Við vorum með næturgesti síðustu daga. Í gærkvöldi fórum við út að ganga með þeim og gengum göngubrúna yfir Grafarvoginn og yfir í Bryggjuhverfið. Sem við erum að ganga niður brekkuna niður að göngustígnum meðfram vognum, rennir lögreglubíll inn að göngustígnum og út stíga tveir stæðilegir. Við förum að velta því fyrir okkur hvaða erindi þeir geti átt þarna. Hafði komið tilkynning um slys eða óhapp, sem þeir þurftu að kanna? Voru þeir að gá að veggjakroti undir Gullinbrú?
Við höldum okkar leið og þeir alltaf nokkuð á undan. Við komum auga á tvo menn í grjótinu sunnan og vestan við brúna, föður og unglingsson, að því er virtist, og var faðirinn með litla stöng og virtist vera að dorga. Hann hafði augljóslega ekki orðið var, alla vega voru engin ummerki um afla, og heldur ekki um beitu. Gott veður og yndislegt fyrir feðga að sitja við straumhart útfallið og bleyta færi.
Okkur til mikillar furðu gengu lögreglumennirnir beint að manninum með veiðistöngina litlu og tóku tal við hann og virtust vera að benda honum á að koma með sér. Allt í einu kviknaði smávegis á perunni hjá mér og ég kallaði til lögreglumannanna:
"Hvað, er bannað að veiða hérna?"
"Já," segir sá sem fyrir þeim virtist fara.
"Bíddu við, þetta er sjór en ekki á," segi ég.
"Það er bannað að veiða hérna og ég er ekki tilbúinn að ræða það frekar!" kallar fyrirliðinn og hleypur í augljósa vörn. Bætir síðan við: "Ég er með pappíra upp á það hér í vasanum."
Það var augljóst að lögreglumennirnir voru ekki hreyknir af verkefninu, sem þeim hafði verið falið. Þeim leið illa.
Ég spurði samt áfram: "Þetta er Grafarvogurinn, ekki einhver Laxá, er það ekki?"
"Það gengur lax hér upp í voginn og það er bannað að veiða þar sem lax gengur upp!" segir hann og er að verða reiður.
"Ég er nú bara að spyrja í forvitni," segi ég og átti allt eins von á að verða áminntur fyrir að trufla lögreglu við skyldustörf, því að þegar menn eru komnir í vörn, gera þeir oft óþarfa hluti.
Við ræddum þetta áfram á göngu okkar og furðuðum okkur á slíkum lögum, sem banna almenningi að dýfa færi við ströndina. Hvers konar veiðifasismi er þetta eiginlega? Hvar stendur í Biblíunni að ekki megi veiða sér til matar -- nú eða skemmtunar? Eru ekki einmitt fiskar sjávarins gefnir okkur til matar samkvæmt þeirri bók? Erum við ekki kristin þjóð? Eru manna lög ofar lögum Guðs? Það vill oft koma í ljós, þegar við mennirnir setjum lög í andstöðu við lög Guðs að þau verða erfið í framkvæmd og ávallt talin óréttlát af flestum. Samt beygjum við okkur undir þau -- flest.
Svo er það sem snýr að lögregluþjónunum sjálfum. Hvernig eiga þeir að geta verið stoltir og keikir við löggæslu, þegar þeir þurfa að framfylgja annari eins lögleysu? Er ekki nóg annað að gera en að tína upp menn sem eru að reyna að ná í einn og einn fisk? Á sama tíma eru tugir eða hundruð ökumanna að setja aðra ökumenn og vegfarendur í hættu með umferðarlagabrotum eins og að aka yfir á rauðu ljósi, hanga í stuðaranum á næsta bíl fyrir framan til að "passa plássið sitt" o.s.frv. og lögreglan gerir EKKERT í þeim málum. Aðeins einstöku sinnum er hún send út til að sitja fyrir mönnum og mæla ökuhraða og sekta þá sem fara yfir ákveðin fráviksmörk.
Hefur lögreglan virkilega ekki eitthvað meira áríðandi að eyða peningum skattborgara í en að tína upp menn með færi niður við sjó?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli