fimmtudagur, október 30, 2008

Eru Sjálfstæðismenn guðlegar verur?

Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína

Það er alveg stórfurðulegt hvað siðferðiskröfur og lög ná lítið til Sjálfstæðismanna. Hvernig dettur þessum mönnum í hug að geta verið taldir hæfir til þess að rannsaka mál sem varðar syni þeirra? Ætli Sjálfstæðismenn myndu þegja ef þessum stöðum gegndu Samfylkingarmenn eða Vinstri Grænir?

Ég held vart.

miðvikudagur, október 29, 2008

Bréf til www.visir.is

To: ritstjorn@visir.is
CC: atligu@365.is
Subject: Kæruleysisleg umfjöllun fréttamanns Vísis.

Ágæta ritstjórn.

Frétt ykkar í dag "Truflaður trúboði og dýraníðingur til höfuðs Obama" virðist rituð af einhverjum undarlegum hvötum, eins og til að nota tækifæri til að kasta rýrð á kristið fólk og kirkjur. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er að eftir að ég las fréttina á visir.is, þá leitaði ég Internetið hátt og lágt, en fann ekkert þessum tilgreindu orðum til staðfestu:

TILVITNUN HEFST:

Byssur og bænahald er helsta áhugamál íbúa í Bells en þar býr ákaflega kirkjurækið fólk sem stundar skotveiði af krafti. Daniel Coward var þó aldrei sagður hafa fundið sig í veiðimennskunni en hins vegar hafi hann rækt tíðir af þeim mun meiri ákefð og varla farið út úr kirkjunni. Meðal annars lagði hann stund á trúboðastarf áður en hann vendaði sínu kvæði í kross og gerðist nýnasisti en honum þótti sjónarmiðum þess hóps ekki gert nægilega hátt undir höfði í Bells.
TILVITNUN LÝKUR

Það sem ég komst næst þessu var blogg á "http://www.majorityrights.com/", tilvitnun í www.telegraph.co.uk, "Barack Obama plotters revealed to be small-town outcasts who met on internet", þar sem segir um þennan hluta málsins:

TILVITNUN HEFST:

Guns and religion are strong in Bells and most men are keen hunters, although Cowart had apparently not been one of them. He was more likely to have been found in church, said neighbours who said Cowart _had once done missionary work for one of them_.
TILVITNUN LÝKUR
(Áhersla innan _ _ er mín).

Er hægt að sjá af þessu að pilturinn hafi "lagt stund á trúboðastarf"?

Um fullyrðinguna "en hins vegar hafi hann rækt tíðir af þeim mun meiri ákefð og varla farið út úr kirkjunni," finn ég ekkert.

Mættum við Íslendingar, jafnvel við sem teljum okkur kristin, biðja um vandaðri umfjöllun.

Fréttin er af mjög alvarlegum atburðum og engan veginn við hæfi að vera með sleggjudóma í tengslum við hana.

Með fyrirfram þakklæti,

Böðvar Björgvinsson
Vegghömrum 45, 112 R.

Viðauki

Eftir nokkur e-mail skeyti erum við Atli (blaðamaðurinn) sammála um að vera ósammála. Hann telur sína túlkun vera rétta m.t.t. að þetta var samið fyrir þátt í morgun á Bylgjunni, sem sé á léttu nótunum og "talmálslegri" en fyrir prentmiðil, og hann sá þetta sem "[frétt] af draumórum tveggja bjána".

Lesendur geta síðan dæmt hver fyrir sig. Ég Googlaði málið og fannst það sem ég sá ekki fyndið heldur sorglegt og sennilega sorgarsaga á bak við piltana tvo.

þriðjudagur, október 28, 2008

Er Bretum treystandi fyrir loftrýmisgæslu?

Það kemur fyrir að ég sé sammála að hluta því sem VG halda fram (sjá grein í DV: Vg vill að hætt verði við loftrýmisgæslu Breta)

Ég er reyndar ekki endilega sammála því að við eigum að hætta alfarið við loftrýmisgæsluna, en mér finnst í ljósi atburða undanfarinna vikna (Darling Brown og allt það gums) að við eigum alfarið að hafna þessari þjónustu af hálfu Breta. Ég ímynda mér ekki annað en að aðrar þjóði skilji okkar sjónarmið ef við biðjum einhverja aðra (Frakka, Norðmenn, etc) að leysa Breta af.

fimmtudagur, október 16, 2008

Kafka's Iceland

In the Morgunbladid story Allir eru sekir about Gauti Kristmannsson's Opinion letter in the NY Times, there is a link to his letter called: The Ice Storm.

A recommended reading.

Verkamannafélagið Hryðja

Það kom upp góð hugmynd í matartímanum í dag. Bretar eru að beita á okkur hryðjuverkalögum og þá er náttúrulega ómögulegt að vera ekki Hryðjuverkamaður. Auðveldasta leiðin til þess að koma því í kring er að stofna félag, Verkamannafélagið Hryðju og helst að gerast stofnfélagi.

þriðjudagur, október 14, 2008

Lífeyrissjóðir í bankarekstri?

Nokkrir lífeyrissjóðir eru að reyna að kaupa Kaupþing, innlenda hlutann. Ég á erfitt með að trúa að bankaeftirlit og aðrar stofnanir sem málið kann að varða leyfi þetta. Ástæðan er sú að sem meðlimum í þessum sjóðum er stórum hluta landsmanna stillt upp fyrir þeim valkostum að færa sín viðskipti yfir til Kaupþings og styðja þannig við hlutafjárbindingu lífeyrissjóðanna, eða að vinna gegn sínum lífeyrissparnaði með því að skipta við annnan banka eða sparisjóð. Er það ásættanlegt að veita einum banka slíkt forskot? Hvað með samkeppnina?

Að skíta í nyt sína - Viðtal Egils við Jón Ásgeir

Eitt það versta sem komið gat fyrir bændur hér áður fyrr var ef kýr skeit í nytina. Ef hún gerði það ítrekað, var hún einfaldlega slegin af.

Mér fannst þetta vera útkoman hjá Agli Helgasyni í Silfrinu á sunnudag í viðtali hans við Jón Ásgeir. Þáttastjórnandi þarf að geta haft hemil á skapi sínu og vera sæmilega sanngjarn ásamt því að nota góð rök og úthugsaðar spurningar.

„Ég reiddist bara fyrir hönd þjóðarinnar" Þessi yfirlýsing hans er engin afsökun. Egill einfaldlega tapaði þessum slag, því miður. Það er einkennilegt ef Jón Ásgeir er svona sekur um alls konar svindl og svínarí, að færustu menn skuli ekki getað náð honum í net sín. Egill kom með nokkrar áleitnar spurningar, samkvæmt ábendingum sem hann hafði augljóslega fengið einhvers staðar frá, en virtist ekki maður til að fylgja þeim eftir. Annað hvort var undirbúingur hans ekki nógu góður eða að það var einfaldlega ekkert í þessu (no case).

Egill missir sig síðan í skapofsa og skeit þar með í nyt sína. Sem hann hefur því miður gert nokkrum sinnum. Hann er því að missa tiltrú mína. Það er kannski kominn tími til að slá kúna af (Silfur Egils).

fimmtudagur, október 09, 2008

Grein Þorsteins Gylfa í Fréttabl. 9. okt 2008

Ég vona að ég verði ekki tekinn af lífi fyrir að kvóta þessa grein hér í heilu lagi. En það er svo oft þannig að svona greinar hverfa af netinu eftir ákveðnnn tíma. Hún er hins vegar þess virði að eftir sé munað. Tengillinn er þessi: Versti seðlabankastjórinn (með mynd af Þorsteini). Það er hins vegar kannski svolítið óheppilegt að á vefsíðunni er myndin undir fyrirsögninni. :-/

Fréttablaðið, 09. okt. 2008 06:30
Versti seðlabankastjórinn

Þorvaldur Gylfason skrifar:
Bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey Sachs segir stundum söguna af fundi sínum með Viktor Gerasjenkó, þá seðlabankastjóra í Moskvu. Gerasjenkó var flokksjaxl af gamla skólanum, forhertur kommúnisti. Hann hafði aldrei haft fyrir því að kynna sér efnahagsmál eða hagfræði, en hikaði samt ekki við að taka við stjórn Seðlabanka Rússlands.
Þegar ríkisstjórn Jeltsíns forseta bað Sachs að leggja á ráðin um hagstjórn eftir 1991, hlaut Sachs að leggja leið sína í seðlabankann til að reyna að leiða bankastjóranum fyrir sjónir, að of mikil útlánaþensla hlyti að ýfa verðbólguna. Gerasjenkó var á öðru máli og sagði Sachs, að aukin útlán bankakerfisins og peningaprentun myndu þvert á móti draga úr verðbólgu, væri þess gætt að koma lánsfénu í réttar - vinveittar - hendur. Hann átti við ríkisfyrirtækin, sem römbuðu á barmi gjaldþrots, enda var þeim stjórnað af mönnum eins og honum sjálfum. Sachs sat lengi hjá Gerasjenkó og reyndi að miðla honum af reynslu þjóða, sem hafa misst stjórn á útlánum bankakerfisins og peningamagni, en bankastjórinn lét sér ekki segjast. Sachs sagði nokkru síðar af sér sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar og hefur ekki síðan stigið fæti á rússneska grund. Verðbólgan æddi áfram, og seðlabankinn jós olíu á eldinn. Gerasjenkó var rekinn úr bankanum 1994, en hann var ráðinn þangað aftur 1998-2002 (þannig er Rússland). Hann var sagður versti seðlabankastjóri heims og bar nafngiftina með rentu.

