40 ára MA stúdentar héldu upp á afmælið með kostum og kynjum á Akureyri 15. - 17. júní sl. Hátíðin heppnaðist mun betur en ég átti von á og endaði ég á að taka þátt í rándýrri hátíðardagskrá júbilanta að kvöldi 16. júní, sem ég hafði ekki ætlað á enda stóð til að vera í fjölskylduboði.
Nokkrir misvel heppnaðir undirbúningsfundir voru haldnir seinni part vetrar og í vor, en aðal undirbúningurinn fór í gang eiginlega eftir síðasta fund. Þar bauðst ég til að taka að mér að gera söngtextablað. Það var mjög gaman því að það gaf mér tækifæri til að prófa mig áfram með ýmis forrit, sem ég hafði ekki prófað að marki áður, svo sem KWord (KDE) í Linux og InDesign í Windoze, sem var það sem varð ofan á í þessu tilfelli, einkum af því að ég fékk betri upplausn í myndir þar og einnig vegna þess að fontarnir, sem ég hafði aðgang að þar, hentuðu betur. Einnig er gaman að rifja upp þessa texta og lög, sem við sungum fullum hálsi fyrir svo mörgum árum síðan.
Ýmsir í "undirbúningsnefnd" forfölluðust af ýmsum ástæðum, og þá tóku einfaldlega aðrir við. Svona á það að vera. Sísa fékk Egil Hreins til að koma með syni sínum, Högna, og spila jazz á hátíðinni 16. Einnig spilaði hann fyrir söng á Söngsal sama dag og hefur aldrei verið betri í því hlutverki. Gaman var einnig að góðir bekkjarfélagar, sem ekki höfðu náð að ljúka prófi með okkur, ýmist vegna of hás rakastigs á ferlinum eða vegna misjafnra skoðana á gildi mætingar í tíma, voru boðaðir og komu.
15. júní
En hátíðin byrjaði sem sé í setustofu MA (já, þeirri gömlu, góðu, þar sem Siguður H. Guðmundsson, síðar prestur í Hafnarfirði, lék djöfulinn í Gullna Hliðinu af slíkri innlifun að jörð öll tók að skjálfa (jarðskjálftinn 1963), og það á réttum stað í textanum!).
Fyrst var spjallað og sungið lítillega, síðan minntist séra Jakob Hjálmarsson látinna skólasystkina, en sjö af 105 manna hópi stúdenta, sem útskrifuðust frá MA 1967 eru nú látnir, þar af tveir síðast liðinn vetur.
Þá flutti Svanur Kristjánsson annál eða minnigabrot og kom víða við. M. a. bar hann saman skólaandann í MA og MR, þar sem hann hafði verið um hríð og lagði áherslu á hversu mikla áherslu skólayfirvöld MA undir Þórarni heitnum Skólameistara (það verður eiginlega að skrifa stóran staf í orðinu skólameistari í hans tilfelli - innsk. mitt) lögðu á að sýna nemendum virðingu, öfugt við MR, þar sem menn væru frekar brotnir niður með niðrandi ummælum kennara o.fl.
Síðan var sungið áfram og einhverjir fleiri tóku til máls. Svo var farið niður í mötuneyti og snæddur léttur kvöldverður, sem hjá einhverjum blandaðist óvart hlaðborði 50 ára júbilanta! Eitthvað var sungið og spjallað áfram eftir matinn, þar til menn fóru til kojs.
16. júní
Söngsalur hafði verið boðaður kl. 13:00 þann 16., en hann tafðist nokkuð, þar sem Valdimar Gunnarsson kennari og samstúdent byrjaði á því að leiða júbílanta um nýja og gamla húsnæði skólans og sýna þeim helstu breytingar, og einnig notuðu menn tækifærið til að rifja upp gamlar minningar, góðar og slæmar, úr gömlu kennslustofunum. En síðan hófst söngsalur og spöruðu júbílantar ekki raddböndin fremur en forðum daga. Að lokum var gengið út í Lystigarð þar sem Elín kynnti okkur sögu garðsins og það starf sem þar á sér stað.
Um kvöldið nutu menn frábærrar dagskrár í "tunnuni" og ágætra veitinga, en aðalhátíðin er alltaf á höndum 25 ára stúdenta. Þeir feðgar Egill og Högni jössuðu feitt. Glæsilegt. Meira að segja skólasöngurinn eftir Pál Ísólfsson kom út sem klassa jazz-stykki. Frábært framlag af hálfu fertugra.
17. júní
Þann 17. var síðan mætt í "tunnuna" aftur þar sem brautskráðir voru 135 nýstúdentar eftir ræðuhöld fulltrúa hinna ýmsu júbílantahópa. Þetta var fyrsti hópurinn sem núverandi skólameistari hefur fylgt frá upphafi, en hann tók við störfum fyrir 4 árum síðan.
Egill afhenti bókagjöf sameiginlega til bókasafns skólans og Amtsbókasafnsins, valdar fræðibækur föður hans Dr. Hreins Benediktssonar um 1500 að tölu, ef ég man rétt.
Í eftirmiðdag bauð skólinn síðan upp á kaffi, en við Ásta tókum okkur upp og lögðum af stað til Skagastrandar -- reyndar með viðkomu í Brynju, svona til að rifja upp ísinn, sem eins og einhver hafði sagt, var allmikið vatnsblandaður. Góður í miklum hita, en ég vil ekta rjómaís (EmmEss). Þegar við vorum komin yfir Moldhaugnahálsinn ákváðum við að snúa við og fara veginn út á Árskógsströnd/Dalvík og fara Lágheiðina og Þverárfjall til Skagastrandar. Dalalæðan var að byrja að sigla inn fjörðinn og ókum við inn í hana rétt áður en við komum í göngin í Ólafsfjarðarmúla.
Góð og vel heppnuð hátíð. Takk fyrir, undirbúningshópur! Ég hlakka til fimmtugsafmælisins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli