föstudagur, desember 14, 2007

Solla stendur sig

Ég sé ekki eftir að hafa kosið Ingibjörgu Sólrúnu. Ég efa að annar utanríkisráðherra hefði tekið jafn sköruglega á málum og hún í málefni Erlu Óskar Arnardóttur . Samt gekk hún ekki lengra en svo að útilokað er fyrir Bandaríkjamenn að móðgast eða vera með fyrirslátt. En líka það, hve fljótt hún brást við, var tær snilld, því að það kom í veg fyrir að Bandaríkjamenn gætu undirbúið sig með eitthvað kjaftæði.

Það er reyndar stórundarlegt að þessi þjóð, Bandaríkin, sem, þegar þeim hentaði, kallaði sig vinaþjóð, skuli sýna okkar þegnum -- og reyndar fólki yfirleitt -- slíkan afburðadónaskap. Það virðist vera sem skipulega sé verið að auka mannhatur og mannfyrirlitningu í bandaríska stjórnkerfinu, sbr. mál Arons Pálma Ágústssonar og svo margra fleiri að of langt yrði upp að telja. Kannski sýnir þetta einmitt að Al Qaida liðar unnu með hryðjuverki sínu, 11 sept. 2001, sigur á lýðræðishugsjóninni í Bandaríkjunum. Sorglegt ef rétt er.

Bandaríkjamenn hafa verið duglegir að finna upp eitt og annað. Nú eru þeir í því að finna upp óvini -- með því að búa þá til sjálfir.

Engin ummæli: