fimmtudagur, júní 03, 2004

Tímamót -- fjölmiðlalög og Savage Rose

Það var stór dagur í gær. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins neitaði forseti að undirrita lög og vísaði þar með máli til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sama dag fékk ég langþráðan disk í hendur, disk/plötu, sem ég hef mikið reynt að ná í, In the Plain með the Savage Rose.

Fjölmiðlalögin

Mér finnst Ólafur Ragnar hafa sýnt mikinn skörungsskap með ákvörðun sinni, enda margt við þessi lög að athuga.

Lögin (um breytingu á fjölmiðlalögum og samkeppnislögum) finnur þú hér: Lög um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993. en eldri lög hér: Útvarpslög nr 53 árið 2000 og Samkeppnislög nr. 8, 1993.


Mínar athugasemdir við lagabreytingarnar eru einkum þessar:

  1. Vald er fært að öllu leyti frá Alþingi til menntamálaráðherra og til hæstaréttar, sem skipaður er af dómsmálaráðherra ( a-liður, breyting á 2. gr.). Hver er ástæðan fyrir því, önnur en valdagræðgi ráðherra? Afleiðingin hlýtur að vera meiri samþjöppun valds til handa ríkisstjórn. Texti þessarar málsgreinar er ekki nægilega skýr til þess að greina megi með vissu hvort aðalmenn eigi að vera 3 eða 5 eða jafnvel 6. Pólitíkusar eru, eins og saga síðustu missera sýnir, gjarnir á að túlka allt sem hægt er að túlka á fleiri en einn veg sér í hag.
    Hæstaréttardómarar (hæstiréttur) eru skipaðir af dómsmálaráðherra, þannig að hér er komið á nánast hreinu ráðherravaldi.
  2. a-liður málsgreinar b (undarlegar merkingar út af fyrir sig, sem benda til flausturslegrar vinnu) beinist augljóslega að einu fyrirtæki eða samsteypu, sem kannski þarf ekki að vera ónauðsynlegt á öllum tímum, en manni finnst óþarfi að taka á með þessum hætti. Hvað með eignarréttarákvæði og annað slíkt?
  3. Hér eru sett viðmið í fastri krónutölu. Það þýðir að með tímanum og áframhaldandi verðbólgu gjaldfalla þessi lög.
  4. Hægt hefði verið að ná þessum markmiðum með lítilsháttar breytingu á samkeppnislögum.
  5. Ég tel samt að eignarhaldið skipti ekki mestu máli, heldur hvernig því er varið. Hefði verið miklu betra að setja inn ákvæði um heimild til eftirlits með því hvort eignarhald hafi veruleg áhrif varðandi samkeppnishamlandi skoðanamyndun og takmörkun á frelsi þeirra sem starfa við viðkomandi fjölmiðil og annarra, sem óska að koma skoðunum sínum á framfæri. En þá er eftir að ákvarða verkaskiptingu milli Samkeppnisstofnunar og útgarpsréttarnefndar.
  6. Ekki er tekið á samþjöppun eignarhalds og aðstöðu til skoðanamyndunar sem átt getur sér stað með öðrum hætti, t.d. í gegnum pólitík. Davíð Oddsson gæti t.d. keypt upp hvern fjölmiðilinn af öðrum, ef honum svo sýndist (og ef hann gæti fjármagnað kaupin) og ráðið þannig algerlega umræðunni. (Ekki að ég telji að hann geri það, svo sem!)
    Þannig er Berlusconi-syndrómið til staðar að öðru leyti en því að þeim sem rekur dagblað (ekki annars konar blöð) eða á í slíku útgáfufyrirtæki má ekki veita útvarpsleyfi.
  7. Hver er eiginlega hættan við að einhver geti rekið fleiri tegundir fjölmiðla? Eru ekki einmitt möguleikarnir í tækni dagsins í dag "Single Sourcing" og "Multi Media"? Þetta ákvæði er því beinlínis hlæilegt!
  8. Áhrifin af meginmálsgrein b-liðar b (Skylt er þeim...) eru að mínu mati ófyrirsjáanleg.

Spurningin er nú þessi: Er þjóðin tilbúin til að setja sig inn í þessa lagasetningu og kjósa af yfirvegun um þau?

The Savage Rose

Það er hreing merkilegt hvað þessi hljómsveit -- og einkum platan In the Plain frá 1968 verkar sterkt á mig. Söngkonan, Anisette, er hreint einstök. Hvergi hef ég heyrt annan eins söng, bæði kraft, mýkt, grófleika og dýnamík. Mér finnst skaði að að hljómsveitin hafi ekki náð betur eyrum Íslendinga. En hér er vefur, þar sem hægt er að fá frekari upplýsingar um hljómsvetina: SavageRose.com Sem sagt, ég óska þjóðinni og sjálfum mér til hamingju. Böðvar

Engin ummæli: