fimmtudagur, ágúst 09, 2012

Í fyrsta sinn — Frábær sumarfrísvika

Stundum leitar maður langt yfir skammt en stundum er eins og hlutirnir detti óvart inn hjá manni.

Við hjónin ákváðum að skreppa og heimsækja systkini (og tengda-) fyrir norðan í síðustu viku og slaka svolítið á, fara Héðinsfjarðargöng og í sund á Hofsósi. Svona í fyrsta sinn. En það var ýmislegt fleira sem gert var í fyrsta sinn. Hér fylgir lítils háttar yfirlit yfir ferðina, ásamt örfáum myndum.

Mánudagur 30. júlí

Lagt af stað eftir hádegi.
Við vorum komin í Borgarnes og stoppuðum þar í Geirabakaríi (http://www.facebook.com/geirabakari.ehf) til að hafa með hið frábæra gulrótarrúgbrauð til Þóru og Hermanns. Þar sáum við á eftir Halla og Sillu frænku minni inn í bakaríið. Þegar við komum inn fóru þau að segja okkur frá því að þau höfðu verið að láta flytja á disk af kasettu lögin sem Barnakór Akureyrar söng í Noregsferðinni 1954, og gáfu þau okkur eintak af disknum. Ótrúlegt framtak hjá þeim. Silla hafði átt kasettuna, en Inga systir hennar prógrammið. Og svo buðu þau okkur í bústaðinn þegar við kæmum til baka.
Diskurinn var settur í strax (í fyrsta sinn) og haldið var áfram og nutum við söngsins.

Við komum norður til Þóru og Hermanns um sjöleytið og var þegar skóflað í okkur krásum.

Þriðjudagur 31. júlí

Morguninn eftir var farið í sund. Það er sjálfsagt meira en áratugur síðan ég hef komið í sund á Akureyri. Þetta er orðin meirháttar sundparadís. Svo var farið í Lystigarðinn og kaffi drukkið þar í sól og norðan hlýindum (eða næstum).

Um kvöldið fórum við í heimsókn til Óla mágs og Möggu, og drifu þau okkur með sér austur í bústaðinn sinn í Aðaldalnum til þess að sýna okkur nýjustu viðbætur.

Óli, Ásta og Magga við útieldhúsið í sumarbústaðnum.
Óli var búinn að byggja þetta líka skemmtilega útieldhús, með grilli/kamínu. Virkilega flott hjá honum. Og Magga með allt sitt keramík og garðrækt, litun o.fl.
Magga svilkona við aðstöðu sína.
Þaðan óku þau með okkur til Húsavíkur og sýndu okkur ýmislegt skemmtilegt. Leiðin til baka lá um Aðaldal upp að Einarsstöðum og yfir Fljótsheiði og Goðafossbrúna. Það var orðið lágskýjað, þegar við komum í bústaðinn og hélst það að mestu til morguns.

Miðvikudagur 1. ágúst

Við Ásta fórum og skoðuðum okkur um, fórum m.a. í Hof (í fyrsta sinn). Virkilega skemmtilegt hús og vel heppnað. Akkústíkin fín, endurómun nánast engin og gott að tala saman.
Um kvöldið farið í heimsókn til Möggu systur og Sigga. Diskurinn spilaður við miklar umræður.

Fimmtudagur 2. ágúst

Farið út í Hrísey (í fyrsta sinn).
Taxi tekinn á hafnarbakkanum!
Þar byrjuðum við að taka rúnt með "Taxanum", útsýnisferð um syðri helming eyjarinnar. Farið var upp á flugvöll, þann eina á landinu þar sem innanbæjarflug á sér stað milli flugvalla. Þar er einnig best loftræsta flugskýli landsins!
Bærinn er snyrtilegur og götur flestar hellulagðar. Bílaumferð er með minnsta móti.
Kirkjan í Hrísey.
Þarna eyddum við góðum eftirmiðdegi og settumst inn á veitingahús kl. 16:30 og snæddum dinner á Brekku kl. 17:00. — Ég veit, en það þarf líka að taka ferjuna til baka!
Restaurant Brekka.
Hvannarkryddblandan (í fyrsta sinn) var frábær á lambakjötið og víst líka á þorskhnakkann.
Svona er í Hrísey! Eða annars, þetta málverk er á Brekku.
Um kvöldið var svo slappað af og farið fremur snemma í ból.

Föstudagur 3. ágúst.

Lagt af stað til Skagastrandar með það fyrir augum að koma við á Gásum og fara síðan um Héðinsfjarðargöng og Siglufjörð og koma við í lauginni á Hofsósi og skoða Hóla í Hjaltadal.
Við fornminjarnar að Gásum.

Á Gásum var í raun lítið að sjá. Það hefði verið gaman ef einhver leiðsögn hefði verið um svæðið. Það kemur kannski þegar uppgreftri lýkur.
Síðan lá leiðin til Dalvíkur og út í Ólafsfjörð. En á leiðinni frá Gásum upp á Dalvíkurveg er Skipalón, þar sem Nonni og Manni höfðu viðdvöl. Þar komum við líka í fyrsta sinn.
Vöruhúsið á Skipalóni.
Leiðin frá Dalvík til Ólafsfjarðar er víða falleg. Þar er meðal annars Mígandifoss.
Mígandifoss blasir við rétt áður en komið er í Múlagöng.
Ég hef aldrei séð Hrólfssker eins vel og nú.
Hrólfssker.
Héðinsfjarðargöng koma eins og dyr út úr hinum gamla Ólafsfjarðarkaupstað (sem nú er víst bara hverfi í Fjallabyggð). Þarna fórum við nú í gegn í fyrsta sinn.
Héðinsfjarðargöng Ólafsfjarðarmunni.
Ólafsfjörður er alltaf fallegur, finnst mér, en Héðinsfjörð hafði ég ekki séð fremur en flestir landsmenn. Maður hafði séð einhverjar myndir þaðan, en engu að síður kom hann mér á óvart.
Ásta í Héðinsfirði.
Þarna var ótrúlega fagurt, enda stoppuðu flestir og skoðuðu náttúruna. Nokkrir voru að veiðum í ám og síkjum. Héðinsfjarðargöngin eru samtals ca 11 km, 7 km Ólafsfjarðarmegin og 4 km Siglufjarðarmegin.
Séð yfir til Siglufjarðarkaupstaðar.
Siglufjörður er fagur séður gangamegin frá, en það sem við vissum ekki áður en ákveðið var að fara til Siglufjarðar var, að þarna var einmitt að byrja Síldarævintýrið og staðurinn þegar pakkfullur af húsbílum, hjólhýsum, fellihýsum og tjaldvögnum. Sem sagt, enn eitt í fyrsta sinn.
Gömul hús í nýjum búningi. Þau draga að sér þyrsta og svanga ferðalanga.

Bryggjupolli á virkri bryggju, séð yfir á bryggju sem einu sinni var.
Við fórum á Síldarminjasafnið í fyrsta sinn.
Síldarminjasafnið, Róaldsbrakki.
Síldarminjasafnið Grána og bátasafnið.
Þarna var margt að sjá og sumt mjög kunnuglegt, svo sem dósir og kassar frá Sölustofnun lagmetis (Iceland Waters).
Kassar fyrir sérreykta síld fyrir Grikklandsmarkað. Papadoupoulus ræðismaður Íslands á Grikklandi var jafnframt innflytjandi þangað.
Þarna getur að líta m. a. hina frægu (eða illræmdu) gaffalbita, sem reynt var að selja  til Sovétríkjanna með misjöfnum árangri.
En annars var mjög margt skemmtilegt að sjá, sem hjálpaði til að rifja upp mjög gamla daga! Og svo var verið að undirbúa síldarplanið.
Safnvörður undirbýr planið.
Nú var orðið svo áliðið að við þurftum að fresta stoppi á Hofsósi og Hólum og fórum beint til Skagastrandar til Ingu systur og Steindórs. Þar var tekið á móti okkur af höfðingsskap að venju.

Laugardagur 4. ágúst

Við tókum Ingu og Steindór með í ferð til Hóla (í fyrsta sinn) og Hofsóss.

Hólar

Þar skoðuðum við kirkjuna, Nýjabæ (torfhúsið) og Auðunarstofu (svo langt sem hægt var, því að allt það merkilega var læst inni).
Hólakirkja.
Við ætluðum að taka hús á Jóni A. Baldvinssyni vígslubiskup og Möggu Sigtryggs, hans ektafrú og gamalli skólasystur, en það mistókst af því að of mikið mark var tekið á gemsasambandi. En þarna var gaman að koma og sr. Hjörtur Pálsson leiðbeindi okkur um kirkjuna. Ég átti von á að betri þjónusta væri við ferðalanga á Hólum en raun var á, t.d. að þarna væri opin kaffistofa, en það virtist vera að þjónusta miðaðist aðallega við morgunmat og einhverja aðra meginmáltíðartíma.

Hofsós

Á leiðinni á Hofsós datt okkur í hug að renna við í Kolkuósi, hinni fornu höfn Hóla, en við snerum við þar sem þarna var eitt hinn harðasti og versti þvottabrettisvegur, sem ég hef komið á. Við vorum að velta fyrir okkur að kíkja á Vesturfarasetrið og skoða breytingarnar þar á sýningunni frá því fyrir fáum árum síðan, en fundum ekki tíma fyrir það. Við fórum hins vegar í hina nýju sundlaug á Hofsósi (í fyrsta sinn) og var það skemmtileg upplifun: ótrúlegt útsýni til Drangeyjar og inn eftir Skagafirði. Nokkur strekkingur var á norðan á Hofsósi, en sundlaugin er þannig byggð, að hún bægir mesta vindinum frá þó að hún sé svona berangursleg.
Sundlaugin á Hofsósi — einstök upplifun.
Á leiðinni til baka var farið á norðurbakkann við Kolku og horft yfir Kolkuósinn (í fyrsta sinn). Þarna mun mikið hafa breyst frá því að skip lögðu við ósinn.

Sunnudagur 5. ágúst

Á leiðinni til baka fórum við að Þingeyrakirkju (í fyrsta sinn), nokkuð sem oft hafði staðið til að gera, en alltaf orðið útundan.
Þingeyrakirkja.
Kirkjan er afskaplega falleg innan sem utan og þjónustumiðstöðin góð.
Séð fram af svölunum í Þingeyrakirkju.
Í kirkjunni var stjörnuhiminn með smáum stjörnum á dökkbláum himni. Mjög fallegt. Og eru þá ónefndar aðrar gersemar í kirkjunni.

Í bakaleiðinni komum við við (í fyrsta sinn) í Ólafslundi, sem er áningarstaðurinn við hringveginn við Vatnsdalshóla. Lundurinn er ekki stór, en þó eru þar tvö góð bekkjaborð, sitt á hvorum staðnum í lundinum.

Að lokum var staldrað við í sumarbústað hjá Sillu og Halla (í fyrsta sinn) eftir árangurslausa tilraun til að komast inn í Geirabakarí. En þar höfum við komið áður — og eigum vonandi eftir að koma aftur.

Það var Guðs blessun yfir þessari ferð. Þakkir til allra, sem gerðu okkur þessa ferð svo eftirminnilega.