miðvikudagur, janúar 28, 2009

Smyrjaraliðið á Svertingsstöðum komið í gang

Það var við því að búast að Sjálfstæðismenn yndu illa því að fá ekki að vera með í ríkisstjórn. Þeim hefur alltaf líkað það illa. Þeir telja að þeir séu sjálfbornir til þess að stjórna landinu. Það þarf að passa svo margar stöður -- lykilstöður. Og nú eru þeir sem sé komnir í gang:

Innlent | Morgunblaðið | 28.1.2009 | 05:30 „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu Eftir Pétur Blöndal pebl@mbl.is

Ég hef stundum séð gott koma frá Pétri, en stundum fellur hann líka í Heimdallardíkið. Það virðist erfitt að komast upp úr því. Og hann byrjar af krafti. Reyndar svo miklum að það stendur ekki steinn yfir steini í umfjöllun hans, nema þá að þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins séu heyrnarlausir, ólæsir og með öllu dómgreindarlausir -- sem ég vil helst ekki ætla þeim. Lítum á nokkur atriði.

Margt af því sem er á svonefndum aðgerðalista Samfylkingarinnar, sem birtur var í Morgunblaðinu í gær, höfðu sjálfstæðismenn raunar aldrei heyrt um, svo sem að færa niður veðstöðu lána og bæta réttarstöðu skuldara, bjargráðasjóð heimilanna og aðkomu auðmanna.

Öll þessi mál eru búin að vera í umræðunni síðan í haust. Sjálfstæðismenn eru þá að mati Péturs (eða heimildarmanna hans) heyrnarlausir og ólæsir eða jafnvel blindir upp til hópa.

Það sé til marks um að verið sé að slá ryki í augu fólks, að ekki sé á listanum að Samfylkingin hafi krafist þess að fá forsætisráðuneytið, „sem kom á daginn að var algjört aðalatriði og skilyrði fyrir hinu“.

Það hefur komið rækilega fram í fjölmiðlum að Samfylkingin krafðist breytinga í Seðlabankanum og að verkstjórn (orð sem Geir móðgaðist svo mjög yfir) yrði að komast í lag. Fyrst Geir þverskallaðist við þessum sjálfsögðu kröfum, þýddi þetta að það yrði að skipta um í brúnni. Geir og Solla eru bæði veik, sem kunnugt er, og þurfa að komast í smá frí þess vegna og flestir aðrir að fara í kosningaslag, þannig að Samfylkingunni (les: Sollu) kom til hugar að nýta mætti starfskrafta þess þingmanns sem mest þjóðarsátt er um og er að hætta á þingi til þess að stýra skútunni þessa síðustu metra. Hins vegar vitandi um hatur margra sjálfstæðismanna á "heilagri Jóhönnu" og því að þeir líta margir í raun niður á hana fyrir ýmissa hluta sakir, þá get ég svo sem sæst á að Solla hafi þarna kannski vísvitandi sett fram kröfu sem hún vissi að Sjálfstæðismenn myndu aldrei, ALDREI, ganga að. Solla vissi svo sem að það þýddi ekkert að eiga frekar við sjálfstæðismenn.

Í þriðja lagi um „svokallaða tiltekt“ í Seðlabankanum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir löngu sagst tilbúinn í lagabreytingar, sem gætu leitt til breytinga á yfirstjórn Seðlabankans, en byggðust á tillögum frá erlendum sérfræðingum sem fengnir höfðu verið til að skoða skipulag Fjármálaeftirlitsins og hugsanlega sameiningu þess við Seðlabankann.

Hvað ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn sér að hanga á þessu í langan tíma? Hvers vegna voru þessar áætlanir ekki komnar í gegn? Það er neyðarástand í þjóðfélaginu en sjálfstæðismönnum liggur ekkert á. Ekki frekar en alltaf.

Málið er það að sjálfstæðismenn hafa aldrei kunnað að vinna. Þeir hafa hangið á þingi að hætti breskra íhaldsmanna, sem finnst aðallega fínt að vera þarna og þetta er náttúrulega ágætur klúbbur, gott fæði og allt það.

Rifjum upp aðdraganda Viðeyjarstjórnarinnar. Aldrei komu sjálfstæðismenn undirbúnir til viðræðna. Jón Baldvin og Jón Sigurðsson voru alltaf tilbúnir með tillögur og varatillögur, enda varð stjórnarsamningurinn að mestu leyti upp úr stefnuskrá Alþýðuflokksins.

Sömu hluti er maður alltaf að reka sig á. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að sjálfstæðismenn (þingmenn og ráðherrar og aðrir "wannabe's") séu latir, óklárir í stjórnmálum og staðnaðir. Þegar ég segi óklárir í stjórnmálum, þá á ég við málefnavinnu, því að þeir ásamt framsóknarmönnum hafa reynst manna duglegastir við að koma sínum mönnum í lykilstöður í stjórnkerfinu, hlutur sem ætti ekki að meta nema 10% af mikilvægi stjórnmála. Hjá sjálfstæðismönnum virðist þetta vera öfugt: Málefni 10% stöðuveitingar 90%. Þeir minna svolítið á vinnubrögð í Austur-Evrópu: tala, tala, kannski framkvæma einhvern tíma seinna.

Og fjórða atriðið sneri að aðgerðum í þágu heimilanna, sem hefði áreiðanlega samist um.

Nákvæmlega: "...sem hefði áreiðanlega..." kannski og ef til vill. Er ekki neyðarástand í þjóðfélaginu?

Sjálfstæðisflokkurinn bætti við fimmta liðnum, aðgerðum í þágu atvinnulífsins til að sporna við atvinnuleysi.

Halló! Enginn heima? Það var talað um þetta strax í haust og allan tímann síðan! Les Pétur Blöndal ekki einu sinni Moggann?

Sjálfstæðismenn telja fullljóst að ekki hefði þurft að vera ágreiningur um þessi efnislegu atriði, heldur hafi verið settur á svið ágreiningur um forystuna í ríkisstjórninni.

Það var ekki ágreiningur um efnisleg atriði. Það sjá allir! Það var og er ágreiningur um vinnubrögð og þörf á aðgerðum.

Þetta er ein af fyrstu greinunum í mogganum og öðrum fjölmiðlum sem sjálfstæðismenn komast í í súrri baráttur þeirra til að sverta fyrrum samherja sinn og reyna að smyrja og nota smjörklípur. Þetta kunna sjálfstæðismenn manna best. Ég er að vona að þjóðin sjái í gegnum þá í þetta sinn.

Aðferðin er þekkt. Hún heitir FUD á ensku. "Fear, Uncertainty, Doubt" eða "ótti, óvissa, efi. Það er byrjað á að reyna að gera menn óttaslegna, síðan skapa óvissu, sem í framhaldinu veldur efa. Í þessu tilfelli efa um að andstæðingurinn sé að fara með rétt mál, efa um að hann sé hæfur til stjórnarsetu.

Höfum það bara á hreinu: Sjálfstæðisflokkurinn hefur margsannað sig að vera seinn til verka og seinn til hugsana, nema þegar þarf að koma gæðingum fyrir í kerfinu.

Eitt mega sjálfstæðismenn (og reyndar framsóknarmenn líka) eiga. Þeir virða kristni og kirkju í landinu. Þeir mættu samt læra meira af kristindómnum.

Engin ummæli: