mánudagur, október 12, 2009

Byssueign borgar sig -- eða þannig...

Skaut verðandi eiginkonu sína til bana

Ameríska leiðin: að skjóta fyrst og kveikja síðan ljósið virðist ekki alltaf virka eins og til var ætlast! Hvenær ætla Bandaríkjamenn að læra að frjáls byssueign er bölvun?

mánudagur, júní 29, 2009

We demand that Facebook show some manners!

My letter to Facebook administration on behalf of Sigþrúður Þorfinnsdóttir as a member of a support group for her:

Facebook's own abuse of "abuse"

Dear sirs /madam.

Facebook users in Iceland are astonished because of your termination of Sigþrúður Þorfinnsdóttir's registration on Facebook, [e-mail withheld for the public]. We are a large group of your fans and frequent users in Iceland who can not understand or accept that you terminate users without any reasonable ground or explanation.

We demand that you explain your decision or at least give a resonably grounds for your, to us, incomprehensible and unbelievable decision.

We know for sure, that there is someone in Iceland who sends complaints to Facebook regarding some users and they do it in a persuit of game.

It seems that your "report abuse" system is entirely automatic and there is not much the users can do if they accidentally overstep some electronic boundaries you have for Facebook use or if someone just hits the button.

This is highly frustrating, to say the least, and to be thrown out in this manner is equal to social expulsion for the victim. Facebook friends don't get any announcement of this neither beforehand so they could possibly come to your defense or put in a good word, nor after the fact, the victim simply disappears like in the former communist east block.

There has been some discussion here in Iceland about Facebook throwing out people well liked in our community without any kind of human interaction on your behalf and this is something that needs to change. If users can be terminated from using Facebook based on false accusations or gross misunderstanding your integrity has been seriously damaged. We know you can fix this malfunction in your system to prevent this from happening again if you only bother.

We demand that you let Sigþrúður Þorfinnsdóttir back in and afford him/her and others in similar situations, an explanation.

Be kind to your reputation. :-)

Yours sincerly,

Bodvar Bjorgvinsson

þriðjudagur, júní 02, 2009

Hræsni Sjálfstæðismanna

Á www.visir.is er þessi frétt í dag: Ætla að endurgreiða risastyrkina á næstu sjö árum - vaxtalaust

Sjálfstæðismenn hafa farið mikinn vegna styrkja allt að 5 millj. kr. sem Samfylkingin hefur fengið frá einstökum fyrirtækjum um leið og þeir segjast ætla að skila styrkjum upp á allt að 50 millj. kr. sem þeir móttóku meðan verið var að fjalla um takmörkun á slíkum styrkjum. Nú kemur hins vegar í ljós að þeir ætla að skila sömu krónutölu, en vaxta- og verðbótalaust, á næstu 7 árum.

Hversu mikið mun krónan hafa fallið þá að meðaltali frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk greiðslurnar? Ætli það verði nema í mesta lagi helmingurinn af raunverði sem Sjálfstæðisflokkurinn skilar?

Miðað við það verður það að teljast nokkur kokhreysti hjá Sjálfstæðisflokknum að segjast skila framlögunum, þegar þeir í raun skila kannski ekki nema helmingi - eða jafnvel minna.

Þarf ekki aðeins meiri iðrun og yfirbót í í íslenska pólitík en þetta?

miðvikudagur, maí 27, 2009

Gull mun hækka í USD 6.000,00 únsan

Samkvæmt áliti Dr. Murray Sabrin mun verð á gulli, sem nú stendur í um USD 950,00 únsan hækka meira en sexfalt á næstu árum. Hann útskýrir það nánar hér: Why Gold Will Rise to at Least $6,000 per Ounce, en aðalástæðan er viðvarandi vantrú á gjaldmiðlum sem ekki eru bundnir "raunverulegum verðmætum" eins og dollarinn gerði meðan hann var "útskiptanelgur fyrir gull".

Dr. Sabrin spáir því að fljótlega komi upp krafa um að dollarinn verði aftur bundinn við gull. Gullforði bandaríska seðlabankans er aðeins 260 milljónir únsa og yrði því únsan að kosta USD 6.153 dali.

þriðjudagur, maí 26, 2009

Siðlausir hrægammar (frétt á www.visir.is)

Þak á innheimtukostnað gildir ekki um skuldir í lögheimtu

Maður hélt að komið hefði verið böndum á okurstarfsemi lögfræðinga, en reglugerð sem Björgvin Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra setti í janúar um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar gildir víst aðeins um innheimtuviðvörun og milliinnheimtu.

Þarf virkilega að setja lög um öll þök á innheimtu, hámarksálagningar o.s.frv. Það er augljóst að ekki gilda samkeppnislögmál hjá lögfræðingum, þrátt fyrir mikinn fjölda þeirra.

Er kannski komið mál fyrir samkeppnisstsofnun að skoða lögfræðiþjónustur? Eða kannski þarf Evu Joly í svoleiðis verk!

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Uppfært í Lenny (Debian 5)

Uppfærði um helgina úr Debian 4 Etch í Debian 5 Lenny. Fékk ekki X-windows (grafíska umhverfið) upp,en bara ákveðnar villumeldingar. Gúgglaði netið og fann fremur lítið. Það sem ég prófaði virkaði ekki. Þá er bara að snúa sér að íslensku vinunum á RGLUG e-mail grúppunni og lýsa málinu. Og þar stóð ekki á svörum:

Ertu búinn að setja inn xserver-xorg-video-nv?

Farið í APTITUDE sem ég hef nánast ekkert notað áður (ekki grafískt umhverfi) og lært á það í skyndi og leitað. Jú, það virtist ekki inni, en í pökkum sem ekki höfðu niðurhalast í uppfærslunni. Það er forrit sem heitir hald sem á að sjá um þetta sjálfvirkt, en hefur eitthvað klikkað á nVidia kortinu.

Setja + við xserver-xorg-video-nv og síðan ýta á g og aftur g og dræverinn niðurhalast og er settur upp.

Svo þarf náttúrulega að reboota svo allt virki eins og í M$ Windows, er það ekki? Ó nei, bara keyra serverinn: skipunin "startx" og upp kemur þetta fína grafíska umhverfi.

Sáttur! :D

Þakkir Guði og Guðjóni á RGLUG

miðvikudagur, apríl 15, 2009

Er hægt að vera kaþólskari en páfinn? - visir.is:Eva Jolie fullkomlega vanhæf

Þessu heldur Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður fram á www.visir.is. Hann segir ennfremur í grein sinni, sem byggð er á þekktri aðferðafræði sem kölluð er FUD (Fear, Uncertainty, Doubt) og er ætlað einmitt það, að sá ótta og óvissu og skapa efa:

Kafli 1: Uncertainty

Eva Joly er fullkomlega vanhæf til að koma að rannsókn sérstaks saksóknara. ... Brynjar ... vekur máls á rannsókn bankahrunsins í grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann að í kjölfar bankahrunsins virðist sem flestum þyki eðlilegt að lýsa því yfir opinberlega að stjórnendur fjármálafyrirtækja og svokallaðir auðmenn séu glæpamenn.

Er þetta fullyrðing sem hann telur sig geta staðið við? Er hér um vísvitandi ýkjur að ræða eða er maðurinn ekki betur upplýstur? Ég tel eins og flestir að tilteknir menn, sem öll merki eru um að hafi komið Íslandi á knén með hættuspili í fjármálaleikfimi hljóti að verða að una því að vera kallaðir sínum réttu nöfnum. Eru menn ekki sektaðir fyrir glæfraakstur, glannalega meðferð skotvopna o.s.frv.?

Þá sé þess krafist að þeir verði lokaðir inni og eignir þeirra frystar.

Hvað annað er skynsamlegt? Eigum við í nafni tilgerðarréttlætiskenndar að horfa upp á að eignir okkar sem tilteknir aðilar hafa skert, svo vægt sé tekið til orða, hverfi með öllu af því að þeim sé gefinn allur sá tími sem þeir þurfa til að má út spor sín og koma auðnum undan?

Kafli 2: Fear

Brynjar segir að þegar hlustað sé á slíkan málflutning og þegar þeir sem fari með rannsókn og saksókn taki undir hann sé ástæða til að óttast um örlög réttarríkis.

Réttarríki sem metur hærra rétt grunaðra en rétt þeirra sem fyrir skaðanum verða, er það svoleiðis réttarríki sem Brynjar vill? Er hann kannski kominn með client - einhvern þessara grunuðu? Mann fer að gruna ýmislegt.

Kafli 3: Doubt

Í greininni fjallar Brynjar sérstaklega um Evu Joly, rannsóknardómarann frá Frakklandi, sem ráðin hefur verið til embættis sérstaks saksóknara. Hann segir ekkert athugavert við að leita aðstoðar erlends sérfræðings við úrlausn mála en hins vegar sé óvenjulegt að útlendir sérfræðingar séu starfsmenn embætta, sem fara með rannsókn sakamála. Brynjar segir yfirlýsingar Evu Joly á opinberum vettvangi um að íslenskir fjármálamenn hafi skotið undan fé og að yfirgnæfandi líkur séu á því að stjórnendur bankanna hafi brotið lög veki furðu. Með yfirlýsingum af þessu tagi sé brotið gegn hlutlægnisreglu rannsakanda og ákæruvalds. Brynjar segir að það sé einsdæmi í réttarsögu Íslands að aðilar sem lýst hafi yfir sekt þeirra sem rannsaka skal komi að rannsókn sakamála. Vegna þessa sé Eva Joly fullkomlega vanhæf til að koma að rannsókninni. Ráðningin geti hugsanlega valdið því að rannsóknin og möguleg saksókn ónýtist, í ljósi þess að sakborningar hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð.

Þarf ég að segja meira?

fimmtudagur, apríl 02, 2009

"Viðskiptaráð: Þjóð getur ekki átt eign" (Viðskiptablaðið)

Það er merkilegt hvað (ný)frjálshyggjan nær langt og hvað hún er langt frá því að vera dauð. Þrátt fyrir bankahrun kemur bæði lögfræðingastóð Sjálfstæðisflokksins (enda flestir lögfræðingar Sjálfstæðismenn) og bissniss-gúrúar og halda áfram ruglinu. Tivitnuð frétt var í Viðskiptablaðinu í dag:

Viðskiptaráð: Þjóð getur ekki átt eign
- Gera athugasemdir við stjórnaskrárfrumvarpið, segja ríkið þegar ráða yfir auðlindum

Hverjar eru svo forsendurnar fyrir því að "Þjóð geti ekki átt eign"? Hverjar eru skýringarnar á því? Að sjálfsögðu engar, enda hafa þessir postular Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins bara þeirra orð fyrir því og þeir segja bara "aþþí bara". Málið ku vera í hnotskurn að þjóð hafi ekki kennitölu. Bíddu við: Hvenær varð kennitalan til?

Ótrúlegt hvað forheimskaðir háskólagengnir menn geta verið mikil vélmenni.

mánudagur, mars 30, 2009

Hvað er jafnaðarstefnan?

Ég var spurður að því um daginn hvað jafnaðarstefnan væri í mínum huga. Ég svaraði eitthvað á þá leið að hún væri um það að huga að þeim sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu með tekjujöfnun og fleiru sem ég tíndi til.

Svo fór ég að hugsa málið í raun. Ég var ekki ánægður með svarið sem ég hafði gefið. Og allt í einu kom upp í huga mér það sem mér finnst vera rétta svarið.

Jafnaðarstefnan er kærleiki. Og vel að merkja: kærleiki til manna en ekki hugmynda. Því að kærleikurinn vekur samúð með þeim sem líður illa og með þeim sem misgera öðrum.

En jafnaðarstefnan er ekki kærleikur til einhverra stefnumála. Stefnumálin rúmast innan jafnaðarstefnunnar aðeins í þeim mæli sem þau mótast af kærleikanum til mannanna. Þannig má segja að ýmiss konar "jafnréttismál" eigi illa heima innan jafnaðarstefnunnar, ef þau einkennast af offorsi og yfirgangi gagnvart meðbræðrum okkar. Þannig finnst mér krafa samtaka eins og siðmenntar og annarra slíkra, sem krefjast t. d. vanhelgunar helgidaga, og að meirihlutinn láti alltaf í minni pokann fyrir fámennum minnihlutahópum, sem gala og góla og hafa hátt, eiga takmarkaðan rétt til að telja sig heyra jafnaðarstefnunni til.

Ég hef vissa samúð með þrýstihópum á borð við femínistum, þar sem berið er að reyna að vinna gegn þeirri bábilju að konur séu körlum óæðri, skoðun, sem því miður virðist allt of ríkjandi enn. Ég er hins vegar ekki sammála öllum þeirra hugmyndum um úrlausnir. Ég held að við verðum fyrst og fremst að vinna að því að styrkja konur til bættrar sjálfsímyndar. Ég tel að liður í því hljóti að vera að berjast gegn þeirri staðalímynd að stúlkur þurfi að líta svona og svona út, nota þetta og þetta til þess að bæta útlitið, o.s.frv.

Sem betur fer hefur jafnaðarstefnan náð þeim heildareinkennum sem fara mjög hönd í hönd við siðaboðskap kristindómsins um að elska náungann og beita þannig ýmsum jöfnunartækjum, svo sem skattkerfi og bótakerfi, til þess að koma í veg fyrir það böl sem hlýst af fátækt. Sagan sýnir okkur svo ekki verður um villst að án jafnaðarstefnunnar eða einhvers í líkingu hennar verður alltaf of mikil misskipting auðs og lífsgæða. Í þessu efni má benda á þjóðskipulag frumgyðnigdóms eins og sjá má í hluta af lögmáli Gyðinga (2.-5. Mósebækur), þar sem sérstök áhersla er lögð á að hlú að þeim sem höllum fæti stóðu á þeim tíma, ekkjum, munaðarleysingjum og útlendingum. Þessi aðstoð fólst einkum í því að gera þeim kleyft að safna af jarðávexti Gyðinga, þeirra 11 kynkvisla, sem jarðnæði höfðu (12. kynkvíslin átti ekki jarðir og áttu hinar 11 að gjalda tíund þeim til viðurværis).

Hvert er viðmið kærleikans? Jú, það er það sem felst í hinum gullvægu orðum Biblíunnar: Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig. Ef jafnaðarstefnan hefur þetta að leiðarljósi, mun henni farnast vel.

föstudagur, mars 27, 2009

Horfin frétt í Mogga

Ég fékk þetta Newsfeed frá Mbl.is á iGoogl síðuna mína:
Skoði hvort Landsvirkjun hafi keypt sér skipulagið
Taka þarf efnislega afstöðu til þess í samgönguráðuneytinu hvort samkomulag Landsvirkjunar við Flóahrepp, um gerð aðalskipulags vegna Urriðafossvirkjunar, standist ákvæði skipulags- og byggingarlaga.

Eins og sést á þessum link, þá virðist búið að taka fréttina út, en textinn sem fylgdi var þessi:

Taka þarf efnislega afstöðu til þess í samgönguráðuneytinu hvort samkomulag Landsvirkjunar við Flóahrepp, um gerð aðalskipulags vegna Urriðafossvirkjunar, standist ákvæði skipulags- og byggingarlaga.

Um hvað var þessi frétt í rauninni? Er á ferðinni rökstuddur grunur um að Landsvirkjun hafi með ólögmætum hætti aflað sér stuðnings við áform um orkuver í Þjórsárvirkjunum eða var þarna á ferðinni eitthvað grín sem óvart datt inn á síðuna?

mánudagur, mars 23, 2009

Hið merkilega minnisblað Seðlabankans

Vísir og Mbl.is birta frétt um minnisblaðið sem Davíð Oddsson minntist á i Kastljósviðtali fyrir nokkrum vikum síðan. Mbl.is gerir "betur" en Visir og vísar á PDF skjal af upprunaskjalinu, en fréttin er hér:
Frétt Moggans um minnisblað Seðlabankans frá í feb. 2008
Skjalið sjálft er hér: Minnisblaðið

Það merkilega er að þetta er mynd af skjalinu, skannað í dag. Uppruni einhver Canon skanni. Engin merking er fyrir Seðlabankann, ekkert logo, ekkert vatnsmerki, ekkert.

Hefði ekki verið trúverðugra að sýna með einhverjum hætti fram á uppruna skjalsins? Þetta vekur ýmsar spurningar.

  • Er þetta kannski ástæðan fyrir því að ekki var tekið mark á skjalinu, að það rataði aldrei formlega inn í skjalakerfi eða skjalavistun Seðlabankans?
  • Er skjalið úr Seðlabankanum eða er það einhvers staðar annars staðar frá?
  • Er rétt dagsetning á skjalinu? Það er nefnilega svo augljóslega hægt að skrifa hvað sem er hvenær sem er og setja á það hvaða dagsetningu sem er.
  • Er einhvers staðar í Seðlabankanum að finna skráningu á skjalinu, þar sem hægt er að staðfesta dagsetningu og höfund skjalsins?

Sem sagt, enn á ný dæmi um lélega blaðamennsku. Þetta segir ekkert og sannar ekkert.

Ég er þar með ekki að segja að skjalið sé falsað eða að það sé rangt sem í því stendur, heldur einfaldlega að þessi frétt og snepill sanna mér ekkert og ég vil sannanir. Tími til kominn.

Vísir bætir við:

Og varla hefur Seðlabankinn sjálfur tekið mikið mark á þessu plaggi sínu því mánuði eftir þessa fundi í London ákvað bankinn að afnema bindiskyldu á erlendum dótturfélögum bankanna. Afleiðingin varð að Icesave gat flætt út úr Bretlandi og yfir í mörg önnur lönd eins og t.d. Holland.

Ef skjalið var kannski ekki til er varla von að Seðlabankinn sjálfur hafi tekið mark á því.

mánudagur, mars 09, 2009

Sjálfstæðismenn eyða tíma Alþingis

Það er ótrúlegt að hlusta á umræður á Alþingi núna. Áðan voru umræður um fundarstjórn forseta, þar sem Sjálfstæðismenn voru að væla út af því að það ætti nú kannski að ræða eitthvað annað mál en forseti var með í gangi. Þetta var eftir langar málalengingar Sjálfstæðismanna um málið sjálft, um Skyldutryggingu lífeyrissjóða o.fl. Og svo héldu umræðurnar áfram og Sigurður Kári fór að tala um menn og málefni sem ekkert varðaði umræðuna.

Hvernig stendur á því að forseti Alþingis getur ekki skipað mönnum að halda sig við efnið? Ef þessir menn vilja ræða undir ákveðnum lið, þá hlýtur það að vera lágmark að þeir sýni sjálfum sér og Alþingi þá virðingu að ræða það málefni.

Sjálfstæðismenn, endilega kjósið svona kjána í efstu sæti í prófkjörum ykkar, þá kýs enginn flokkinn ykkar.

Sennilega er full þörf á að breyta þingsköpum þannig að forseti hafi meira vald til þess að halda umræðum við málefnin sem til umræðu eru.

föstudagur, mars 06, 2009

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Brubeck enn að, 89 ára

The Groove Radio á Florida segir frá því að þeir eru styrktaraðilar að konsert Dave Brubecks í Fort Pierce

Vegna breytilegra upplýsinga á The Groove, er rétt að benda líka á þennan tengil:
WGRV The Groove Presents
DAVE BRUBECK
LIVE IN CONCERT

en þar segir reyndar ranglega að hann sé 84 ára. Hann mun vera fæddur 1920, svo að við þurfum að bæta 5 árum við. Brubeck er bókaður fram yfir mitt sumar víða um Bandaríkin og einnig í London og í Torontó í Kanada.

Merkilegt að meðan svo ótalmargir jazzarar hafa látist löngu fyrir aldur fram, þá lifir þessi snillingur í hárri elli og gefur ekkert eftir. En hann hefur reyndar lifað heilbrigðara lífi en flestir jazzarar eins og kunnugt er, enda trúaður kristinn maður, eins og hann hefur oft tekið fram og kemur nokkuð ljóst fram í síðari verkum hans, sjá upplýsingar á heimasíðu Brubecks.

Svona til að skýra tengslin við The Groove, þá fékk ég upplýsingar um þessa útvarpsstöð þegar við Ásta vorum að hlusta á Annie Sellick á Heidi's Jazz Club á Cocoa Beach á Florida, en einn aðalkosturinn við Florida er að þar finnur maður alls staðar einhverja góða jazzstöð í útvarpinu hvenær sem er sólarhringsins. Bara að maður gæti fengið eitthvað í námunda við það hér.

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

"The other side of Slumdog Millionaire"

The other side of Slumdog Millionaire

It seems that the Western world has some issues with the poverty shown in the subject film. I just came across this interesting article by KR Ravi and thought I should share it with you. :-)

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Samfylkingarblogg -- verið að vinna í gagnvirkum vef

Þeir voru fljótir að svara mér hjá Samfylkingunni og segja mér að það sé:

í gangi vinna við nýjan vef Samfylkingarinnar þar sem hvers kyns gagnvirkni og þátttaka almennra félagsmanna og annarra áhugamanna um stjórnmál verður í fyrirrúmi. Stefnt er að því að sá vefur verði opnaður um aðra helgi.

Ég læt mig bara hlakka til. :-)

Samfylkingarblogg -- eða ekki...

Hnappar sem m. a. vísa á bloggsíðuna

Mig hefur oft langað til þess að sjá hvað hinn almenni Samfylkingarmaður hefur að segja í hinum lýðræðislegu og opnu stjórnmálasamtökum, Samfylkingunni. Þarna er þessi hnappur fyrir bloggið:
Bloggið!

Bloggið - okkar fólk á vefnum

En þar er ekkert blogg að finna, aðeins fjölda tengla á fyrirfólk Samfylkingarinnar, ýmist heimasíður eða bloggsíður.

Er þetta leiðin til opinnar umræðu? Gætum við ekki lært eitthvað af unga fólkinu hér?

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Geir eykur enn á niðurlægingu sína

Geir vildi ná í Brown en fékk ekki samband.

Maður fær það á tilfinninguna að Geir hafi verið því fegnastur þegar Brown reyndist vera upptekinn (kannski var bara á tali?). Hann slapp þá við þetta erfiða símtal. Tölum þá bara við undirmanninn, Darling.

Að maður skuli vera að eyða tíma og kröftum í að blogga um svona mikla niðurlægingu. Maður ætti bara að gera eins og Geir og láta sem ekkert hafi gerst.

Sigurður ruddi

Maður getur stundum hlegið að sjálfum sér, hvað maður getur fengið út úr því sem maður skyndiles eða kastar augunum yfir. Ég var að kíkja á iGoogle desktoppinn minn og sá fyrst af öllu þetta: "Sigurður ruddi" og svo eitthvað meira. Upp í hugann kemur með það sama að einhver hafi verið að kalla einhvern Sigurð ónöfnum. En það var víst ekki málið. Þarna var vísun í frétt Mbl (eins og glögglega kemur fram) um að Sigurður heitinn Helgason hafi rutt lággjaldaflugfélögum braut. Sjá: "Sigurður ruddi lággjaldaflugfélögum braut".

mánudagur, febrúar 16, 2009

Davíð segir "Geltu!" - Davíð og dularfulla bréfið

Merkileg framkoma Geirs H. Haarde í dag á Alþingi. Hann er kannski svolítið óvanur venjulegum þingstörfum hafandi verið ráðherra mestalla sína "alþingistíð". En augljóslega kom "leki" úr Seðlabankanum og Geir, eins og aðrir góðir Snatar, gelti eins og til stóð.

Dapurlegt að hann skuli ekki sjá hvernig Davið niðurlægir hann aftur og aftur. :-( Það er hins vegar skiljanlegra með stuttbuxnadrengina Sigurð Kára og Co.

"Jón Baldvin varpaði tímasprengju" - Undarleg skrif

Þessi athugasemd mín við blogggrein Björgvins Guðmundssonar er ekki komin inn eftir hálfan dag, þannig að ég birti hana hér:

Sæll Björgvin.

Þú hefðir átt að vera á fundinum. Þetta var ekki tímasprengja. Þetta var sprengja og hún sprakk strax.

Finnst þér virkilega að Ingibjörg hafi staðið sig vel? Ég studdi hana til formennsku í Samfylkingunni, en mér finnst hún hafa brugðist, annað hvort vegna linkindar við Geir eða vegna þess að hún sjálf áttaði sig ekki á alvarleika stöðunnar. Hún er í þeirri stöðu sem formaður að henni er trúað fyrir að gæta hagsmuna okkar, bæði Samfylkingarmanna almennt, kjósenda og landsins alls.

Ég varð þeirrar skoðunar -- reyndar nokkuð seint, finnst mér núna -- eða í lok nóvember sl. að eftirfarandi ættu að segja af sér:

  • Seðlabankastjórar og bankaráð Seðlabankans;
  • Forstöðumaður FME og jafnvel stjórn FME, þó svo að Jón Sig hafi setið stutt og sé varla um að kenna;
  • Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra (vegna þess að hún er formaður Samfylkingarinnar) og Viðskiptaráðherra.

Sumir þessara áttu að segja af sér vegna þess að þeir áttu sök á málum beinlínis, en aðrir vegna þess að þeir höfðu sofið á verðinum. Miðað við það sem almenningur veit í dag, þá er það afskaplega dapurlegt að þeir sem höfðu miklu betri aðgang að öllum upplýsingum og hafði verið trúað fyrir hinum hæstu stöðum, skyldu ekki vera vakandi.

Það þarf líka að skapa traust innanlands og utan.

Uppskeran er heldur rýr miðað við þetta. Þú veist sjálfur hverjir hafa sagt af sér og hvejir hafa verið látnir fara og hverjum er verið að reyna að koma frá. Ingibjörg Sólrún á að hafa vit á að segja af sér eða alla vega að tilkynna að hún verði ekki í framboði til formennsku, eða taki sæti á næsta þingi.

Ég er að sjálfsögðu sammála þér að það sé fyrst og fremst Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. (hinn gamli alla vega), sem bera pólitíska ábyrgð á málum, en hinir bera líka ábyrgð, sem sofna á verðinum.

Sprengjan er sprungin. Jón Baldvin var með lausnina fyrir 14 árum síðan, sem hefði komið í veg fyrir þetta alvarlega ástand. Þjóðin hafnaði honum þá, af því að hún kaus að trúa rógsherferð Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna (og fleiri, jafnvel Samfylkingarmanna).

Jón Baldvin er sá eini reynslubolti í pólitík, sem ég þekki, sem er algerlega frír við að hafa stungist af þessum svfnþorni, sem þjóðin virðist hafa verið stungin af. Hann var líka með lausnina: Inngöngu í ESB.

Ég segi: Jón Baldvin sem formann Samfylkingarinnar. Hann gerir sér grein fyrir stöðunni. Hann mun ekki láta menn komast upp með að sluxa við björgunarstörfin. Hann hefur reynsluna. Hann er eini kosturinn sem ég sé í stöðunni. Áður en hann kastaði þessari sprengju, var ég alvarlega að íhuga Framsóknarflokkinn, hvort endurnýjunin þar væri nægileg til þess að hann gæti komið til greina fyrir vonsvikinn krata.

Með vinsemd.

Böðvar Björgvinsson
krati síðan 1978.

