mánudagur, ágúst 01, 2011

Amsturdammur og Hitta í Mosfellssveit

Í föðurætt er ég af Klingenbergsætt, eins og sagt er í upphafi þessa bloggvefjar. Ætt föðurömmu minnar er hins vegar rakin til Miðdals í Mosfellssveit (og víðar). Sonur Gísla Helgasonar og Arndísar Jónsdóttur, þar búandi 1789, Gísli Gíslason bjó með konu sinni, Guðrúnu Sigmundsdóttur, að Hittu, Amsturdammi og Varmá. Ég hef átti í vandræðum með að staðsetja Amsturdamm, en rakst á þessa athugasemd Sigurðar Hreiðarssonar við athugasemd við athugasemd á bloggi hans:
21 
Smámynd: Sigurður Hreiðar

[...klippt...]
En Helga Guðrún -- um götunafnið Amsturdam -- um aldir var kot til í Mosfellssveit sem stóð milli Reykja og Helgafells litlu austar en stóru byggingarnar í Reykjalundi standa nú sem hét Amsturdammur. Tvennum sögum fer af tilurð heitisins, ég hef séð því haldið fram að það hafi í öndverðu byggt Hollendingur sem kom frá Amsterdam en almenna skýringin og sú sem mér líkar engu síður er að þetta kot hafi verið óttalegur amstursdammur. Svo þegar hús tóku að rísa við heimreiðina að rústum gamla eyðikotsins kom þetta götuheiti nánast af sjálfu sér, Amsturdam.
Sigurður Hreiðar, 21.9.2008 kl. 12:24
Takk fyrir þessar upplýsingar, Sigurður.

Hitta mun hins vegar hafa verið kotbýli í túninu á Mosfelli, eftir því sem kemur fram í upphafi "Niðjatals frá Gísla Helgasyni bónda 1765-1836 og konu hans Arndísi Jóhsdóttur 1770-1838, samanteknu og skrásettu af Jóhanni Eiríkssyni, Reykjavík 1955".
Einhvers staðar rakst ég á það að upprunalegt nafn Hittu hefði getað verið Hytte, en mér finnst það satt að segja ólíklegt. Svo mikið er til af skrítnum nöfnum (að því er núlifendum finnst) og mörg sem hafa glatað merkingu sinni.

Af þessari ætt eru m. a. Sr. Jónas Gíslason heitinn og Michelsenarnir í Hveragerði, en Sigríður Ragnarsdóttir giftist 1940 Paul Valdemar Michelsen garðyrkjumanni, syni Jörgens Franch Michelsen úrsmiðs.