miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Brubeck enn að, 89 ára

The Groove Radio á Florida segir frá því að þeir eru styrktaraðilar að konsert Dave Brubecks í Fort Pierce

Vegna breytilegra upplýsinga á The Groove, er rétt að benda líka á þennan tengil:
WGRV The Groove Presents
DAVE BRUBECK
LIVE IN CONCERT

en þar segir reyndar ranglega að hann sé 84 ára. Hann mun vera fæddur 1920, svo að við þurfum að bæta 5 árum við. Brubeck er bókaður fram yfir mitt sumar víða um Bandaríkin og einnig í London og í Torontó í Kanada.

Merkilegt að meðan svo ótalmargir jazzarar hafa látist löngu fyrir aldur fram, þá lifir þessi snillingur í hárri elli og gefur ekkert eftir. En hann hefur reyndar lifað heilbrigðara lífi en flestir jazzarar eins og kunnugt er, enda trúaður kristinn maður, eins og hann hefur oft tekið fram og kemur nokkuð ljóst fram í síðari verkum hans, sjá upplýsingar á heimasíðu Brubecks.

Svona til að skýra tengslin við The Groove, þá fékk ég upplýsingar um þessa útvarpsstöð þegar við Ásta vorum að hlusta á Annie Sellick á Heidi's Jazz Club á Cocoa Beach á Florida, en einn aðalkosturinn við Florida er að þar finnur maður alls staðar einhverja góða jazzstöð í útvarpinu hvenær sem er sólarhringsins. Bara að maður gæti fengið eitthvað í námunda við það hér.

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

"The other side of Slumdog Millionaire"

The other side of Slumdog Millionaire

It seems that the Western world has some issues with the poverty shown in the subject film. I just came across this interesting article by KR Ravi and thought I should share it with you. :-)

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Samfylkingarblogg -- verið að vinna í gagnvirkum vef

Þeir voru fljótir að svara mér hjá Samfylkingunni og segja mér að það sé:

í gangi vinna við nýjan vef Samfylkingarinnar þar sem hvers kyns gagnvirkni og þátttaka almennra félagsmanna og annarra áhugamanna um stjórnmál verður í fyrirrúmi. Stefnt er að því að sá vefur verði opnaður um aðra helgi.

Ég læt mig bara hlakka til. :-)

Samfylkingarblogg -- eða ekki...

Hnappar sem m. a. vísa á bloggsíðuna

Mig hefur oft langað til þess að sjá hvað hinn almenni Samfylkingarmaður hefur að segja í hinum lýðræðislegu og opnu stjórnmálasamtökum, Samfylkingunni. Þarna er þessi hnappur fyrir bloggið:
Bloggið!

Bloggið - okkar fólk á vefnum

En þar er ekkert blogg að finna, aðeins fjölda tengla á fyrirfólk Samfylkingarinnar, ýmist heimasíður eða bloggsíður.

Er þetta leiðin til opinnar umræðu? Gætum við ekki lært eitthvað af unga fólkinu hér?

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Geir eykur enn á niðurlægingu sína

Geir vildi ná í Brown en fékk ekki samband.

Maður fær það á tilfinninguna að Geir hafi verið því fegnastur þegar Brown reyndist vera upptekinn (kannski var bara á tali?). Hann slapp þá við þetta erfiða símtal. Tölum þá bara við undirmanninn, Darling.

Að maður skuli vera að eyða tíma og kröftum í að blogga um svona mikla niðurlægingu. Maður ætti bara að gera eins og Geir og láta sem ekkert hafi gerst.

Sigurður ruddi

Maður getur stundum hlegið að sjálfum sér, hvað maður getur fengið út úr því sem maður skyndiles eða kastar augunum yfir. Ég var að kíkja á iGoogle desktoppinn minn og sá fyrst af öllu þetta: "Sigurður ruddi" og svo eitthvað meira. Upp í hugann kemur með það sama að einhver hafi verið að kalla einhvern Sigurð ónöfnum. En það var víst ekki málið. Þarna var vísun í frétt Mbl (eins og glögglega kemur fram) um að Sigurður heitinn Helgason hafi rutt lággjaldaflugfélögum braut. Sjá: "Sigurður ruddi lággjaldaflugfélögum braut".

mánudagur, febrúar 16, 2009

Davíð segir "Geltu!" - Davíð og dularfulla bréfið

Merkileg framkoma Geirs H. Haarde í dag á Alþingi. Hann er kannski svolítið óvanur venjulegum þingstörfum hafandi verið ráðherra mestalla sína "alþingistíð". En augljóslega kom "leki" úr Seðlabankanum og Geir, eins og aðrir góðir Snatar, gelti eins og til stóð.

Dapurlegt að hann skuli ekki sjá hvernig Davið niðurlægir hann aftur og aftur. :-( Það er hins vegar skiljanlegra með stuttbuxnadrengina Sigurð Kára og Co.