Við þetta má bæta að Jón Baldvin setur stundum fram hluti til þess að fá viðbrögð við þeim eða að koma einhverju öðru af stað, þannig að ekki er svo sem víst að hann meini neitt með því í rauninni að hann ætli í framboð. Hann gæti hins vegar miklu frekar verið að knýja Ingibjörgu Sólrúnu til svara.

föstudagur, febrúar 13, 2009

Týndir snillingar - Kristín Liljendahl

Það er eins og sumir hverfi einfaldlega af yfirborði jarðar eftir að hafa hlotið frægð. Einn slíkra er söngkonan Kristín Liljendahl, sem söng svo eftirminnilega "Ég skal mála allan heiminn, elsku mamma". Hvað varð eiginlega af henni? Mér þætti vænt um svör.

Einnig er spurning um höfunda lags og texta. Upplýsingum á Netinu ber ekki saman, þar sem tveir aðilar segja lagið sænskt (enginn höfundur) og textann eftir Hinrik Bjarnason, en einn að lagið sé eftir Hinrik Bjarnason og textinn eftir Iðunni Steinsdóttur.

Það vantar upplýsingar um svona hluti á heimsnetið. Og hananú!

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Mogginn og Micro$oft

Finnst ykkur ekki merkilegt að það að einhver ætli að gera eitthvað skuli vera frétt, þegar sá sem aftur hefur náð einhverju stóru markmiði fær svona rétt að fljóta með?

Tækni & vísindi | mbl.is | 27.1.2009 | 12:09
Microsoft ætlar sér stóra hluti í netvafrabaráttunni

Það ætla líka fleiri, svo sem FireFox, Mozilla, Opera o. fl.

Svo er tilvísun í "Heimasíðu Microsoft", sem er í raun tengill inn á beta-útgáfu af IE8. Hann er sem sé rétt kominn í RC1 útgáfu!

Go with the mon(k)ey!

Smyrjaraliðið á Svertingsstöðum komið í gang

Það var við því að búast að Sjálfstæðismenn yndu illa því að fá ekki að vera með í ríkisstjórn. Þeim hefur alltaf líkað það illa. Þeir telja að þeir séu sjálfbornir til þess að stjórna landinu. Það þarf að passa svo margar stöður -- lykilstöður. Og nú eru þeir sem sé komnir í gang:

Innlent | Morgunblaðið | 28.1.2009 | 05:30 „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu Eftir Pétur Blöndal pebl@mbl.is

Ég hef stundum séð gott koma frá Pétri, en stundum fellur hann líka í Heimdallardíkið. Það virðist erfitt að komast upp úr því. Og hann byrjar af krafti. Reyndar svo miklum að það stendur ekki steinn yfir steini í umfjöllun hans, nema þá að þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins séu heyrnarlausir, ólæsir og með öllu dómgreindarlausir -- sem ég vil helst ekki ætla þeim. Lítum á nokkur atriði.

Margt af því sem er á svonefndum aðgerðalista Samfylkingarinnar, sem birtur var í Morgunblaðinu í gær, höfðu sjálfstæðismenn raunar aldrei heyrt um, svo sem að færa niður veðstöðu lána og bæta réttarstöðu skuldara, bjargráðasjóð heimilanna og aðkomu auðmanna.

Öll þessi mál eru búin að vera í umræðunni síðan í haust. Sjálfstæðismenn eru þá að mati Péturs (eða heimildarmanna hans) heyrnarlausir og ólæsir eða jafnvel blindir upp til hópa.

Það sé til marks um að verið sé að slá ryki í augu fólks, að ekki sé á listanum að Samfylkingin hafi krafist þess að fá forsætisráðuneytið, „sem kom á daginn að var algjört aðalatriði og skilyrði fyrir hinu“.

Það hefur komið rækilega fram í fjölmiðlum að Samfylkingin krafðist breytinga í Seðlabankanum og að verkstjórn (orð sem Geir móðgaðist svo mjög yfir) yrði að komast í lag. Fyrst Geir þverskallaðist við þessum sjálfsögðu kröfum, þýddi þetta að það yrði að skipta um í brúnni. Geir og Solla eru bæði veik, sem kunnugt er, og þurfa að komast í smá frí þess vegna og flestir aðrir að fara í kosningaslag, þannig að Samfylkingunni (les: Sollu) kom til hugar að nýta mætti starfskrafta þess þingmanns sem mest þjóðarsátt er um og er að hætta á þingi til þess að stýra skútunni þessa síðustu metra. Hins vegar vitandi um hatur margra sjálfstæðismanna á "heilagri Jóhönnu" og því að þeir líta margir í raun niður á hana fyrir ýmissa hluta sakir, þá get ég svo sem sæst á að Solla hafi þarna kannski vísvitandi sett fram kröfu sem hún vissi að Sjálfstæðismenn myndu aldrei, ALDREI, ganga að. Solla vissi svo sem að það þýddi ekkert að eiga frekar við sjálfstæðismenn.

Í þriðja lagi um „svokallaða tiltekt“ í Seðlabankanum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir löngu sagst tilbúinn í lagabreytingar, sem gætu leitt til breytinga á yfirstjórn Seðlabankans, en byggðust á tillögum frá erlendum sérfræðingum sem fengnir höfðu verið til að skoða skipulag Fjármálaeftirlitsins og hugsanlega sameiningu þess við Seðlabankann.

Hvað ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn sér að hanga á þessu í langan tíma? Hvers vegna voru þessar áætlanir ekki komnar í gegn? Það er neyðarástand í þjóðfélaginu en sjálfstæðismönnum liggur ekkert á. Ekki frekar en alltaf.

Málið er það að sjálfstæðismenn hafa aldrei kunnað að vinna. Þeir hafa hangið á þingi að hætti breskra íhaldsmanna, sem finnst aðallega fínt að vera þarna og þetta er náttúrulega ágætur klúbbur, gott fæði og allt það.

Rifjum upp aðdraganda Viðeyjarstjórnarinnar. Aldrei komu sjálfstæðismenn undirbúnir til viðræðna. Jón Baldvin og Jón Sigurðsson voru alltaf tilbúnir með tillögur og varatillögur, enda varð stjórnarsamningurinn að mestu leyti upp úr stefnuskrá Alþýðuflokksins.

Sömu hluti er maður alltaf að reka sig á. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að sjálfstæðismenn (þingmenn og ráðherrar og aðrir "wannabe's") séu latir, óklárir í stjórnmálum og staðnaðir. Þegar ég segi óklárir í stjórnmálum, þá á ég við málefnavinnu, því að þeir ásamt framsóknarmönnum hafa reynst manna duglegastir við að koma sínum mönnum í lykilstöður í stjórnkerfinu, hlutur sem ætti ekki að meta nema 10% af mikilvægi stjórnmála. Hjá sjálfstæðismönnum virðist þetta vera öfugt: Málefni 10% stöðuveitingar 90%. Þeir minna svolítið á vinnubrögð í Austur-Evrópu: tala, tala, kannski framkvæma einhvern tíma seinna.

Og fjórða atriðið sneri að aðgerðum í þágu heimilanna, sem hefði áreiðanlega samist um.

Nákvæmlega: "...sem hefði áreiðanlega..." kannski og ef til vill. Er ekki neyðarástand í þjóðfélaginu?

Sjálfstæðisflokkurinn bætti við fimmta liðnum, aðgerðum í þágu atvinnulífsins til að sporna við atvinnuleysi.

Halló! Enginn heima? Það var talað um þetta strax í haust og allan tímann síðan! Les Pétur Blöndal ekki einu sinni Moggann?

Sjálfstæðismenn telja fullljóst að ekki hefði þurft að vera ágreiningur um þessi efnislegu atriði, heldur hafi verið settur á svið ágreiningur um forystuna í ríkisstjórninni.

Það var ekki ágreiningur um efnisleg atriði. Það sjá allir! Það var og er ágreiningur um vinnubrögð og þörf á aðgerðum.

Þetta er ein af fyrstu greinunum í mogganum og öðrum fjölmiðlum sem sjálfstæðismenn komast í í súrri baráttur þeirra til að sverta fyrrum samherja sinn og reyna að smyrja og nota smjörklípur. Þetta kunna sjálfstæðismenn manna best. Ég er að vona að þjóðin sjái í gegnum þá í þetta sinn.

Aðferðin er þekkt. Hún heitir FUD á ensku. "Fear, Uncertainty, Doubt" eða "ótti, óvissa, efi. Það er byrjað á að reyna að gera menn óttaslegna, síðan skapa óvissu, sem í framhaldinu veldur efa. Í þessu tilfelli efa um að andstæðingurinn sé að fara með rétt mál, efa um að hann sé hæfur til stjórnarsetu.

Höfum það bara á hreinu: Sjálfstæðisflokkurinn hefur margsannað sig að vera seinn til verka og seinn til hugsana, nema þegar þarf að koma gæðingum fyrir í kerfinu.

Eitt mega sjálfstæðismenn (og reyndar framsóknarmenn líka) eiga. Þeir virða kristni og kirkju í landinu. Þeir mættu samt læra meira af kristindómnum.

Kompásþátturinn lagður niður -- hvers vegna?

Í kastljósi RUV í gær kom Kristinn Hrafnsson fram og taldi að Kompásþátturinn hefði verið lagður niður til þess að sleppa við umfjöllun um lánveitingar Kaupþings til viðskiptajöfursins Robert Tchenguiz. Vísir.is bregst hart við í dag (sjá: Gömul frétt í Kastljósi) og kennir um hve dýr þátturinn sé.

Fyrst þessi kompásþáttur var tilbúinn til sýningar og allur kostnaður þegar til kominn, hvers vegna sá Stöð2 ekki ástæðu til þess að setja hann til sýningar? Er það ekki einmitt að henda peningum út um gluggann? Ég hefði haldið það. Og þá kemur spurningin með tvöföldum þunga: Hvers vegna var þátturinn lagður niður? Nákvæmlega þessi háttur á því að leggja þáttinn niður, að birta ekki tilbúinn þátt, vekur eðlilega mjög mikla tortryggni.

Ég hélt að 365 batteríið (hvað sem það heitir í dag og hvað sem það hét áður) hefði eingöngu tengst Glitni. Var það kannski misskilningur? Er eitthvað enn dularfyllra, sem tengist Kaupþingi? Eða áttu einhver samsvarandi viðskipti sér stað við Glitni eða tengd fyrirtæki? Eða er Kristinn Hrafnsson að fara með rangt mál?

Mér finnst allt í einu brýnt að fá svör við þessu.

sunnudagur, janúar 25, 2009

Til hamingju, Björgvin!

mbl.is: Björgvin segir af sér og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins hætta

Ég óska Björgvin G. Sigurðssyni til hamingju með þessa stóru ákvörðun. Það er tvöföld ástæða til hamingjuóska í hans garð að honum tókst að setja Framkvæmdastjóra FME af einnig. Varðandi stjórn FME, þá er það einnig skynsemismál að hún sagði af sér í kjölfarið, en einhvern veginn held ég að erfitt verði að manna stöðu Jóns Sigurðssonar. Hann hefur áreiðanlega gert það sem á hans valdi var til þess að bæta ástandið þar á bæ, en ég þekki ekki innviðina nægilega vel til þess að geta metið það. Ég hef á tilfinningunni að stjórn FME hafi í raun afskaplega lítið vald.

