mánudagur, janúar 19, 2009

Til hamingju, Framsóknarmenn!

Enginn getur sagt blygðunarlaust að ég hafi verið hrifinn af mörgu, sem varðar Framsóknarflokkinn, en nú ber nýtt við. Í gær gerðust þau óvæntu tíðindi að Framsóknarmenn hysjuðu ærlega upp um sig brækurnar og kusu raunverulegan endurbótamann sem formann, mann sem virðist laus við þau þungu hagsmunatengsl fyrri ráðamanna í flokknum, sem, þó að þau hafi haldið fjárhagslegu lífi í flokknum og tryggt "sonum" hans stöður, hafa því miður reynst hin skelfilegustu spillingaröfl.

Ég veit að reyndar hefur mörgum Framsóknarmanninum sviðið framganga þeirra lykilmanna og þægð við peninga og völd, og þessi helgi sannar það. Hún segir mér einnig að loks hafi þessir pótintátar migið í fullan dall. Hinn almenni Framsóknarmaður sagði: "hingað og ekki lengra!"

En þetta er líka kannski í fyrsta sinn frá upphafi, sem þeir fá almennilega kost á að kjósa yfir sig mann, sem er (að því er virðist) ósnertur af fyrri pólitískum sóðaskap í Framsóknarflokknum.

Mér fannst reyndar Sigmundur Davíð svolítið linur sem fréttamaður sjónvarps gagnvart stjórnmálamönnum, einkum Sjálfstæðismönnum, og hafði því stimplað hann Sjálfstæðismann. Það kom mér því verulega á óvart þegar ég frétti af því að hann væri orðaður við framboð í sveit Frammara. Sigmundur Davíð átti frábæra endurkomu sem skipulagsfræðingur, eða öllu heldur skipulagshagfræðingur (sem kannski skýrir margt!), inn í umræðuna um skipulagsmál Reykjavíkur o. fl. Ég var svo sammála honum í öllum atriðum nánast. Hér var virkilega á ferð maður sem hafði farið til útlanda með augun opin! Í umræðu hans um stjórnmál síðan hefur mér fundist mikið til hans koma og hefur fundist hann tala eins og sannur krati. Ég er sannfærður um, að ef ekki hefðu komið til ætternistengsl hans við Framsóknarflokkinn, þá hefði hann frekar boðið sig fram fyrir Samfylkinguna eða verið með í nýju (endurnýjuðu) framboði nýkrata (sem ég hef á tilfinningunni að gæti verið að verða til, án þess að ég hafi mikið fyrir mér í því).

Undir stjórn Sigmundar Davíðs ætti Framsóknarflokkurinn að geta orðið fyrsti kostur flokka eins og Samfylkingarinnar að starfa með eftir næstu kosningar, sem vonandi verða fljótlega.

Nánar um kosningu Sigmundar Davíðs má sjá hér: Sigmundur kjörinn formaður

Til hamingju Frammarar.
Til hamingju Sigmundur Davíð!

Engin ummæli: