mánudagur, september 17, 2007

Debetkortin étin

Mig vantaði aldrei þessu vant skotsilfur um daginn. Ég fór í hraðbanka og setti debetkort í. Smástund leið og þá kom tilkynning á skjáinn: "Þetta kort er útrunnið." og síðan gerðist ekkert meira. Hraðbankinn át mitt útrunna kort.

Jæja. Það gat víst vel verið. Hafði ég ekki fengið einhverja tilkynningu í sumar um að "á næstunni" yrði gefið út nýtt kort? Þá er bara að prófa annað debetkort. Með semingi setti ég það inn. Það væri varla útrunnið líka? Ef svo, þá væri það hvort eð er einskis virði.

Inn fór kortið. Smástund leið. Tilkynning á skjánum: "Þetta kort er útrunnið."

Tvö kort, tveir bankar, sinn netbankinn á hvorn og engar meldingar hafði ég séð þar til að minna mig á að ég ætti tilbúið kort. Skyldi það kosta bankana mikið að setja inn svoleiðis tilkynningu meðfram öllum hinum tilkynningunum sem mér koma ekkert við -- um tilboð þetta og miða þarna.

Það versta við þetta er að á einhvern undarlegan hátt finnst manni maður hafa verið rændur. Það var sett fyrir mig gildra hér um árið úti í París og veskinu mínu stolið. Það var ótrúleg líðan sem ég upplifði. Ónot, reiði, minnimáttarkennd. Tilfinningarleg viðbrögð við þessu kortaáti hraðbankans hafði einnig ögn af þessari tilfinningu í för með sér, ca 20%, ef ég ætti að reyna að mæla það.

Bankarnir keppast um að vera með ánægðustu kúnnana. Væri ekki ráð að þeir fengju sálfræðinga sína og ímyndarsérfræðinga til að líta aðeins betur á þennan þátt. Nú eða bara auka upplýsingastreymið hvað þetta varðar. Þeir hafa jú netbankana sem við flest kíkjum á a.m.k. einu sinni á mánuði.

föstudagur, september 14, 2007

Gídeon NT 2007 tilbúið til prentunar

Það er stóráfangi í dag.

Í sumar tók ég að mér að brjóta um Nýja testamentið, Sálmana og Orðskviðina fyrir Gídeonfélagið á Íslandi. Ég tók rúmlega hálft sumarfríið í þetta. Því miður fékk ég bara í hendurnar Word fæla, sem voru vistaðir út úr InDesign, þannig að þó að þetta liti tiltölulega vel út (þökk sé InDesign), þá komu ýmsir gallar fram, sem gjarnan leynast í Word skjölum.

Ég byrjaði að brjóta þetta um í "unstructured" eða venjulegu FrameMaker umhverfi. Því miður er FM 7.x ekki með Unicode support og vestræni stuðningurinn strandar á Þorni og Eði. Þetta skapaði aukavinnu varðandi orðskiptingar, en engu að síður lenti ég í óvæntum vandamálum þar sem ég losnaði ekki við formöttunardrauga úr M$ Word. Ég ákvað því að prófa Structured FrameMaker. Þannig losnaði ég við þetta vandamál og um leið vannst það að efnið er betur endurnýtanlegt.

FrameMaker er ekki með venjulegt DropCap heldur setur maður slíka stafi í "Anchored Frame" með sérstökum reglum. Fínt. Ágætt. En, því miður, þegar á endasprettinn var komið, þá kom í ljós, þegar þurfti að jafna línur í síðurammana, þá virkar það ekki á síðum sem hafa Anchored frames. Ég varð því að sleppa þessum möguleika. :-(

Annað vandamál var með dálkajöfnun. Við ákveðnar aðstæður getur komið til að texti feli sig undir botni síðuramma, 1-2 línur. Það er hægt að "forca" það til baka, en alltaf er hætta á að það taki sig upp aftur, þannig að ég sleppti því að balansera dálka þar sem þetta kom fyrir. Í staðinn þurfti ég að "handjafna" með því að stytta viðeigandi síðuramma hæfilega.

Þetta er búið að vera mikil vinna flest kvöld og helgar síðan í sumarfríi, en nú er skjalið loksins komið til prentsmiðjunnar. Guði séu þakkir og lof. Það stendur reyndar ennþá uppá Alþjóðaskrifstofuna varðandi samþykki, og meðal annars þess vegna leyfðum við okkur að taka tíma til að prófa okkur áfram með ýmsa kosti. Ég lærði alla vega mikið á þessu.

Ég hlakka til þegar FrameMaker 8 verður orðinn stabill. Hann er með Unicode support. Ég var meðfram þessu verkefni að betatesta FM8 í 2-3 vikur í sumar. Það var virkilega gaman, en einhver galli hjá Adobe gerði það að verkum að ég (eins og reyndar fleiri) gat ekki notað prufuútgáfuna, sem hægt er að hlaða niður af vef þeirra. Þannig tapaði ég nokkurra daga vinnu, þar sem ég þurfti að endurvinna í FM7.2 mikið af því sem ég var kominn með þar.

En nú er þetta sem sagt búið - ég segi: með Guðs hjálp, því að allt var þetta lagt í hendur hans og honum treyst.

Næsta útgáfutegund ætti að taka skamman tíma.

fimmtudagur, september 13, 2007

Blaðið kom í dag!

Það er merkilegt með Blaðið. Dreifingu þess hefur heldur farið aftur en hitt, að því er virðist, síðan Moggamenn keyptu það. Nú fáum við það með helgarmogganum, en helst aldrei aðra daga. Maður nennir ekki lengur að hringja út af því að blaðið komi ekki. Það virðist þurfa að hringja á hverjum degi. Það er einfaldlega of mikið. Það sem ég sakna helst við að fá ekki blaðið eru skopteikningarnar, sem eru oft mjög góðar. Ætli mörgum fleirum sé farið eins og mér að nenna ekki lengur að hringja og kvarta undan Blaðleysinu?