þriðjudagur, desember 04, 2007

Lundúnir heimsóttar

Londonarferð með konunni og starfsfélögum var á dagskrá fimmtudag til sunnudags. Frábær ferð. Vegna tafa á Heathrow þurftum við að hanga í loftinu og á brautinni í samtals um klukkutíma, áður er við fengum "slot".

Við tékkuðum okkur inn á hótel (Hilton Paddington), sem er frábærlega staðsett, innangengt í Heathrow Express og neðanjarðarlestarkerfið. Síðan var farið til TUC og kynntumst við hreyfingunni þar, uppbyggingu samtakanna og fræðsluþættinum. Þeir notast við kennsluumhverfið Moodle, sem er Open Source og ókeypis. Þetta sama kerfi er notað í einhverjum framhaldsskólum hér heima. Og reyndar fann ég það síðan á Debian Linux 4.0 Etch DVD disknum sem ég fékk nýlega með Linux Magazine!

Á föstudagskvöldið var farið á söngleikinn "We Will Rock You", sem er rokksöguævintýri, byggt á lögum og textum "Queen", og spila kapparnir sjálfir undir. Flott sýning og fín kóreógrafía.

Á laugardagskvöld var borðað á MoMo's, marokkóskum veitingastað. Það var hálfgerð sýning líka. Mjög gaman og skemmtilegur matur (dálítið öðruvísi en vel samsettur fyrir bragðlaukana að mínu mati.

Að öðru leyti var tímanum eytt í "skoðunar"- og verslunarferðir, aðallega um Oxford Street og nágrenni. Ýmislegt hafði skolast til í minningunni frá ferð okkar 1984, en síðan höfum við varla komið í þennan hluta borgarinnar.

Eitthvað var verslað, þó kannski minna en við ætluðum, enda úrvalið á neðri hluta Oxfort Street ekki eins gott og í stóru búðunum ofar.

Ég var búinn að panta hluta af hátalarakitti til sendingar á hótelið og stóðst það 100%. Komið upp á herbergi þegar við komum úr bæjarrandinu á hótelið á föstudag. Það virtist mjög fyrirferðarmikið, þar sem svampurinn, sem ég hélt að seljandinn hefði ætlað að senda með annarri sendingu til Íslands, kom með. En hann passaði fínt inn í töskurnar okkar og myndaði gott og mjúkt fóður.

Ferðin var í alla staði skemmtileg, enda ferðafélagarnir ekki af verri endanum. Það var virkilega gaman að kynnast þeim, sumum betur en áður, en öðrum var ég að kynnast í fyrsta sinn.

Við kynntumst neðanjarðarlestarkerfinu (gaman að nota svona löng orð!) allvel í þessari ferð. Það svínvirkar. Bið oftast ekki meiri en 2 mínútur, en þó stundum upp í 8 mín. Það er í góðu lagi. Ég lít svo á að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að koma sér upp úr skotgröfunum og fara að tala saman um almennilegar samgöngubætur. Neðanjarðarlestarkerfi er það eina, sem getur bjargað umferðarmálum á svæðinu. Púntur.

Engin ummæli: