Davíð Oddsson seðlabankastjóri og yfirgrínari Íslands hættir víst aldrei að atast í okkur landsmönnum. Hann virðist hafa haft það að markmiði allt síðan í Útvarpi Matthildi að hafa landa sína að fíflum. Sem formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra stóð hann fyrir þeirri tegund kapítalisma, sem velflestir hugsandi menn sáu fyrir að myndi leiða til skammrar uppsveiflu og síðan hrynja. Svo hljóp hann náttúrulega í burtu, rétt áður en hann sjálfur vissi að niðursveiflan væri að hefjast.
Svo fór Davíð í Seðlabankann, svona til að hjálpa til með vaxtaokri og yfirlýsingum um að allt væri á heljarþröm, líkt og kemur fram í fréttum í dag, þar sem hann - í nafni Seðlabankans, og svona rétt til að toppa allt - spáir því að húsnæðisverð muni lækka um "allt að 30% til ársins 2010", og hækkar á sama tíma vexti í heimsmet, 15,5%.
- Þessi yfirlýsing er náttúrulega ekkert annað en að Davíð Oddsson, fyrir hönd Seðlabanka Íslands, er að segja að Seðlabankinn hafi gjörsamlega brugðist hlutverki sínu eða hafi engin ráð til að sinna því. Ef hann væri samkvæmur sjálfum sér (og meinti eitthvað með þessum yfirlýsingum) þá myndi hann og stjórn bankans segja af sér öll sem eitt í dag. En því er ekki að heilsa, því að Davíð þarf að grínast með þjóðina áfram á sinn sjúklega hátt.
- Er það hlutverk Davíðs Oddssonar sem Seðlabankastjóra að tala niður húsnæðisverð á Íslandi? Er hann kominn í hóp húsnæðisbraskara, sem sjá sér nú hag í að bíða þess að lánveitendur krefjist viðbótarveða eða hirði eignir af fólki fyrir lítið ella, og geta þá keypt á lágu verði?
- Hvers vegna er Davíð Oddsson sífellt að grafa undan eftirmanni sínum í stól forsætisráðherra, Geir Hårde?
- Er Davíð Oddsson algerlega samviskulaus?
- Getur verið að Davíð Oddsson sé ekki að grínast, heldur sé bara heimskur?
- Er ekki tími til kominn að minnka áhrif Davíðs Oddssonar og fyrirbyggja þannig frekari hörmungar í efnahagsmálum þjóðarinnar?