Nýlega voru fréttir af því í fjölmiðlum að Vegagerðin hefði látið fjarlægja bíla sem báru auglýsingar og höfðu verið skildir eftir nálægt vegum. Vísað var í eftirfarandi grein umhverfislaga:
43. gr. Auglýsingar utan þéttbýlis.
Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt, að uppfylltum ákvæðum annarra laga, að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á þeim stað þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um efni greinarinnar og úrskurðar um vafaatriði.
Er það ekki dásamlegt hversu lagasetningin er loðin. Samkvæmt þessu gæti umhverfisráðuneytið (les: Vegagerðin) ákveðið að auglýsingar mættu ekki vera nær vegum en 5 metrar eða 10 kílómetrar. Þeir hafa ákveðið að 30 metrar skuli vera hreint svæði. Það er væntanlega til að fyrirbyggja að afætur eins og veitingastaðir, listamenn, söfn eða fyrirtæki geti bent vegfarendum á að það gæti kannski verið þess virði að stoppa, taka næsta afleggjara o.s.frv. til þess að kynna sér málin og kannski hagnast á því með góðum kaupum eða góðri upplifun.
Vissulega þarf að setja ákveðin öryggismörk og kannski reglur um hæð og aðra stærð skilta, styrkleika og fjarlægð frá vegi. En 30 metrar er allt of mikið. Það er sem sé það svæði hvoru megin við veginn sem Vegagerðin þykist eiga. Enn og aftur má líta til annara landa en Noregs, sem Vegagerðin lítur til í öllum málum. Og meira að segja þar minnir mig að viðmiðin séu ekki svona ströng.
Hins vegar er svo til þess að líta, að of mikið af auglýsingum geta verið veruleg lýti á umhverfinu. En mætti ekki setja ákvörðunarvaldið að meira leyti til sveitarfélaganna? Lítum síðan til annarra landa, þar sem þessir hlutir virðast vera í góðu lagi, svo sem í einstöku ríki Bandaríkjanna (í öðrum ríkjum þeirra eru þessi mál í ólestri), Frakklands, Þýskalands og fleiri landa.
Enn á ný fæ ég það á tilfinninguna að þegar þeir hjá Vegagerðinni (og Umhverfisráðuneytinu) ferðast til útlanda, þá líti þeir ekkert upp úr bjórglasinu. "Hausinn í sandinn". Það er mottóið.