föstudagur, desember 28, 2007

Árangur í Erlu máli Óskar

Íslenska

Þó að Bandaríska innflytjendaráðuneytið hafi ekki sent afsökunarbeiðni til Erlu Óskar, hafa þó konurnar Ingibjörg Sólrun og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi náð þeim árangri að fá jákvæð viðbrögð frá ráðuneytinu þar sem meðferðin á Erlu Ósk er hörmuð og jafnframt tekið fram að þessir verkferlar verði endurskoðaðir með tilliti til þess hvernig fólk er meðhöndlað í málum sem þessum.

Ég efa að sami árangur hefði náðst með körlum í þessum embættum. Ég held að þeir séu of fastir í kerfinu gamla.

Alla vega, stór áfangi fyrir konur í æðstu embættum.

English -- as written in an e-mail to a friend in the USA

It seems women get these things right. The Cabinet Department in charge, the DoI or Homeland Security -- not sure from the story which -- has said they regret the treatment Ms. Erla Ósk Arnardóttir got and they promise the whole procedure regarding visitors will be reviewed.

Probably the result of how women (Foreign Minister of Iceland and the US Ambassador to Iceland) handle such things. Anyway a very promising news, and almost a Christmas gift to the world -- if not put to sleep somewhere along the way.

föstudagur, desember 14, 2007

Solla stendur sig

Ég sé ekki eftir að hafa kosið Ingibjörgu Sólrúnu. Ég efa að annar utanríkisráðherra hefði tekið jafn sköruglega á málum og hún í málefni Erlu Óskar Arnardóttur . Samt gekk hún ekki lengra en svo að útilokað er fyrir Bandaríkjamenn að móðgast eða vera með fyrirslátt. En líka það, hve fljótt hún brást við, var tær snilld, því að það kom í veg fyrir að Bandaríkjamenn gætu undirbúið sig með eitthvað kjaftæði.

Það er reyndar stórundarlegt að þessi þjóð, Bandaríkin, sem, þegar þeim hentaði, kallaði sig vinaþjóð, skuli sýna okkar þegnum -- og reyndar fólki yfirleitt -- slíkan afburðadónaskap. Það virðist vera sem skipulega sé verið að auka mannhatur og mannfyrirlitningu í bandaríska stjórnkerfinu, sbr. mál Arons Pálma Ágústssonar og svo margra fleiri að of langt yrði upp að telja. Kannski sýnir þetta einmitt að Al Qaida liðar unnu með hryðjuverki sínu, 11 sept. 2001, sigur á lýðræðishugsjóninni í Bandaríkjunum. Sorglegt ef rétt er.

Bandaríkjamenn hafa verið duglegir að finna upp eitt og annað. Nú eru þeir í því að finna upp óvini -- með því að búa þá til sjálfir.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Mogginn breytir sögunni

Ég er ekki duglegur að lesa alls kyns aukablöð sem detta inn um bréfalúguna, en í óveðrinu í nótt fór ég fram í eldhús og kíkti í blöðin meðan ég fékk mér sopa til að bæta svefnhæfið. Jólablað Moggans, gefið út 1. des., að mér skilst, lá á eldhúsborðinu og ég fór að fletta því. Þá rakst ég á viðtal við leikkonu, sem leikur Maríu Magdalenu í Jesus Christ Superstar. Hrund Hauksdóttir, blaðakonan sem tók viðtalið, hélt því þar fram að María Magdalena hefði verið móðir Jesú. Ég gat ekki séð af viðtalinu að hún hefði sagt hið sama við leikkonuna, heldur virtist mér að þarna væri annað hvort um að kenna fáfræði blaðakonunnar eða að hún og Mogginn, hafi lagst á eitt til að breyta sögunni!

Kannski er líka búið að breyta söguþræðinum í þessari uppfærslu? María Magdalena og móðir Jesú voru sín hvor persónan í söngleiknum síðast þegar ég gáði.

Kannski bara klaufaskapur? Vonandi.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Lundúnir heimsóttar

Londonarferð með konunni og starfsfélögum var á dagskrá fimmtudag til sunnudags. Frábær ferð. Vegna tafa á Heathrow þurftum við að hanga í loftinu og á brautinni í samtals um klukkutíma, áður er við fengum "slot".

Við tékkuðum okkur inn á hótel (Hilton Paddington), sem er frábærlega staðsett, innangengt í Heathrow Express og neðanjarðarlestarkerfið. Síðan var farið til TUC og kynntumst við hreyfingunni þar, uppbyggingu samtakanna og fræðsluþættinum. Þeir notast við kennsluumhverfið Moodle, sem er Open Source og ókeypis. Þetta sama kerfi er notað í einhverjum framhaldsskólum hér heima. Og reyndar fann ég það síðan á Debian Linux 4.0 Etch DVD disknum sem ég fékk nýlega með Linux Magazine!

Á föstudagskvöldið var farið á söngleikinn "We Will Rock You", sem er rokksöguævintýri, byggt á lögum og textum "Queen", og spila kapparnir sjálfir undir. Flott sýning og fín kóreógrafía.

Á laugardagskvöld var borðað á MoMo's, marokkóskum veitingastað. Það var hálfgerð sýning líka. Mjög gaman og skemmtilegur matur (dálítið öðruvísi en vel samsettur fyrir bragðlaukana að mínu mati.

Að öðru leyti var tímanum eytt í "skoðunar"- og verslunarferðir, aðallega um Oxford Street og nágrenni. Ýmislegt hafði skolast til í minningunni frá ferð okkar 1984, en síðan höfum við varla komið í þennan hluta borgarinnar.

Eitthvað var verslað, þó kannski minna en við ætluðum, enda úrvalið á neðri hluta Oxfort Street ekki eins gott og í stóru búðunum ofar.

Ég var búinn að panta hluta af hátalarakitti til sendingar á hótelið og stóðst það 100%. Komið upp á herbergi þegar við komum úr bæjarrandinu á hótelið á föstudag. Það virtist mjög fyrirferðarmikið, þar sem svampurinn, sem ég hélt að seljandinn hefði ætlað að senda með annarri sendingu til Íslands, kom með. En hann passaði fínt inn í töskurnar okkar og myndaði gott og mjúkt fóður.

Ferðin var í alla staði skemmtileg, enda ferðafélagarnir ekki af verri endanum. Það var virkilega gaman að kynnast þeim, sumum betur en áður, en öðrum var ég að kynnast í fyrsta sinn.

Við kynntumst neðanjarðarlestarkerfinu (gaman að nota svona löng orð!) allvel í þessari ferð. Það svínvirkar. Bið oftast ekki meiri en 2 mínútur, en þó stundum upp í 8 mín. Það er í góðu lagi. Ég lít svo á að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að koma sér upp úr skotgröfunum og fara að tala saman um almennilegar samgöngubætur. Neðanjarðarlestarkerfi er það eina, sem getur bjargað umferðarmálum á svæðinu. Púntur.

mánudagur, nóvember 26, 2007

S5TL Dome Transmission Line hátalarar - Kafli 1

Ákvörðun hefur verið tekin. Eftir að hafa skoðað vel og vandlega og spurt hina og þessa og Ivan P. Leslie sjálfan, varð niðurstaðan sú að taka ekki S5TL Kefvlar/Ribbon kittið, heldur Dome kittið. Það mun henta betur í okkar stærð af stofu. Kevlar/Ribbon hentar betur í rými sem er 4x6 metrar eða minna. Stofan okkar er aðeins stærri.

Það hefur gengið illa að greiða þetta í gegnum netbanka sparisjóðanna (S24) þar sem eitthvað vandamál virðist vera hjá þeim með tengingu á ýmsum innsláttarboxum við "field" í gagnagrunni. Ég endaði á að fara niður í S24 og láta setja upp viðskiptavininn þar og greiða síðan í gegnum tölvu þar. Og þar sem ég var orðinn svona seinn, þá þurfti ég að taka flýtimeðferð á sendingunni. 800kr. auka þar.

Ég átti í framhaldinu 20 mínútna samtal við tölvugæja hjá tölvuþjónustu sparisjóðanna. Ég ætti að fá endurgreitt, a.m.k. þessar 800 kr. frá S24. Léleg þjónusta hjá banka sem ég hef annars fengið góða þjónustu hjá. Þeir verða að laga þessi mál.

Sabayon eða Debian Linux

Ég er áskrifandi að Linux Magazine. Því blaði, sem kemur út mánaðarlega fylgir DVD diskur, sem oftast inniheldur einhverja nýjustu Linux útgáfuna frá einhverjum "samsetningaraðila". Linux og GNU eru jú opinn hugbúnaður og getur hver sem er sett saman heldarpakka að sínum geðþótta. Meðal þeirra sem setja svona saman eru:

  • Debian
  • Red Hat
  • SuSE
  • Ubuntu
  • Knoppix
  • Slackware
svo nokkrir séu nefndir.

Í síðasta blaði fylgdi áhugaverð útgáfa, sem ég hafði ekki séð áður, Sabayon, sem er sett saman af ítölskum aðilum. Hún virtist mjög áhugaverð. En þar sem ég var með Open SuSE 10.2 fyrir, og nokkuð hress með þá útgáfu, þá ákvað ég að nota Open SuSE 10.3 til uppfærslu, svona til öryggis.

Uppfærslan gekk vel, en eftir ca viku og nokkrar öryggisuppfærslur, þá fór útgáfan að koxa, að því er virðist á KDE 4, sem var jú beta útgáfa. Þá ákvað ég að prófa Sabayon.

Sabayon kom á "Live DVD", sem þýðir að hægt er að keyra það sem stýrikerfi beint af DVD disknum án þess að setja það inn á harða diskinn. Þannig virtist það mjög áhugavert, með mikilli og góðri grafik og með alls konar aukahlutum sem sjaldnast koma uppsettir í öðrum útgáfum.

Ég prófaði að setja þetta inn og virtist það ganga vel, en þegar ég endurræsti vélina, þá var bara gamla ræsiforritið úr OpenSuSE 10.3 til staðar og ekki hægt að ræsa Sabayon.

Ég er með nokkuð flókna diskaskiptingu og nota sneiðar af þremur diskum, þar af einum SCSI, til að keyra Linuxinn sem hraðast. Það kom sem sé í ljós að Sabayon forritið og uppsetningarforritið með honum skildu hlutina á misjafnan hátt og nefndu diskana ekki eins. Ég reyndi ýmsar leiðir til þess að fá þessa aðila til að sættast en án árangurs.

Í septemberhefti Linux Magazine fylgdi nýjasta útgáfan af Debian, sem er ein virtasta útgáfan, en hefur verið talin svolítið erfið fyrir meðaljóninn. Meðal nýjunga hins vegar í þessari útgáfu (4.0 ETCH) var bætt uppsetningarforrit. Ég ákvað að prófa.

Og viti menn, uppsetningin rann í gegn og Debian virti allar hefðir varðandi diskanúmeringar og uppraðanir og um miðnætti á föstudagskvöld (byrjaði að skoða þetta um kvöldmatarleytið) byrjaði uppsetningarforritið að setja upp einhverja 600 pakka (forrit). Ég kíkti á það einhvern tíma um nóttina þegar ég vaknaði og þá var þetta allt komið.

Ég hafði ekki möguleika á að setja upp bæði Gnome og KDE desktoppaumhverfin í einu af diskinum -- varð að velja á milli -- svo að ég valdi það sem Debian tengir sig fyrst við (default), Gnome. Ég átti von á að geta sett restina upp af disknum, en Debian vildi ekki viðurkenna það, heldur beindi mér á ftp þjóna á vefnum. Þaðan valdi ég svo eitthvað á 5. hundrað forritapakka í viðbót (KDE forritin flest, LaTeX, Lilypond og eitthvað fleira) og gekk það aldeilis glimrandi.

Niðurstaða:

Ef þú setur Linux inn á einn disk og ert ekki með blöndu af IDE (ATA, SATA o.s.frv.) og SCSI, þá er óhætt að mæla með Sabayon. Örugglega skemmtileg reynsla. Annars mæli ég með Debian. 18.000 forrit tilbúin til uppsetningar og sjálfvirks viðhalds hlýtur að vega þungt.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Á að fá sér nýja hátalara?

Enn einn gamall draumur. Það er ekkert smá sem góðir hátalarar kosta. En líklega er ég kominn með lausnina. Mig langar að prófa "Transmission Line" kerfið og byggja það sjálfur. Ég ætla að kaupa eitt kit frá Englandi og láta sníða utan um það hér heima. Meira fljótlega um það.

Gídeon NT komin til landsins

Sveinbjörn hringdi í gærkvöldi og sagði mér að testamentin væru komin í hús. Það verður gaman að kíkja á verkið. Sé það á laugardag.