Þetta verður vonandi til þess að Árni Matt og seðlabankastjórn og bankaráð Seðlabankans segi af sér einnig. Það verður að ske.

Ef þetta gerist, þá ætti ríkisstjórnin að geta setið til kosninga í apríl eða maí. Vonandi verða þessir atburðir til þess að róa þjóðina ögn og til þess að bæta siðferði í stjórnmálum almennt.

föstudagur, janúar 23, 2009

"Íslands ógæfu verður allt að vopni" - veikindi ráðamanna

Það á ekki af þjóðinni að ganga. Ekki er nóg með að ein stærsta efnahagsblaðra sem þekkst hefur (hlutfallslega, að sjálfsögðu) hafi sprungið í andlitið á þjóðinni, heldur hafa bæði Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingarinnar, og nú Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, orðið fyrir alvarlegum heilsubresti.

Ég, eins og fleiri, hef gagnrýnt þau fyrir að víkja ekki úr starfi, en öll gagnrýni hverfur við svo alvarlegar fréttir af heilsu. Við höfum, mörg í þessu landi, beðið fyrir þjóðinni og ráðamönnum, en biðjum einnig nú fyrir heilsu þessara forystumanna og að þau sem hugsanlega koma í þeirra stað reynist vandanum vaxin.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Er ekkert að marka Geir?

Sjónvarpsstöðvarnar sýndu myndir af stoltum sýslumanni á Selfossi, sem var að fara í aðgerðir til þess að handtaka hundruð manna vegna skulda. Vísir segir að fréttin hafi vakið mikil viðbrögð í bloggheimum og skyldi engan furða. Geir og ríkisstjórn hans hafa marglýst því yfir að slá þurfi skjaldborg um heimilin, en - því miður - ríkisstjórnin hefur nánast ekkert gert í þeim efnum annað en það sem "heilög" Jóhanna hefur gert í sínu ráðuneyti.

Geir: aðgerðir strax til varnar fólkinu, eða segðu af þér strax ella. Hættu að ljúga að þjóðinni! Þú þykist vera vel kristinn fyrir kosningar. Lifðu samkvæmt því. Leggur ekki Biblían aðaláherslu hvað þjóðfélagsskipan varðar á vernd þeirra sem minna mega sín? Bannar hún ekki vaxtatöku og vaxtaokur gagnvart eigin þjóð? Farðu nú að lesa þá bók sem þú segist trúa eftir.

mánudagur, janúar 19, 2009

Til hamingju, Framsóknarmenn!

Enginn getur sagt blygðunarlaust að ég hafi verið hrifinn af mörgu, sem varðar Framsóknarflokkinn, en nú ber nýtt við. Í gær gerðust þau óvæntu tíðindi að Framsóknarmenn hysjuðu ærlega upp um sig brækurnar og kusu raunverulegan endurbótamann sem formann, mann sem virðist laus við þau þungu hagsmunatengsl fyrri ráðamanna í flokknum, sem, þó að þau hafi haldið fjárhagslegu lífi í flokknum og tryggt "sonum" hans stöður, hafa því miður reynst hin skelfilegustu spillingaröfl.

Ég veit að reyndar hefur mörgum Framsóknarmanninum sviðið framganga þeirra lykilmanna og þægð við peninga og völd, og þessi helgi sannar það. Hún segir mér einnig að loks hafi þessir pótintátar migið í fullan dall. Hinn almenni Framsóknarmaður sagði: "hingað og ekki lengra!"

En þetta er líka kannski í fyrsta sinn frá upphafi, sem þeir fá almennilega kost á að kjósa yfir sig mann, sem er (að því er virðist) ósnertur af fyrri pólitískum sóðaskap í Framsóknarflokknum.

Mér fannst reyndar Sigmundur Davíð svolítið linur sem fréttamaður sjónvarps gagnvart stjórnmálamönnum, einkum Sjálfstæðismönnum, og hafði því stimplað hann Sjálfstæðismann. Það kom mér því verulega á óvart þegar ég frétti af því að hann væri orðaður við framboð í sveit Frammara. Sigmundur Davíð átti frábæra endurkomu sem skipulagsfræðingur, eða öllu heldur skipulagshagfræðingur (sem kannski skýrir margt!), inn í umræðuna um skipulagsmál Reykjavíkur o. fl. Ég var svo sammála honum í öllum atriðum nánast. Hér var virkilega á ferð maður sem hafði farið til útlanda með augun opin! Í umræðu hans um stjórnmál síðan hefur mér fundist mikið til hans koma og hefur fundist hann tala eins og sannur krati. Ég er sannfærður um, að ef ekki hefðu komið til ætternistengsl hans við Framsóknarflokkinn, þá hefði hann frekar boðið sig fram fyrir Samfylkinguna eða verið með í nýju (endurnýjuðu) framboði nýkrata (sem ég hef á tilfinningunni að gæti verið að verða til, án þess að ég hafi mikið fyrir mér í því).

Undir stjórn Sigmundar Davíðs ætti Framsóknarflokkurinn að geta orðið fyrsti kostur flokka eins og Samfylkingarinnar að starfa með eftir næstu kosningar, sem vonandi verða fljótlega.

Nánar um kosningu Sigmundar Davíðs má sjá hér: Sigmundur kjörinn formaður

Til hamingju Frammarar.
Til hamingju Sigmundur Davíð!