mánudagur, mars 30, 2009

Hvað er jafnaðarstefnan?

Ég var spurður að því um daginn hvað jafnaðarstefnan væri í mínum huga. Ég svaraði eitthvað á þá leið að hún væri um það að huga að þeim sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu með tekjujöfnun og fleiru sem ég tíndi til.

Svo fór ég að hugsa málið í raun. Ég var ekki ánægður með svarið sem ég hafði gefið. Og allt í einu kom upp í huga mér það sem mér finnst vera rétta svarið.

Jafnaðarstefnan er kærleiki. Og vel að merkja: kærleiki til manna en ekki hugmynda. Því að kærleikurinn vekur samúð með þeim sem líður illa og með þeim sem misgera öðrum.

En jafnaðarstefnan er ekki kærleikur til einhverra stefnumála. Stefnumálin rúmast innan jafnaðarstefnunnar aðeins í þeim mæli sem þau mótast af kærleikanum til mannanna. Þannig má segja að ýmiss konar "jafnréttismál" eigi illa heima innan jafnaðarstefnunnar, ef þau einkennast af offorsi og yfirgangi gagnvart meðbræðrum okkar. Þannig finnst mér krafa samtaka eins og siðmenntar og annarra slíkra, sem krefjast t. d. vanhelgunar helgidaga, og að meirihlutinn láti alltaf í minni pokann fyrir fámennum minnihlutahópum, sem gala og góla og hafa hátt, eiga takmarkaðan rétt til að telja sig heyra jafnaðarstefnunni til.

Ég hef vissa samúð með þrýstihópum á borð við femínistum, þar sem berið er að reyna að vinna gegn þeirri bábilju að konur séu körlum óæðri, skoðun, sem því miður virðist allt of ríkjandi enn. Ég er hins vegar ekki sammála öllum þeirra hugmyndum um úrlausnir. Ég held að við verðum fyrst og fremst að vinna að því að styrkja konur til bættrar sjálfsímyndar. Ég tel að liður í því hljóti að vera að berjast gegn þeirri staðalímynd að stúlkur þurfi að líta svona og svona út, nota þetta og þetta til þess að bæta útlitið, o.s.frv.

Sem betur fer hefur jafnaðarstefnan náð þeim heildareinkennum sem fara mjög hönd í hönd við siðaboðskap kristindómsins um að elska náungann og beita þannig ýmsum jöfnunartækjum, svo sem skattkerfi og bótakerfi, til þess að koma í veg fyrir það böl sem hlýst af fátækt. Sagan sýnir okkur svo ekki verður um villst að án jafnaðarstefnunnar eða einhvers í líkingu hennar verður alltaf of mikil misskipting auðs og lífsgæða. Í þessu efni má benda á þjóðskipulag frumgyðnigdóms eins og sjá má í hluta af lögmáli Gyðinga (2.-5. Mósebækur), þar sem sérstök áhersla er lögð á að hlú að þeim sem höllum fæti stóðu á þeim tíma, ekkjum, munaðarleysingjum og útlendingum. Þessi aðstoð fólst einkum í því að gera þeim kleyft að safna af jarðávexti Gyðinga, þeirra 11 kynkvisla, sem jarðnæði höfðu (12. kynkvíslin átti ekki jarðir og áttu hinar 11 að gjalda tíund þeim til viðurværis).

Hvert er viðmið kærleikans? Jú, það er það sem felst í hinum gullvægu orðum Biblíunnar: Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig. Ef jafnaðarstefnan hefur þetta að leiðarljósi, mun henni farnast vel.

föstudagur, mars 27, 2009

Horfin frétt í Mogga

Ég fékk þetta Newsfeed frá Mbl.is á iGoogl síðuna mína:
Skoði hvort Landsvirkjun hafi keypt sér skipulagið
Taka þarf efnislega afstöðu til þess í samgönguráðuneytinu hvort samkomulag Landsvirkjunar við Flóahrepp, um gerð aðalskipulags vegna Urriðafossvirkjunar, standist ákvæði skipulags- og byggingarlaga.

Eins og sést á þessum link, þá virðist búið að taka fréttina út, en textinn sem fylgdi var þessi:

Taka þarf efnislega afstöðu til þess í samgönguráðuneytinu hvort samkomulag Landsvirkjunar við Flóahrepp, um gerð aðalskipulags vegna Urriðafossvirkjunar, standist ákvæði skipulags- og byggingarlaga.

Um hvað var þessi frétt í rauninni? Er á ferðinni rökstuddur grunur um að Landsvirkjun hafi með ólögmætum hætti aflað sér stuðnings við áform um orkuver í Þjórsárvirkjunum eða var þarna á ferðinni eitthvað grín sem óvart datt inn á síðuna?

mánudagur, mars 23, 2009

Hið merkilega minnisblað Seðlabankans

Vísir og Mbl.is birta frétt um minnisblaðið sem Davíð Oddsson minntist á i Kastljósviðtali fyrir nokkrum vikum síðan. Mbl.is gerir "betur" en Visir og vísar á PDF skjal af upprunaskjalinu, en fréttin er hér:
Frétt Moggans um minnisblað Seðlabankans frá í feb. 2008
Skjalið sjálft er hér: Minnisblaðið

Það merkilega er að þetta er mynd af skjalinu, skannað í dag. Uppruni einhver Canon skanni. Engin merking er fyrir Seðlabankann, ekkert logo, ekkert vatnsmerki, ekkert.

Hefði ekki verið trúverðugra að sýna með einhverjum hætti fram á uppruna skjalsins? Þetta vekur ýmsar spurningar.

  • Er þetta kannski ástæðan fyrir því að ekki var tekið mark á skjalinu, að það rataði aldrei formlega inn í skjalakerfi eða skjalavistun Seðlabankans?
  • Er skjalið úr Seðlabankanum eða er það einhvers staðar annars staðar frá?
  • Er rétt dagsetning á skjalinu? Það er nefnilega svo augljóslega hægt að skrifa hvað sem er hvenær sem er og setja á það hvaða dagsetningu sem er.
  • Er einhvers staðar í Seðlabankanum að finna skráningu á skjalinu, þar sem hægt er að staðfesta dagsetningu og höfund skjalsins?

Sem sagt, enn á ný dæmi um lélega blaðamennsku. Þetta segir ekkert og sannar ekkert.

Ég er þar með ekki að segja að skjalið sé falsað eða að það sé rangt sem í því stendur, heldur einfaldlega að þessi frétt og snepill sanna mér ekkert og ég vil sannanir. Tími til kominn.

Vísir bætir við:

Og varla hefur Seðlabankinn sjálfur tekið mikið mark á þessu plaggi sínu því mánuði eftir þessa fundi í London ákvað bankinn að afnema bindiskyldu á erlendum dótturfélögum bankanna. Afleiðingin varð að Icesave gat flætt út úr Bretlandi og yfir í mörg önnur lönd eins og t.d. Holland.

Ef skjalið var kannski ekki til er varla von að Seðlabankinn sjálfur hafi tekið mark á því.

mánudagur, mars 09, 2009

Sjálfstæðismenn eyða tíma Alþingis

Það er ótrúlegt að hlusta á umræður á Alþingi núna. Áðan voru umræður um fundarstjórn forseta, þar sem Sjálfstæðismenn voru að væla út af því að það ætti nú kannski að ræða eitthvað annað mál en forseti var með í gangi. Þetta var eftir langar málalengingar Sjálfstæðismanna um málið sjálft, um Skyldutryggingu lífeyrissjóða o.fl. Og svo héldu umræðurnar áfram og Sigurður Kári fór að tala um menn og málefni sem ekkert varðaði umræðuna.

Hvernig stendur á því að forseti Alþingis getur ekki skipað mönnum að halda sig við efnið? Ef þessir menn vilja ræða undir ákveðnum lið, þá hlýtur það að vera lágmark að þeir sýni sjálfum sér og Alþingi þá virðingu að ræða það málefni.

Sjálfstæðismenn, endilega kjósið svona kjána í efstu sæti í prófkjörum ykkar, þá kýs enginn flokkinn ykkar.

Sennilega er full þörf á að breyta þingsköpum þannig að forseti hafi meira vald til þess að halda umræðum við málefnin sem til umræðu eru.

föstudagur, mars 06, 2009