miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Ósanngjarnar kröfur múslíma

Háværar eru kröfur múslíma þessa dagana um friðhelgi fyrir "guðlasti", sem birst hefur í blöðum í formi teikninga, jafnvel skopteikninga, af Múhameð "spámanni". Jafnframt gera múslímar kröfur til þess að fá að byggja moskur sem víðast á vesturlöndum.

Hvernig væri að skoða hvernig hlutunum er varið í heimalöndum múslíma, þar sem þeir eru í meirihluta og hafa stjórnvaldið.
  1. Leyfa þeir byggingu kristinna kirkna? Óvíða.
  2. Leyfa þeir múslímum, sem það vilja, að gerast kristnir? Nei. Þeir sem vilja verða kristnir eru ofsóttir með ýmsu móti, bæði með því að hafna þeim viðurværis, með fangelsunum og jafnvel með lífláti.
  3. Sýna þeir öðrum trúarbrögðum virðingu? Yfirleitt ekki. Þó eru í Malasíu lög, sem skylda þegnana til að sýna trúarbrögðum hver annars virðingu, og ég held að þau séu almennt virt.
Væri ekki eðlilegt að stjórnvöld á vesturlöndum nýttu tækifærin (þau sem þeir hafa ekki enn glatað) til þess að þrýsta á stjórnvöld múslímaríkja að auka trúfrelsið í þeirra löndum?

Hvað finnst ykkur?

mánudagur, febrúar 13, 2006

Túskildingsóperan og Þjóðleikhúskjallarinn

Konan bauð mér í leikhúsferð á föstudagskvöldið var með vinnustaðnum hennar. Þau langaði að sjá Túskildingsóperuna. Mig hafði ekki langað, en þegar þeir sýndu í sjónvarpi frá sýningunni, virtist hún orðin spennandi, og ég var til. Það átti að byrja á því að fara út að borða og varð Þjóðleikhúskjallarinn fyrir valinu. Ætti ekki að geta klikkað.

Kvöldverðurinn

Það átti að mæta kl. 18:00 þannig að það ætti að gefa þokkalegan tíma til að njóta matarins. Jæja. Súpan var borin fram einhvern tíma eftir kl. 19:00. Þokkaleg. Gulrótarsúpa. Maturinn kom ekki fyrr en um 19:40 og var rétt volgur, borinn fram á köldum diskum, þannig að á örfáum mínútum var maturinn orðinn kaldur. Slæmt, ekki síst vegna þess að ef maturinn hefði verið þokkalega hlýr, hefði hann verið mjög góður. Þjónustan bar auk þess því vott að óvant fólk væri að þjóna til borðs.

Hvað eru þeir menn að hugsa sem reka þennan veitingastað? Vilja þeir ekki viðskipti? Nokkrir gerðu athugasemdir, en engin viðbrögð komu við þeim úr eldhúsinu. Hefðum við ekki verið orðin tímabundin (sýningin átti að hefjast kl. 20:00), þá hefði maður skilað matnum og beðið um heitan.

Túskildingurinn

Sýningin átti að hefjast kl. 20:00, en eitthvað olli því að ekki var byrjað að hleypa inn fyrr en korteri yfir. Allt í lagi svosem með það -- föstudagskvöld og enginn að flýta sér.

Við sátum á 8. bekk, sem er kannski full framarlega fyrir þessa sýningu. Í hljómsveitinni voru valinkunnir hljóðfæraleikarar, en einhvern veginn hljómaði flutningurinn groddalega -- líkt og í lélegri lúðrasveit á 7. áratugnum. Reyndar engar falskar nótur. Sýningin byrjaði glæsilega með liprum söng og líkamshreyfingum (les=dansi) Selmu Björnsdóttur og lofaði góðu um framhaldið. Því miður var ekki staðið við það loforð. Um það er engan veginn leikurum um að kenna. Þeir stóðu sig með stakri prýði. Einkum Egill Ólafsson og Ólafía Hrönn, sem oft er mistæk, en ekki hér.

Ekki veit ég hvort Stefán Jónsson á þessa leikgerð, en hún er gjörsamlega misheppnuð. Sagan, sem er væntanlega það sem ber uppi leikrit, týndist gjörsamlegq í alls konar sniðugum uppákomum og uppátækjum. Sömuleiðis mórallinn. Hvað átti verkið að færa okkur dauðlegum leikhúsgestum? Maður gat engan veginn séð tilganginn með helmingnum af þessari akróbatik auglýsingum o.s.frv., kannski vegna þess að það var of mikið af þeim og þessir hlutir voru ekki settir inn í neitt samhengi.

Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort leikhúsfólk (leikarar, leikstjórar etc) sé orðið leitt á sjálfu sér.

Túskildingsóperan er ekkert stórvirki í leiklistarsögunni, tónlistin einkennist af þeirri tónlistarþreytu, sem einkenndi svo margt fram eftir síðustu öld. En verkið varð ennþá minna í þessum búningi.

Ég er reynslunni ríkari og reyni væntanlega næst að vanda betur til vals á því sem ég kaupi mig inn á.