesfjöllum, saxófónar af nokkrum gerðum, trompet og fleira.

Palli byrjaði með stuðsmelli, en svo komu ýmis ný og ókunn lög í bland við gamalt og rólegra. Smám saman fór hann yfir í meira af þekktustu lögum sínum og endaði á nokkrum þekktum smellum, m.a. "You Can Call Me Al" og "Diamonds On The Soles Of Her Shoes".

Með karlinum, sem mun vera 67 ára að aldri, voru nokkrir tónlistarmenn sem verið höfðu með honum allt frá því á Graceland plötunni, eftir því sem mér var sagt. Ótrúlega góðir. Svo var einnig um hina.

Hljóðið var þétt og hljóðblöndun nokkuð góð, nema hvað húsið virtist drepa bassaleikinn í ofmögnuðum bassatrommum, alla vega á þeim stað sem ég var, fyrir miðjum vinstri væng, rétt framan við mitt gólf.

Það var hrein unun að taka inn þessa oft flóknu blöndu af textum (skáldið Paul Simon), lögum (lagasmiðurinn Paul Simon) og flóknum takti og útsetningum (heimstónlistarmaðurinn Paul Simon).

Keyrslan var á fullu til kl. 22:20 fyrir utan tvö uppklöppunarhlé, sem greinilega var gert ráð fyrir, því að kynning meðlima hljómsveitarinnar hófst ekki fyrr en rétt fyrir fyrri uppklöppun og lauk einhverjum einu eða tveim lögum fyrir lok tónleikanna.

Tónleikagestir klöppuðu mikið á milli atriða, en tóku samt ekki almennilega við sér fyrr en eftir uppklöppun og sungu fullum hálsi með í "The Boxer". Einkum var áberandi hvað þeir kunnu vel "La-la-la" hluta viðlagsins. ;-)

Frábærir tónleikar.


Takk fyrir, Paul Simon og hljómsveit.

Nú er bara beðið eftir Art Garfunkel. Hann er líka góður en allt öðruvísi.