föstudagur, desember 28, 2007

Árangur í Erlu máli Óskar

Íslenska

Þó að Bandaríska innflytjendaráðuneytið hafi ekki sent afsökunarbeiðni til Erlu Óskar, hafa þó konurnar Ingibjörg Sólrun og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi náð þeim árangri að fá jákvæð viðbrögð frá ráðuneytinu þar sem meðferðin á Erlu Ósk er hörmuð og jafnframt tekið fram að þessir verkferlar verði endurskoðaðir með tilliti til þess hvernig fólk er meðhöndlað í málum sem þessum.

Ég efa að sami árangur hefði náðst með körlum í þessum embættum. Ég held að þeir séu of fastir í kerfinu gamla.

Alla vega, stór áfangi fyrir konur í æðstu embættum.

English -- as written in an e-mail to a friend in the USA

It seems women get these things right. The Cabinet Department in charge, the DoI or Homeland Security -- not sure from the story which -- has said they regret the treatment Ms. Erla Ósk Arnardóttir got and they promise the whole procedure regarding visitors will be reviewed.

Probably the result of how women (Foreign Minister of Iceland and the US Ambassador to Iceland) handle such things. Anyway a very promising news, and almost a Christmas gift to the world -- if not put to sleep somewhere along the way.

föstudagur, desember 14, 2007

Solla stendur sig

Ég sé ekki eftir að hafa kosið Ingibjörgu Sólrúnu. Ég efa að annar utanríkisráðherra hefði tekið jafn sköruglega á málum og hún í málefni Erlu Óskar Arnardóttur . Samt gekk hún ekki lengra en svo að útilokað er fyrir Bandaríkjamenn að móðgast eða vera með fyrirslátt. En líka það, hve fljótt hún brást við, var tær snilld, því að það kom í veg fyrir að Bandaríkjamenn gætu undirbúið sig með eitthvað kjaftæði.

Það er reyndar stórundarlegt að þessi þjóð, Bandaríkin, sem, þegar þeim hentaði, kallaði sig vinaþjóð, skuli sýna okkar þegnum -- og reyndar fólki yfirleitt -- slíkan afburðadónaskap. Það virðist vera sem skipulega sé verið að auka mannhatur og mannfyrirlitningu í bandaríska stjórnkerfinu, sbr. mál Arons Pálma Ágústssonar og svo margra fleiri að of langt yrði upp að telja. Kannski sýnir þetta einmitt að Al Qaida liðar unnu með hryðjuverki sínu, 11 sept. 2001, sigur á lýðræðishugsjóninni í Bandaríkjunum. Sorglegt ef rétt er.

Bandaríkjamenn hafa verið duglegir að finna upp eitt og annað. Nú eru þeir í því að finna upp óvini -- með því að búa þá til sjálfir.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Mogginn breytir sögunni

Ég er ekki duglegur að lesa alls kyns aukablöð sem detta inn um bréfalúguna, en í óveðrinu í nótt fór ég fram í eldhús og kíkti í blöðin meðan ég fékk mér sopa til að bæta svefnhæfið. Jólablað Moggans, gefið út 1. des., að mér skilst, lá á eldhúsborðinu og ég fór að fletta því. Þá rakst ég á viðtal við leikkonu, sem leikur Maríu Magdalenu í Jesus Christ Superstar. Hrund Hauksdóttir, blaðakonan sem tók viðtalið, hélt því þar fram að María Magdalena hefði verið móðir Jesú. Ég gat ekki séð af viðtalinu að hún hefði sagt hið sama við leikkonuna, heldur virtist mér að þarna væri annað hvort um að kenna fáfræði blaðakonunnar eða að hún og Mogginn, hafi lagst á eitt til að breyta sögunni!

Kannski er líka búið að breyta söguþræðinum í þessari uppfærslu? María Magdalena og móðir Jesú voru sín hvor persónan í söngleiknum síðast þegar ég gáði.

Kannski bara klaufaskapur? Vonandi.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Lundúnir heimsóttar

Londonarferð með konunni og starfsfélögum var á dagskrá fimmtudag til sunnudags. Frábær ferð. Vegna tafa á Heathrow þurftum við að hanga í loftinu og á brautinni í samtals um klukkutíma, áður er við fengum "slot".

Við tékkuðum okkur inn á hótel (Hilton Paddington), sem er frábærlega staðsett, innangengt í Heathrow Express og neðanjarðarlestarkerfið. Síðan var farið til TUC og kynntumst við hreyfingunni þar, uppbyggingu samtakanna og fræðsluþættinum. Þeir notast við kennsluumhverfið Moodle, sem er Open Source og ókeypis. Þetta sama kerfi er notað í einhverjum framhaldsskólum hér heima. Og reyndar fann ég það síðan á Debian Linux 4.0 Etch DVD disknum sem ég fékk nýlega með Linux Magazine!

Á föstudagskvöldið var farið á söngleikinn "We Will Rock You", sem er rokksöguævintýri, byggt á lögum og textum "Queen", og spila kapparnir sjálfir undir. Flott sýning og fín kóreógrafía.

Á laugardagskvöld var borðað á MoMo's, marokkóskum veitingastað. Það var hálfgerð sýning líka. Mjög gaman og skemmtilegur matur (dálítið öðruvísi en vel samsettur fyrir bragðlaukana að mínu mati.

Að öðru leyti var tímanum eytt í "skoðunar"- og verslunarferðir, aðallega um Oxford Street og nágrenni. Ýmislegt hafði skolast til í minningunni frá ferð okkar 1984, en síðan höfum við varla komið í þennan hluta borgarinnar.

Eitthvað var verslað, þó kannski minna en við ætluðum, enda úrvalið á neðri hluta Oxfort Street ekki eins gott og í stóru búðunum ofar.

Ég var búinn að panta hluta af hátalarakitti til sendingar á hótelið og stóðst það 100%. Komið upp á herbergi þegar við komum úr bæjarrandinu á hótelið á föstudag. Það virtist mjög fyrirferðarmikið, þar sem svampurinn, sem ég hélt að seljandinn hefði ætlað að senda með annarri sendingu til Íslands, kom með. En hann passaði fínt inn í töskurnar okkar og myndaði gott og mjúkt fóður.

Ferðin var í alla staði skemmtileg, enda ferðafélagarnir ekki af verri endanum. Það var virkilega gaman að kynnast þeim, sumum betur en áður, en öðrum var ég að kynnast í fyrsta sinn.

Við kynntumst neðanjarðarlestarkerfinu (gaman að nota svona löng orð!) allvel í þessari ferð. Það svínvirkar. Bið oftast ekki meiri en 2 mínútur, en þó stundum upp í 8 mín. Það er í góðu lagi. Ég lít svo á að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að koma sér upp úr skotgröfunum og fara að tala saman um almennilegar samgöngubætur. Neðanjarðarlestarkerfi er það eina, sem getur bjargað umferðarmálum á svæðinu. Púntur.