Þessi athugasemd mín við blogggrein Björgvins Guðmundssonar er ekki komin inn eftir hálfan dag, þannig að ég birti hana hér:
Sæll Björgvin.
Þú hefðir átt að vera á fundinum. Þetta var ekki tímasprengja. Þetta var sprengja og hún sprakk strax.
Finnst þér virkilega að Ingibjörg hafi staðið sig vel? Ég studdi hana til formennsku í Samfylkingunni, en mér finnst hún hafa brugðist, annað hvort vegna linkindar við Geir eða vegna þess að hún sjálf áttaði sig ekki á alvarleika stöðunnar. Hún er í þeirri stöðu sem formaður að henni er trúað fyrir að gæta hagsmuna okkar, bæði Samfylkingarmanna almennt, kjósenda og landsins alls.
Ég varð þeirrar skoðunar -- reyndar nokkuð seint, finnst mér núna -- eða í lok nóvember sl. að eftirfarandi ættu að segja af sér:
- Seðlabankastjórar og bankaráð Seðlabankans;
- Forstöðumaður FME og jafnvel stjórn FME, þó svo að Jón Sig hafi setið stutt og sé varla um að kenna;
- Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra (vegna þess að hún er formaður Samfylkingarinnar) og Viðskiptaráðherra.
Sumir þessara áttu að segja af sér vegna þess að þeir áttu sök á málum beinlínis, en aðrir vegna þess að þeir höfðu sofið á verðinum. Miðað við það sem almenningur veit í dag, þá er það afskaplega dapurlegt að þeir sem höfðu miklu betri aðgang að öllum upplýsingum og hafði verið trúað fyrir hinum hæstu stöðum, skyldu ekki vera vakandi.
Það þarf líka að skapa traust innanlands og utan.
Uppskeran er heldur rýr miðað við þetta. Þú veist sjálfur hverjir hafa sagt af sér og hvejir hafa verið látnir fara og hverjum er verið að reyna að koma frá. Ingibjörg Sólrún á að hafa vit á að segja af sér eða alla vega að tilkynna að hún verði ekki í framboði til formennsku, eða taki sæti á næsta þingi.
Ég er að sjálfsögðu sammála þér að það sé fyrst og fremst Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. (hinn gamli alla vega), sem bera pólitíska ábyrgð á málum, en hinir bera líka ábyrgð, sem sofna á verðinum.
Sprengjan er sprungin. Jón Baldvin var með lausnina fyrir 14 árum síðan, sem hefði komið í veg fyrir þetta alvarlega ástand. Þjóðin hafnaði honum þá, af því að hún kaus að trúa rógsherferð Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna (og fleiri, jafnvel Samfylkingarmanna).
Jón Baldvin er sá eini reynslubolti í pólitík, sem ég þekki, sem er algerlega frír við að hafa stungist af þessum svfnþorni, sem þjóðin virðist hafa verið stungin af. Hann var líka með lausnina: Inngöngu í ESB.
Ég segi: Jón Baldvin sem formann Samfylkingarinnar. Hann gerir sér grein fyrir stöðunni. Hann mun ekki láta menn komast upp með að sluxa við björgunarstörfin. Hann hefur reynsluna. Hann er eini kosturinn sem ég sé í stöðunni. Áður en hann kastaði þessari sprengju, var ég alvarlega að íhuga Framsóknarflokkinn, hvort endurnýjunin þar væri nægileg til þess að hann gæti komið til greina fyrir vonsvikinn krata.
Með vinsemd.
Böðvar Björgvinsson
krati síðan 1978.
Við þetta má bæta að Jón Baldvin setur stundum fram hluti til þess að fá viðbrögð við þeim eða að koma einhverju öðru af stað, þannig að ekki er svo sem víst að hann meini neitt með því í rauninni að hann ætli í framboð. Hann gæti hins vegar miklu frekar verið að knýja Ingibjörgu Sólrúnu til svara.