þriðjudagur, október 16, 2007

Runólfur kvaddur

Það kom þá að því að maður þurfti að kveðja gamla Runólf (Renault Megane). Eftir einhverjar tilraunir til að skipta um eða gera við sjálfskiptinguna á ódýran hátt, þá gáfumst við endanlega upp, enda sitthvað annað farið að gefa sig í gamla skrokknum, og skiluðum honum upp í Vöku miðvikudaginn 10. okt. Greyið hefur verið í biðsal dauðans síðan síðla vetrar, eða um miðjan mars. Jæja, Runólfur var búinn að þjóna okkur vel. Kannski verður hann að steypustyrktarjárni eða einhverju viðlíka í framtíðinni. Boddýið var alla vega gott.

mánudagur, september 17, 2007

Debetkortin étin

Mig vantaði aldrei þessu vant skotsilfur um daginn. Ég fór í hraðbanka og setti debetkort í. Smástund leið og þá kom tilkynning á skjáinn: "Þetta kort er útrunnið." og síðan gerðist ekkert meira. Hraðbankinn át mitt útrunna kort.

Jæja. Það gat víst vel verið. Hafði ég ekki fengið einhverja tilkynningu í sumar um að "á næstunni" yrði gefið út nýtt kort? Þá er bara að prófa annað debetkort. Með semingi setti ég það inn. Það væri varla útrunnið líka? Ef svo, þá væri það hvort eð er einskis virði.

Inn fór kortið. Smástund leið. Tilkynning á skjánum: "Þetta kort er útrunnið."

Tvö kort, tveir bankar, sinn netbankinn á hvorn og engar meldingar hafði ég séð þar til að minna mig á að ég ætti tilbúið kort. Skyldi það kosta bankana mikið að setja inn svoleiðis tilkynningu meðfram öllum hinum tilkynningunum sem mér koma ekkert við -- um tilboð þetta og miða þarna.

Það versta við þetta er að á einhvern undarlegan hátt finnst manni maður hafa verið rændur. Það var sett fyrir mig gildra hér um árið úti í París og veskinu mínu stolið. Það var ótrúleg líðan sem ég upplifði. Ónot, reiði, minnimáttarkennd. Tilfinningarleg viðbrögð við þessu kortaáti hraðbankans hafði einnig ögn af þessari tilfinningu í för með sér, ca 20%, ef ég ætti að reyna að mæla það.

Bankarnir keppast um að vera með ánægðustu kúnnana. Væri ekki ráð að þeir fengju sálfræðinga sína og ímyndarsérfræðinga til að líta aðeins betur á þennan þátt. Nú eða bara auka upplýsingastreymið hvað þetta varðar. Þeir hafa jú netbankana sem við flest kíkjum á a.m.k. einu sinni á mánuði.

föstudagur, september 14, 2007

Gídeon NT 2007 tilbúið til prentunar

Það er stóráfangi í dag.

Í sumar tók ég að mér að brjóta um Nýja testamentið, Sálmana og Orðskviðina fyrir Gídeonfélagið á Íslandi. Ég tók rúmlega hálft sumarfríið í þetta. Því miður fékk ég bara í hendurnar Word fæla, sem voru vistaðir út úr InDesign, þannig að þó að þetta liti tiltölulega vel út (þökk sé InDesign), þá komu ýmsir gallar fram, sem gjarnan leynast í Word skjölum.

Ég byrjaði að brjóta þetta um í "unstructured" eða venjulegu FrameMaker umhverfi. Því miður er FM 7.x ekki með Unicode support og vestræni stuðningurinn strandar á Þorni og Eði. Þetta skapaði aukavinnu varðandi orðskiptingar, en engu að síður lenti ég í óvæntum vandamálum þar sem ég losnaði ekki við formöttunardrauga úr M$ Word. Ég ákvað því að prófa Structured FrameMaker. Þannig losnaði ég við þetta vandamál og um leið vannst það að efnið er betur endurnýtanlegt.

FrameMaker er ekki með venjulegt DropCap heldur setur maður slíka stafi í "Anchored Frame" með sérstökum reglum. Fínt. Ágætt. En, því miður, þegar á endasprettinn var komið, þá kom í ljós, þegar þurfti að jafna línur í síðurammana, þá virkar það ekki á síðum sem hafa Anchored frames. Ég varð því að sleppa þessum möguleika. :-(

Annað vandamál var með dálkajöfnun. Við ákveðnar aðstæður getur komið til að texti feli sig undir botni síðuramma, 1-2 línur. Það er hægt að "forca" það til baka, en alltaf er hætta á að það taki sig upp aftur, þannig að ég sleppti því að balansera dálka þar sem þetta kom fyrir. Í staðinn þurfti ég að "handjafna" með því að stytta viðeigandi síðuramma hæfilega.

Þetta er búið að vera mikil vinna flest kvöld og helgar síðan í sumarfríi, en nú er skjalið loksins komið til prentsmiðjunnar. Guði séu þakkir og lof. Það stendur reyndar ennþá uppá Alþjóðaskrifstofuna varðandi samþykki, og meðal annars þess vegna leyfðum við okkur að taka tíma til að prófa okkur áfram með ýmsa kosti. Ég lærði alla vega mikið á þessu.

Ég hlakka til þegar FrameMaker 8 verður orðinn stabill. Hann er með Unicode support. Ég var meðfram þessu verkefni að betatesta FM8 í 2-3 vikur í sumar. Það var virkilega gaman, en einhver galli hjá Adobe gerði það að verkum að ég (eins og reyndar fleiri) gat ekki notað prufuútgáfuna, sem hægt er að hlaða niður af vef þeirra. Þannig tapaði ég nokkurra daga vinnu, þar sem ég þurfti að endurvinna í FM7.2 mikið af því sem ég var kominn með þar.

En nú er þetta sem sagt búið - ég segi: með Guðs hjálp, því að allt var þetta lagt í hendur hans og honum treyst.

Næsta útgáfutegund ætti að taka skamman tíma.

fimmtudagur, september 13, 2007

Blaðið kom í dag!

Það er merkilegt með Blaðið. Dreifingu þess hefur heldur farið aftur en hitt, að því er virðist, síðan Moggamenn keyptu það. Nú fáum við það með helgarmogganum, en helst aldrei aðra daga. Maður nennir ekki lengur að hringja út af því að blaðið komi ekki. Það virðist þurfa að hringja á hverjum degi. Það er einfaldlega of mikið. Það sem ég sakna helst við að fá ekki blaðið eru skopteikningarnar, sem eru oft mjög góðar. Ætli mörgum fleirum sé farið eins og mér að nenna ekki lengur að hringja og kvarta undan Blaðleysinu?

þriðjudagur, júní 26, 2007

Júbílerað á Akureyri

40 ára MA stúdentar héldu upp á afmælið með kostum og kynjum á Akureyri 15. - 17. júní sl. Hátíðin heppnaðist mun betur en ég átti von á og endaði ég á að taka þátt í rándýrri hátíðardagskrá júbilanta að kvöldi 16. júní, sem ég hafði ekki ætlað á enda stóð til að vera í fjölskylduboði.

Nokkrir misvel heppnaðir undirbúningsfundir voru haldnir seinni part vetrar og í vor, en aðal undirbúningurinn fór í gang eiginlega eftir síðasta fund. Þar bauðst ég til að taka að mér að gera söngtextablað. Það var mjög gaman því að það gaf mér tækifæri til að prófa mig áfram með ýmis forrit, sem ég hafði ekki prófað að marki áður, svo sem KWord (KDE) í Linux og InDesign í Windoze, sem var það sem varð ofan á í þessu tilfelli, einkum af því að ég fékk betri upplausn í myndir þar og einnig vegna þess að fontarnir, sem ég hafði aðgang að þar, hentuðu betur. Einnig er gaman að rifja upp þessa texta og lög, sem við sungum fullum hálsi fyrir svo mörgum árum síðan.

Ýmsir í "undirbúningsnefnd" forfölluðust af ýmsum ástæðum, og þá tóku einfaldlega aðrir við. Svona á það að vera. Sísa fékk Egil Hreins til að koma með syni sínum, Högna, og spila jazz á hátíðinni 16. Einnig spilaði hann fyrir söng á Söngsal sama dag og hefur aldrei verið betri í því hlutverki. Gaman var einnig að góðir bekkjarfélagar, sem ekki höfðu náð að ljúka prófi með okkur, ýmist vegna of hás rakastigs á ferlinum eða vegna misjafnra skoðana á gildi mætingar í tíma, voru boðaðir og komu.

15. júní

En hátíðin byrjaði sem sé í setustofu MA (já, þeirri gömlu, góðu, þar sem Siguður H. Guðmundsson, síðar prestur í Hafnarfirði, lék djöfulinn í Gullna Hliðinu af slíkri innlifun að jörð öll tók að skjálfa (jarðskjálftinn 1963), og það á réttum stað í textanum!).

Fyrst var spjallað og sungið lítillega, síðan minntist séra Jakob Hjálmarsson látinna skólasystkina, en sjö af 105 manna hópi stúdenta, sem útskrifuðust frá MA 1967 eru nú látnir, þar af tveir síðast liðinn vetur.

