mánudagur, apríl 30, 2007

Nýir strengir

Strengirnir sem komu með Wishbass bassanum voru ódýrasta gerð af Dean Markley. Eins og ég sagði í fyrri pistli, dálítill píanóhlómur í þeim. Líklega Super Rounds eða Blue Steel. Hugsanlega eitthvað eldra sem þeir eru hættir að framleiða núna? Ef það er tilfellið þá hef ég alla vega ekki fundið þá tegund á netinu.




Það gekk hálfilla að fá hentuga strengi í bassann. Bandalausum bassa henta best "flatir" (flat wound) strengir, eða eitthvað nærri því. Þetta fannst hvergi lengi vel nema fyrir 4-strengja.

Loks fann ég hjá Tónastöðinni sett af D'Addario Half Round Nickel á kr. 3080. Gott verð. Strengirnir voru frekar mattir, bæði hvað útlit og snertingu varðar (stamir), en einnig í tóni. Smám saman urðu þeir þægilegri að spila á og sæmilega hálir, en ekki fyrr en ég var búinn að úða þá með silikon úða.

Ég var búinn að skoða mikið um bassastrengi á netinu og þrennt vakti áhuga minn, Rotosound, Wyres og LaBella.

Rotosound eru með góðan vef, þar sem eru hljóðdæmi af mismunandi strengjum. Þar sýnist mér að Rotosound 77 henti mér best.

Wyres fundust mér einna mest spennandi vegna umsagna og vegna þess að þeir bjóða upp á teflonhúðaða strengi, sem hljóma eins og óhúðaðir. Sem sé, húðin er extra þunn. Ég hafði samband við þá en þeir töldu sig ekki enn hafa 5-strengja sett sem hentaði mér, þar sem Wishbass er alltaf með þræðingu gegnum búkinn. Þess vegna mega vindingarnir ekki vera of stífir frá kúlu upp að brú, annars er hætta á að þeir slitni fljótt. Þeir sögðust hins vegar vera með þetta á plani hjá sér og væri þeirra að vænta á næstu vikum eða mánuðum.

LaBella höfðu svipuð svör: Deep Talkin' strengirnir væru of þétt undnir fyrir búkþræðingu. Þeir sögðu að ég þyrfti sérhannaða strengi. Þeir hefðu framleitt í tvo eða þrjá áratugi strengi Deep Talkin' Quarter Rounds, sem væru lausundnir og myndu henta. Þeir hefðu hætt framleiðslu á þeim fyrir nokkrum árum, en vegna eftirspurnar væru þeir að fara að framleiða þá aftur. Þeir báðu um nákvæm mál frá kúlu í brú í háls í skrúfu, og ég sendi þeim málin og myndir af bassanum. Þeir bentu mér á að tala við Skúla Sverrisson í New York, sem er einn þeirra sem koma fram á vef þeirra sem meðmælendur. Ég vildi nú samt ekki vera að ónáða svo upptekinn mann, sem ég þekki ekki neitt.

Svo kom að því að þeir framleiddu þessa strengi, en þá höfðu þeir aðeins tíma til að framleiða tvö sett, og þyrfti ég helst að taka bæði. Fullt verð pr. sett væri um USD 100, en þeir buðu mér þá á mun lægra verði plús flutningsgjald.

Og svo komu strengirnir. B-strengurinn var reyndar aðeins of langur, og hafði ég samband við LaBella út af því. Stakk upp á að víxla milli pinna, og báðu þeir mig að skoða hvort það leysti ekki vandann. Svo að ég gerði það.

Ég varð engan veginn fyrir vonbrigðum með sándið. Strax í mínum litla VOX T-60 hljómuðu þeir dýpri, en samt hæfilega bjartir (bjarari en D'Addario Half Round Nickel Wound) og kröftugri en fyrri strengir. Svo prófaði ég þá í GK magnaranum (200/300w) með 2 stk. 4x10 boxum. Mega flott sánd. Það er fínt að keyra þá á öllum stillingum flötum. Ég á síðan eftir að prófa mig áfram til þess að finna út hvaða stillingar henta best mínum kröfum.

Strengirnir eru líka fremur sléttir (næstum flatir) og þægilegir að renna fingrum eftir. Mæli með þeim.

Ég hlakka hins vegar til þegar Wyres kemur með hentuga strengi. Það væri gaman að prófa þá.