Seðlabanki Íslands er í svipuðum vanda staddur. Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu bankanna að ósk þeirra og lagði hana síðan frá sér, þótt bindiskyldan sé ásamt stýrivöxtum nauðsynlegt vopn gegn óhóflegri útlánaþenslu við íslenzkar aðstæður. Bankarnir una háum stýrivöxtum, því að þeir geta ávaxtað fé á þeim kjörum í Seðlabankanum. Bankarnir una ekki bindiskyldu, því að hún skerðir útlánagetu þeirra. Seðlabankinn átti að hafa hemil á bönkunum, en lagðist flatur fyrir framan þá. Reynslan sýnir, að stýrivaxtavopn Seðlabankans dugir ekki eitt sér til að hemja útlánavöxt og verðbólgu svo sem vita mátti. Seðlabankinn ber því höfuðábyrgð á útlánaþenslu bankanna, verðbólgunni af hennar völdum og um leið einnig að talsverðu leyti á bankahruninu nú, enda þótt neistinn, sem kveikti bálið, hafi borizt utan úr heimi.
Í annan stað vanrækti Seðlabankinn ítrekaðar aðvaranir um óhóflega skuldasöfnun bankanna og of lítinn gjaldeyrisforða og hafði sjálfur lítið sem ekkert frumkvæði í málinu. Ríkissjóður neyddist því á elleftu stundu til að taka dýr erlend lán til að auka forðann, sem er þó enn allt of lítill miðað við miklar skammtímaskuldir bankanna.
Hefði Seðlabankinn verið vakandi, hefði gjaldeyrisforðanum ekki verið leyft að dragast aftur úr erlendum skammtímaskuldum bankanna, og þá væri Seðlabankinn í stakk búinn að verja gengi krónunnar gegn áhlaupum spákaupmanna. En Seðlabankinn svaf, og gengið hrapaði. Það þýðir ekki fyrir bankastjórn Seðlabankans að stíga nú fram og segjast hafa varað ríkisstjórnina við á einkafundum.
Í þriðja lagi hefur Seðlabankinn vanrækt að leita eftir aðstoð hvort heldur frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem er ýmsum tækjum búinn til að taka á vanda sem þessum. Í staðinn hefur bankastjórn Seðlabankans farið með fleipur eins og það, að Sjóðurinn sé til þess að aðstoða gjaldþrota þjóðir, sem er alrangt. Ýmis önnur ógætileg ummæli formanns bankastjórnarinnar hafa aukið vandann. Aðstoð að utan hlyti að vera bundin skilyrðum um bætta hagstjórn, svo sem eðlilegt er og alsiða.

Rússar setja trúlega engin slík skilyrði. Einmitt þar liggur hættan. Tilgangurinn með því að þiggja erlenda aðstoð við aðstæður sem þessar er að endurvekja traust umheimsins með því að þiggja ráð af öðrum. Sé Rússalánið, ef af því verður, engum skilyrðum háð, getur það ekki haft nein áhrif til að endurreisa traust útlendinga á íslenzku efnahagslífi. Þvert á móti hafa ríkisstjórnin og Seðlabankinn kosið að auglýsa það ósannlega fyrir umheiminum, að Ísland njóti einskis trausts lengur meðal gamalla vina og bandamanna.

Seðlabankanum ber að lögum að stuðla að stöðugu verðlagi og virku og öruggu fjármálakerfi. Bankastjórnin veldur hvorugu hlutverkinu. Verðbólga og gengisfall ógna afkomu margra heimila og fyrirtækja. Bankarnir og fjármálakerfið eru í uppnámi. Ríkisstjórnin og Alþingi bera ábyrgð á Seðlabankanum. Bankastjórn Seðlabankans verður að víkja án frekari tafar. Að því tilskyldu verður hægt að hefja endurreisnarstarfið í samvinnu við erlenda sérfræðinga.

miðvikudagur, október 08, 2008

Staðfastir menn!

Seðlabankinn gefst upp á því að festa gengið - Visir.is

Var ég eitthvað að blaðra um Davíð í síðasta bloggi? Ekki kannski um fálm eða fum. Vita þeir ekkert? Kunna þeir ekkert? Maður hefur á tilfinningunni að allar ákvarðanir Seðlabankans séu meira eða minna rangar.

Hjálp! Getur nokkur aukið mér trú á fjármálayfirvöld á Íslandi?

Ónýtir þjónar

Skelfilegt var að heyra sjálfumgleðina í Davíð Oddssyni í Kastljósi í gærkvöldi.

  • Hann munaði ekkert um að klína hluta af eigin sök varðandi það frumhlaup hans að senda tilkynningu til blaðanna um að Rússar væru búnir að ákveða að lána okkur stórfé. Verulegt glappaskot, sem eingöngu skrifast á DO, á sendiherra Rússa.
  • DO munaði ekkert um að gera lítið úr ummælum fjármálaráðherra Noregs um lán okkur til handa. "Þetta væri ekki nema 1/8 af þörfinni!"
  • DO tókst enn fremur að sparka í Seðlabanka Bandaríkjanna og fleiri.

Er maðurinn gjörsamlega veruleikafirrtur og ábyrgðarlaus? DAVÍÐ ODDSSON VERÐUR AÐ VÍKJA ÚR SEÐLABANKANUM OG ÞAÐ STRAX!

Og hvað með alla þá sem áttu að gæta hagsmuna þjóðarinnar gagnvart útþensluglæpamönnum. Ég á við það, ef rétt er að IceSave (og kannski fleiri íslenskir bankar erlendis?) hafi sjálfkrafa skuldbundið þjóðina (Seðlabankann) til þess að ábyrgjast verulega stórar fjárhæðir innlána, svo stórar að Ísland gæti aldrei borgað það, að hvorki Seðlabankinn, Fjármálaráðuneytið eða Fjármálaeftirlitið hafi séð ástæðu til að grípa í taumana. Áttu þessir menn allt í einu ekki að gæta hagsmuna okkar, íbúa þessa lands? DO segist hafa talað yfir ríkisstjórninni fyrir ári síðan. Hvað sagði hann? Hvað segist hann hafa sagt og hvað segja hinir að hann hafi sagt?

Það er komin full ástæða til að menn fari að axla ábyrgð og segja af sér. Jafnvel á þessum erfiðu tímum. Mér sýnist að þessir sömu menn (DO, Árni Matt o.fl.) hafi ekkert lært og séu fremur til trafala nú en gagns.

Það er leitt að þurfa að halda þessu fram, en ég sé mig knúinn til þess. Og flokkurinn minn, Samfylkingin. Hvar stendur hún í þessu máli? Er hún að kóa með þessum kónum?

mánudagur, október 06, 2008

Tapað/Fundið

Íslenska krónan týndist nú um helgina. Finnandi er vinsamlega beðinn að hafa samband við afgreiðslu Bleðlabankans.

fimmtudagur, október 02, 2008

Ríkisstjórnin segi af sér (Mig vantar nýja sultaról)

Maður er byrjaður að herða sultarólina, en ég óttast að kreppan komi nú það hratt yfir að ólin slitni fljótlega. Vantar því nýja til að eiga á lager. :-(

Ég get annars ekki séð annað út úr fréttum en að Davíð Oddsson og undirokaðir kollegar hans í $eðlabankanum (réttara: Bleðlabankanum) hafi platað ríkisstjórning upp úr skónum varðandi Glitnismálið og verði því að segja af sér. Vonandi ná hluthafar vopnum sínum.

Ég varð sérstaklega fyrir vonbrigðum með Björgvin G. Sigurðsson ráðherra bankamála og Össur Skarp, sem var "stand-in" fyrir Ingibjörgu. Ég hélt að þessir menn hefðu lært að vara sig á Dabba kóngi.

Ég tek það fram að ég hef enga sérstaka samúð með Jóni Ásgeiri eða öðrum stórmógúlum í bransanum, en Dabbi er búinn að vinna þjóðinni meira en ógagn bæði á sínum stjórnmálaferli og nú ekki síður sem Bleðlabankastjóri.