"Jón Baldvin varpaði tímasprengju" - Undarleg skrif

Þessi athugasemd mín við blogggrein Björgvins Guðmundssonar er ekki komin inn eftir hálfan dag, þannig að ég birti hana hér:

Sæll Björgvin.

Þú hefðir átt að vera á fundinum. Þetta var ekki tímasprengja. Þetta var sprengja og hún sprakk strax.

Finnst þér virkilega að Ingibjörg hafi staðið sig vel? Ég studdi hana til formennsku í Samfylkingunni, en mér finnst hún hafa brugðist, annað hvort vegna linkindar við Geir eða vegna þess að hún sjálf áttaði sig ekki á alvarleika stöðunnar. Hún er í þeirri stöðu sem formaður að henni er trúað fyrir að gæta hagsmuna okkar, bæði Samfylkingarmanna almennt, kjósenda og landsins alls.

Ég varð þeirrar skoðunar -- reyndar nokkuð seint, finnst mér núna -- eða í lok nóvember sl. að eftirfarandi ættu að segja af sér:

  • Seðlabankastjórar og bankaráð Seðlabankans;
  • Forstöðumaður FME og jafnvel stjórn FME, þó svo að Jón Sig hafi setið stutt og sé varla um að kenna;
  • Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra (vegna þess að hún er formaður Samfylkingarinnar) og Viðskiptaráðherra.

Sumir þessara áttu að segja af sér vegna þess að þeir áttu sök á málum beinlínis, en aðrir vegna þess að þeir höfðu sofið á verðinum. Miðað við það sem almenningur veit í dag, þá er það afskaplega dapurlegt að þeir sem höfðu miklu betri aðgang að öllum upplýsingum og hafði verið trúað fyrir hinum hæstu stöðum, skyldu ekki vera vakandi.

Það þarf líka að skapa traust innanlands og utan.

Uppskeran er heldur rýr miðað við þetta. Þú veist sjálfur hverjir hafa sagt af sér og hvejir hafa verið látnir fara og hverjum er verið að reyna að koma frá. Ingibjörg Sólrún á að hafa vit á að segja af sér eða alla vega að tilkynna að hún verði ekki í framboði til formennsku, eða taki sæti á næsta þingi.

Ég er að sjálfsögðu sammála þér að það sé fyrst og fremst Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. (hinn gamli alla vega), sem bera pólitíska ábyrgð á málum, en hinir bera líka ábyrgð, sem sofna á verðinum.

Sprengjan er sprungin. Jón Baldvin var með lausnina fyrir 14 árum síðan, sem hefði komið í veg fyrir þetta alvarlega ástand. Þjóðin hafnaði honum þá, af því að hún kaus að trúa rógsherferð Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna (og fleiri, jafnvel Samfylkingarmanna).

Jón Baldvin er sá eini reynslubolti í pólitík, sem ég þekki, sem er algerlega frír við að hafa stungist af þessum svfnþorni, sem þjóðin virðist hafa verið stungin af. Hann var líka með lausnina: Inngöngu í ESB.

Ég segi: Jón Baldvin sem formann Samfylkingarinnar. Hann gerir sér grein fyrir stöðunni. Hann mun ekki láta menn komast upp með að sluxa við björgunarstörfin. Hann hefur reynsluna. Hann er eini kosturinn sem ég sé í stöðunni. Áður en hann kastaði þessari sprengju, var ég alvarlega að íhuga Framsóknarflokkinn, hvort endurnýjunin þar væri nægileg til þess að hann gæti komið til greina fyrir vonsvikinn krata.

Með vinsemd.

Böðvar Björgvinsson
krati síðan 1978.

Við þetta má bæta að Jón Baldvin setur stundum fram hluti til þess að fá viðbrögð við þeim eða að koma einhverju öðru af stað, þannig að ekki er svo sem víst að hann meini neitt með því í rauninni að hann ætli í framboð. Hann gæti hins vegar miklu frekar verið að knýja Ingibjörgu Sólrúnu til svara.

föstudagur, febrúar 13, 2009

Týndir snillingar - Kristín Liljendahl

Það er eins og sumir hverfi einfaldlega af yfirborði jarðar eftir að hafa hlotið frægð. Einn slíkra er söngkonan Kristín Liljendahl, sem söng svo eftirminnilega "Ég skal mála allan heiminn, elsku mamma". Hvað varð eiginlega af henni? Mér þætti vænt um svör.

Einnig er spurning um höfunda lags og texta. Upplýsingum á Netinu ber ekki saman, þar sem tveir aðilar segja lagið sænskt (enginn höfundur) og textann eftir Hinrik Bjarnason, en einn að lagið sé eftir Hinrik Bjarnason og textinn eftir Iðunni Steinsdóttur.

Það vantar upplýsingar um svona hluti á heimsnetið. Og hananú!