Mig vantaði aldrei þessu vant skotsilfur um daginn. Ég fór í hraðbanka og setti debetkort í. Smástund leið og þá kom tilkynning á skjáinn: "Þetta kort er útrunnið." og síðan gerðist ekkert meira. Hraðbankinn át mitt útrunna kort.
Jæja. Það gat víst vel verið. Hafði ég ekki fengið einhverja tilkynningu í sumar um að "á næstunni" yrði gefið út nýtt kort? Þá er bara að prófa annað debetkort. Með semingi setti ég það inn. Það væri varla útrunnið líka? Ef svo, þá væri það hvort eð er einskis virði.
Inn fór kortið. Smástund leið. Tilkynning á skjánum: "Þetta kort er útrunnið."
Tvö kort, tveir bankar, sinn netbankinn á hvorn og engar meldingar hafði ég séð þar til að minna mig á að ég ætti tilbúið kort. Skyldi það kosta bankana mikið að setja inn svoleiðis tilkynningu meðfram öllum hinum tilkynningunum sem mér koma ekkert við -- um tilboð þetta og miða þarna.
Það versta við þetta er að á einhvern undarlegan hátt finnst manni maður hafa verið rændur. Það var sett fyrir mig gildra hér um árið úti í París og veskinu mínu stolið. Það var ótrúleg líðan sem ég upplifði. Ónot, reiði, minnimáttarkennd. Tilfinningarleg viðbrögð við þessu kortaáti hraðbankans hafði einnig ögn af þessari tilfinningu í för með sér, ca 20%, ef ég ætti að reyna að mæla það.
Bankarnir keppast um að vera með ánægðustu kúnnana. Væri ekki ráð að þeir fengju sálfræðinga sína og ímyndarsérfræðinga til að líta aðeins betur á þennan þátt. Nú eða bara auka upplýsingastreymið hvað þetta varðar. Þeir hafa jú netbankana sem við flest kíkjum á a.m.k. einu sinni á mánuði.