Þá flutti Svanur Kristjánsson annál eða minnigabrot og kom víða við. M. a. bar hann saman skólaandann í MA og MR, þar sem hann hafði verið um hríð og lagði áherslu á hversu mikla áherslu skólayfirvöld MA undir Þórarni heitnum Skólameistara (það verður eiginlega að skrifa stóran staf í orðinu skólameistari í hans tilfelli - innsk. mitt) lögðu á að sýna nemendum virðingu, öfugt við MR, þar sem menn væru frekar brotnir niður með niðrandi ummælum kennara o.fl.

Síðan var sungið áfram og einhverjir fleiri tóku til máls. Svo var farið niður í mötuneyti og snæddur léttur kvöldverður, sem hjá einhverjum blandaðist óvart hlaðborði 50 ára júbilanta! Eitthvað var sungið og spjallað áfram eftir matinn, þar til menn fóru til kojs.

16. júní

Söngsalur hafði verið boðaður kl. 13:00 þann 16., en hann tafðist nokkuð, þar sem Valdimar Gunnarsson kennari og samstúdent byrjaði á því að leiða júbílanta um nýja og gamla húsnæði skólans og sýna þeim helstu breytingar, og einnig notuðu menn tækifærið til að rifja upp gamlar minningar, góðar og slæmar, úr gömlu kennslustofunum. En síðan hófst söngsalur og spöruðu júbílantar ekki raddböndin fremur en forðum daga. Að lokum var gengið út í Lystigarð þar sem Elín kynnti okkur sögu garðsins og það starf sem þar á sér stað.

Um kvöldið nutu menn frábærrar dagskrár í "tunnuni" og ágætra veitinga, en aðalhátíðin er alltaf á höndum 25 ára stúdenta. Þeir feðgar Egill og Högni jössuðu feitt. Glæsilegt. Meira að segja skólasöngurinn eftir Pál Ísólfsson kom út sem klassa jazz-stykki. Frábært framlag af hálfu fertugra.

17. júní

Þann 17. var síðan mætt í "tunnuna" aftur þar sem brautskráðir voru 135 nýstúdentar eftir ræðuhöld fulltrúa hinna ýmsu júbílantahópa. Þetta var fyrsti hópurinn sem núverandi skólameistari hefur fylgt frá upphafi, en hann tók við störfum fyrir 4 árum síðan.

Egill afhenti bókagjöf sameiginlega til bókasafns skólans og Amtsbókasafnsins, valdar fræðibækur föður hans Dr. Hreins Benediktssonar um 1500 að tölu, ef ég man rétt.

Í eftirmiðdag bauð skólinn síðan upp á kaffi, en við Ásta tókum okkur upp og lögðum af stað til Skagastrandar -- reyndar með viðkomu í Brynju, svona til að rifja upp ísinn, sem eins og einhver hafði sagt, var allmikið vatnsblandaður. Góður í miklum hita, en ég vil ekta rjómaís (EmmEss). Þegar við vorum komin yfir Moldhaugnahálsinn ákváðum við að snúa við og fara veginn út á Árskógsströnd/Dalvík og fara Lágheiðina og Þverárfjall til Skagastrandar. Dalalæðan var að byrja að sigla inn fjörðinn og ókum við inn í hana rétt áður en við komum í göngin í Ólafsfjarðarmúla.

Góð og vel heppnuð hátíð. Takk fyrir, undirbúningshópur! Ég hlakka til fimmtugsafmælisins.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Alvöru lögreglustörf!

Við vorum með næturgesti síðustu daga. Í gærkvöldi fórum við út að ganga með þeim og gengum göngubrúna yfir Grafarvoginn og yfir í Bryggjuhverfið. Sem við erum að ganga niður brekkuna niður að göngustígnum meðfram vognum, rennir lögreglubíll inn að göngustígnum og út stíga tveir stæðilegir. Við förum að velta því fyrir okkur hvaða erindi þeir geti átt þarna. Hafði komið tilkynning um slys eða óhapp, sem þeir þurftu að kanna? Voru þeir að gá að veggjakroti undir Gullinbrú?

Við höldum okkar leið og þeir alltaf nokkuð á undan. Við komum auga á tvo menn í grjótinu sunnan og vestan við brúna, föður og unglingsson, að því er virtist, og var faðirinn með litla stöng og virtist vera að dorga. Hann hafði augljóslega ekki orðið var, alla vega voru engin ummerki um afla, og heldur ekki um beitu. Gott veður og yndislegt fyrir feðga að sitja við straumhart útfallið og bleyta færi.

Okkur til mikillar furðu gengu lögreglumennirnir beint að manninum með veiðistöngina litlu og tóku tal við hann og virtust vera að benda honum á að koma með sér. Allt í einu kviknaði smávegis á perunni hjá mér og ég kallaði til lögreglumannanna:
"Hvað, er bannað að veiða hérna?"

"Já," segir sá sem fyrir þeim virtist fara.

"Bíddu við, þetta er sjór en ekki á," segi ég.

"Það er bannað að veiða hérna og ég er ekki tilbúinn að ræða það frekar!" kallar fyrirliðinn og hleypur í augljósa vörn. Bætir síðan við: "Ég er með pappíra upp á það hér í vasanum."

Það var augljóst að lögreglumennirnir voru ekki hreyknir af verkefninu, sem þeim hafði verið falið. Þeim leið illa.

Ég spurði samt áfram: "Þetta er Grafarvogurinn, ekki einhver Laxá, er það ekki?"

"Það gengur lax hér upp í voginn og það er bannað að veiða þar sem lax gengur upp!" segir hann og er að verða reiður.

"Ég er nú bara að spyrja í forvitni," segi ég og átti allt eins von á að verða áminntur fyrir að trufla lögreglu við skyldustörf, því að þegar menn eru komnir í vörn, gera þeir oft óþarfa hluti.

Við ræddum þetta áfram á göngu okkar og furðuðum okkur á slíkum lögum, sem banna almenningi að dýfa færi við ströndina. Hvers konar veiðifasismi er þetta eiginlega? Hvar stendur í Biblíunni að ekki megi veiða sér til matar -- nú eða skemmtunar? Eru ekki einmitt fiskar sjávarins gefnir okkur til matar samkvæmt þeirri bók? Erum við ekki kristin þjóð? Eru manna lög ofar lögum Guðs? Það vill oft koma í ljós, þegar við mennirnir setjum lög í andstöðu við lög Guðs að þau verða erfið í framkvæmd og ávallt talin óréttlát af flestum. Samt beygjum við okkur undir þau -- flest.

Svo er það sem snýr að lögregluþjónunum sjálfum. Hvernig eiga þeir að geta verið stoltir og keikir við löggæslu, þegar þeir þurfa að framfylgja annari eins lögleysu? Er ekki nóg annað að gera en að tína upp menn sem eru að reyna að ná í einn og einn fisk? Á sama tíma eru tugir eða hundruð ökumanna að setja aðra ökumenn og vegfarendur í hættu með umferðarlagabrotum eins og að aka yfir á rauðu ljósi, hanga í stuðaranum á næsta bíl fyrir framan til að "passa plássið sitt" o.s.frv. og lögreglan gerir EKKERT í þeim málum. Aðeins einstöku sinnum er hún send út til að sitja fyrir mönnum og mæla ökuhraða og sekta þá sem fara yfir ákveðin fráviksmörk.

Hefur lögreglan virkilega ekki eitthvað meira áríðandi að eyða peningum skattborgara í en að tína upp menn með færi niður við sjó?

föstudagur, maí 25, 2007

Samgönguráðstefna fyrir almenning

Það er svolítið merkilegt, finnst mér, með allar þessar ráðstefnur og fundi, sem haldnir eru af opinberum aðilum og auglýstir að séu opnir almenningi. Hvenær dagsins ætli þeir séu haldnir?

Mig langaði þessi ósköp á einn slíkan, sem auglýstur var af nokkrum af samgöngustofnunum ríkisins, s.s. flugmálastjórn, vegamálastjóra o.fl. Ókeypis og öllum opinn. Þar átti m. a. að fjalla um fjármögnun samgöngumannvirkja með vegagjöldum (náttúrulega var það Norðmaður, sem var aðal fyrirlesarinn).

Tímasetning: Kl. 15-17 í miðri viku! Er þá ekki þessi sami almenningur í vinnu?

Þeir hefðu kannski átt að auglýsa þetta fyrir vaktavinnufólk frekar. En þá er vandamálið að auglýsingin er birt samdægurs að morgni dags og a.m.k. þriðjungur vaktavinnufólks kominn í svefn.

Er hægt að hugsa sér meiri málamyndagerning en þetta?

Vonandi breytir Stjáni Möller þessu fljótlega.

mánudagur, apríl 30, 2007

Nýir strengir

Strengirnir sem komu með Wishbass bassanum voru ódýrasta gerð af Dean Markley. Eins og ég sagði í fyrri pistli, dálítill píanóhlómur í þeim. Líklega Super Rounds eða Blue Steel. Hugsanlega eitthvað eldra sem þeir eru hættir að framleiða núna? Ef það er tilfellið þá hef ég alla vega ekki fundið þá tegund á netinu.




Það gekk hálfilla að fá hentuga strengi í bassann. Bandalausum bassa henta best "flatir" (flat wound) strengir, eða eitthvað nærri því. Þetta fannst hvergi lengi vel nema fyrir 4-strengja.

Loks fann ég hjá Tónastöðinni sett af D'Addario Half Round Nickel á kr. 3080. Gott verð. Strengirnir voru frekar mattir, bæði hvað útlit og snertingu varðar (stamir), en einnig í tóni. Smám saman urðu þeir þægilegri að spila á og sæmilega hálir, en ekki fyrr en ég var búinn að úða þá með silikon úða.

Ég var búinn að skoða mikið um bassastrengi á netinu og þrennt vakti áhuga minn, Rotosound, Wyres og LaBella.

Rotosound eru með góðan vef, þar sem eru hljóðdæmi af mismunandi strengjum. Þar sýnist mér að Rotosound 77 henti mér best.

Wyres fundust mér einna mest spennandi vegna umsagna og vegna þess að þeir bjóða upp á teflonhúðaða strengi, sem hljóma eins og óhúðaðir. Sem sé, húðin er extra þunn. Ég hafði samband við þá en þeir töldu sig ekki enn hafa 5-strengja sett sem hentaði mér, þar sem Wishbass er alltaf með þræðingu gegnum búkinn. Þess vegna mega vindingarnir ekki vera of stífir frá kúlu upp að brú, annars er hætta á að þeir slitni fljótt. Þeir sögðust hins vegar vera með þetta á plani hjá sér og væri þeirra að vænta á næstu vikum eða mánuðum.

LaBella höfðu svipuð svör: Deep Talkin' strengirnir væru of þétt undnir fyrir búkþræðingu. Þeir sögðu að ég þyrfti sérhannaða strengi. Þeir hefðu framleitt í tvo eða þrjá áratugi strengi Deep Talkin' Quarter Rounds, sem væru lausundnir og myndu henta. Þeir hefðu hætt framleiðslu á þeim fyrir nokkrum árum, en vegna eftirspurnar væru þeir að fara að framleiða þá aftur. Þeir báðu um nákvæm mál frá kúlu í brú í háls í skrúfu, og ég sendi þeim málin og myndir af bassanum. Þeir bentu mér á að tala við Skúla Sverrisson í New York, sem er einn þeirra sem koma fram á vef þeirra sem meðmælendur. Ég vildi nú samt ekki vera að ónáða svo upptekinn mann, sem ég þekki ekki neitt.

Svo kom að því að þeir framleiddu þessa strengi, en þá höfðu þeir aðeins tíma til að framleiða tvö sett, og þyrfti ég helst að taka bæði. Fullt verð pr. sett væri um USD 100, en þeir buðu mér þá á mun lægra verði plús flutningsgjald.

Og svo komu strengirnir. B-strengurinn var reyndar aðeins of langur, og hafði ég samband við LaBella út af því. Stakk upp á að víxla milli pinna, og báðu þeir mig að skoða hvort það leysti ekki vandann. Svo að ég gerði það.

Ég varð engan veginn fyrir vonbrigðum með sándið. Strax í mínum litla VOX T-60 hljómuðu þeir dýpri, en samt hæfilega bjartir (bjarari en D'Addario Half Round Nickel Wound) og kröftugri en fyrri strengir. Svo prófaði ég þá í GK magnaranum (200/300w) með 2 stk. 4x10 boxum. Mega flott sánd. Það er fínt að keyra þá á öllum stillingum flötum. Ég á síðan eftir að prófa mig áfram til þess að finna út hvaða stillingar henta best mínum kröfum.

Strengirnir eru líka fremur sléttir (næstum flatir) og þægilegir að renna fingrum eftir. Mæli með þeim.

Ég hlakka hins vegar til þegar Wyres kemur með hentuga strengi. Það væri gaman að prófa þá.