Ég var spurður að því um daginn hvað jafnaðarstefnan væri í mínum huga. Ég svaraði eitthvað á þá leið að hún væri um það að huga að þeim sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu með tekjujöfnun og fleiru sem ég tíndi til.
Svo fór ég að hugsa málið í raun. Ég var ekki ánægður með svarið sem ég hafði gefið. Og allt í einu kom upp í huga mér það sem mér finnst vera rétta svarið.
Jafnaðarstefnan er kærleiki. Og vel að merkja: kærleiki til manna en ekki hugmynda. Því að kærleikurinn vekur samúð með þeim sem líður illa og með þeim sem misgera öðrum.
En jafnaðarstefnan er ekki kærleikur til einhverra stefnumála. Stefnumálin rúmast innan jafnaðarstefnunnar aðeins í þeim mæli sem þau mótast af kærleikanum til mannanna. Þannig má segja að ýmiss konar "jafnréttismál" eigi illa heima innan jafnaðarstefnunnar, ef þau einkennast af offorsi og yfirgangi gagnvart meðbræðrum okkar. Þannig finnst mér krafa samtaka eins og siðmenntar og annarra slíkra, sem krefjast t. d. vanhelgunar helgidaga, og að meirihlutinn láti alltaf í minni pokann fyrir fámennum minnihlutahópum, sem gala og góla og hafa hátt, eiga takmarkaðan rétt til að telja sig heyra jafnaðarstefnunni til.
Ég hef vissa samúð með þrýstihópum á borð við femínistum, þar sem berið er að reyna að vinna gegn þeirri bábilju að konur séu körlum óæðri, skoðun, sem því miður virðist allt of ríkjandi enn. Ég er hins vegar ekki sammála öllum þeirra hugmyndum um úrlausnir. Ég held að við verðum fyrst og fremst að vinna að því að styrkja konur til bættrar sjálfsímyndar. Ég tel að liður í því hljóti að vera að berjast gegn þeirri staðalímynd að stúlkur þurfi að líta svona og svona út, nota þetta og þetta til þess að bæta útlitið, o.s.frv.
Sem betur fer hefur jafnaðarstefnan náð þeim heildareinkennum sem fara mjög hönd í hönd við siðaboðskap kristindómsins um að elska náungann og beita þannig ýmsum jöfnunartækjum, svo sem skattkerfi og bótakerfi, til þess að koma í veg fyrir það böl sem hlýst af fátækt. Sagan sýnir okkur svo ekki verður um villst að án jafnaðarstefnunnar eða einhvers í líkingu hennar verður alltaf of mikil misskipting auðs og lífsgæða. Í þessu efni má benda á þjóðskipulag frumgyðnigdóms eins og sjá má í hluta af lögmáli Gyðinga (2.-5. Mósebækur), þar sem sérstök áhersla er lögð á að hlú að þeim sem höllum fæti stóðu á þeim tíma, ekkjum, munaðarleysingjum og útlendingum. Þessi aðstoð fólst einkum í því að gera þeim kleyft að safna af jarðávexti Gyðinga, þeirra 11 kynkvisla, sem jarðnæði höfðu (12. kynkvíslin átti ekki jarðir og áttu hinar 11 að gjalda tíund þeim til viðurværis).
Hvert er viðmið kærleikans? Jú, það er það sem felst í hinum gullvægu orðum Biblíunnar: Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig. Ef jafnaðarstefnan hefur þetta að leiðarljósi, mun henni farnast vel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli