laugardagur, september 04, 2004

Hættur í Hvalfjarðargöngum

Gönging komu...en

Ég er búinn að keyra þessi göng frá því áður en þau voru opnuð. Tilhlökkunin var mikil að geta ekið daglega í vinnuna fyrir sunnan, því að verðið átti að verða viðráðanlegt. Því miður brást það og er gangagjaldið því skattur á ferðalanga, einkum þá sem mest þurfa á þeim að halda, Akurnesinga og nágranna þeirra.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að ræða um, heldur það sem ég uppgötvaði fljótt, en hef beðið eftir að skrifað yrði um: hætturnar í göngunum. Þar sem ég hef enn ekki orðið var við vitlegar umræður um hættur ganganna og mögulegar úrbætur, þá tel ég að rétt sé að setja fram mínar skoðanir á málinu.

Hættur ganganna

Þegar ekið er erlendis, sér maður að hlutir eru með ýmsum hætti. Göng líka. Sums staðar eru þau dimm og þröng (einkum í Noregi), en annars staðar björt, breið og þægileg að aka um. Ég hef ekið um göng í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Belgíu, Lúxembúrg, Frakklandi, England og Bandaríkjunum (ekið frá Seattle um Kaliforníu til Tucson í Arizona) og þannig séð margar og mismunandi útfærslur. Eftirfarandi greiningu og mögulegar lausnir byggi ég á þessari reynslu sem ökumaður.

  1. Göngin eru of dimm.
    Óvíða hef ég ekið dimmari göng en Hvalfjarðargöngin (sleppum Ólafsfjarðarmúla o.þ.u.l.). Göngin eru múrsprautuð með lit sem gleypir nánast alla birtu. Til þess að reyna að vega upp á móti þessu er miklu rafmagni eytt í raflýsingu, sem af sömu ástæðum dugar skammt. Þetta sjáum við meðal annars á því hversu hægt þeir aka, sem sjaldan fara um göngin, eða þeir sem farnir eru að missa bestu sjón.
    Bæði í Bandaríkjunum og Frakklandi (og víðar) hef ég ekið um göng sem eru hvítkölkuð. Það munar gífurlega miklu á birtustigi og eykur á öryggi að göngin séu björt, vegna þess að minni athygli og orka fer í það að reyna að sjá hvar maður er staddur á veginum. Þetta er einn allra stærsti öryggisþátturinn í lokuðu umferðarrými (göngum, stokkum o.fl.).
  2. Kantsteinar
    Þegar ég fór um göngin áður en þau voru fullkláruð (þau voru stundum opnuð þegar veður voru ill) fundust mér þau víð og lofa góðu. En því miður fannst einhverjum þörf á að setja kantsteina og búa til eins konar gangstéttar á hvora hlið -- eins og þeir vissu ekki að umferð gangandi fólks yrði bönnuð!
    Hvað gerist ef bíll rekst utan í kantstein? Margir bílstjórar hafa reynslu af því. Með örfáum undantekningum er eins og rykkt sé í stýrið og því snúið af afli í þá átt, sem hindrunin (kantsteinninn) er -- út af! Bíllinn hendist þá út í vegginn og kastast til baka út á veginn aftur og gjarnan út í vegg hinum meginn, eða veltur.
    Eru aðrar lausnir? Það er mjög óvíða, nema í stuttum göngum og þá helst innanbæjar, sem maður sér kantsteina í göngum erlendis. Besta lausn sem ég hef séð er að setja "rillur" úr nokkurra millimetra þykku hvítu asfalti úti í kantana. Rillurnar (upphækkaðar línur) eru ýmist með jöfnu eða misjöfnu millibili. Þegar bíll ekur yfir þær, myndast hátt hljóð, sem vekur jafnvel fast sofandi bílstjóra. Þeir hafa þá smástund til þess að kippa bílnum inn á veginn aftur og þó svo að það gerist ekki, þá ætti bíllinn að fara mjúklegar út í vegginn og hætta á veltu eða miklum meiðslum að minnka töluvert.
    Ég er sannfærður um að þessi lausn mundi fækka óhöppum í göngunum verulega.
  3. Þungaflutningar
    Mikið hefur verið kvartað undan þungaflutningum, einkum flutningum eldsneytis. Loksins hefur eitthvað verið gert varðandi þungaflutninga. Umferð þungaflutningabifreiða hefur verið takmarkaður við ákveðna tíma sólarhringsins -- misjafnan eftir dögum vikunnar. Mér sýnist þó að mikið vanti uppá. Enn eru venjulegir ökumenn að lenda í því að vanbúnir flutningabílar aka á allt niður í 20 km hraða niður göngin og safna á eftir sér fjölda bifreiða eða freista manna til ólöglegs framúraksturs. Þetta gera þeir vegna þess að þeir hafa ekki hemlunar- eða vélarafl til þess að stöðva bifreiðina ef eitthvað kemur upp á. Upp göngin hinum megin aka þeir svo á allt niður í sama hraða -- eftir hleðslu og vélarafli. Þessa þungaflutningaumferð þarf að takmarka við alminnsta umferðartíma.
  4. Hættuleg efni (Dangerous Goods)
    Akstur með eldfim og sprengifim efni voru vandamál, en eitthvað virðist hafa verið gert í þeim málum -- alla vega er það sjaldnar nú orðið, sem maður lendir í að aka á eftir slíkum bílum. Annað hvort ætti að banna þennan akstur með öllu, eða úthluta sérstökum tíma, sem þá væri vel auglýstur á skiltum og með framíkalli á útvarpssendingum ganganna, svo að menn eigi kost á að velja að aka þá Hvalfjörðinn eða að snúa við.
  5. Mengun
    Sumir ofangreindra flutningabíla og einnig aðrir bílar með dísilvélar valda mikilli mengun þegar ekið er undir álagi. Þá eru vélar eitthvað vanstilltar eða slitnar. Ég tel að taka þurfi nokkuð hart á þeim sem þannig tækjum aka, því að það er fremur óheilsusamlegt að anda að sér þeirri mengun, sóti og öðru, sem myndast við þessar aðstæður, einkum þar sem gangamenn virðast sparir á blásarana, sem eiga að sjá um að reykhreinsa göngin.

Hvað þarf að gera?

Sjálfsagt má nefna til fleiri hættur en hér eru nefndar, en eitt er víst: Eitthvað þarf að gera.
Í fluginu er lögð mikil áhersla á öryggismál. Þar starfa lögskipaðar nefndir og einnig hafa flugfélögn sjálf komið á stofn öryggisnefndum innan sinna veggja. Þessar nefndir reyna að finna leiðir til þess að minnka áhættuna í fluginu. Skrifaðar eru reglur sem félögin þurfa síðan að fara eftir.
Í samgöngumálum á landi virðast eingar slíkar nefndir vera starfandi. Ef þær eru það, þá fer lítið fyrir þeim. Að mínu viti verður að koma á sérstakri nefnd um umferð í veggöngum, sem hafi vald til þess að setja reglur um þennan öryggisþátt. Þessa nefnd þurfa hlutlausir aðilar að skipa, þ.e. ekki fulltúrar gangaeigenda eða Samgönguráðuneytis, nema í mesta lagi einn frá hvorum, þar sem báðir hljóta að teljast eiga sérstakra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Nefndarmenn þurfa að vera skipaðir af Umferðarráði, Hæstarétti, Bílgreinasambandi, FÍB, Neytendasamtakanna og öðrum, sem teljast mega fulltrúar "neytenda".
Hugsanlega þarf einhverja lagasetningu til þess að slík nefnd hafi nægilegt vægi. Það ætti ekki að þurfa, en mér sýnist því miður að eigendur ganganna og Samgönguráðuneyti hafi til þessa sýnt ákveðinn mótþróa í þeirri litlu umræðu af þessu sem þó hefur þegar farið fram (eldsneytisflutningar) og séu því ekki líklegir til þess að taka á málinu, og líkast til heldur líklegir til þess að standa í gegn.
Það væri gaman að fá umræðu um göngin, einkum hættuþáttinn, en einnig þarf að ræða gangagjaldið og þá mismunun sem þar á sér stað. En það er efni í annan pistil.

Engin ummæli: