mánudagur, nóvember 26, 2007

S5TL Dome Transmission Line hátalarar - Kafli 1

Ákvörðun hefur verið tekin. Eftir að hafa skoðað vel og vandlega og spurt hina og þessa og Ivan P. Leslie sjálfan, varð niðurstaðan sú að taka ekki S5TL Kefvlar/Ribbon kittið, heldur Dome kittið. Það mun henta betur í okkar stærð af stofu. Kevlar/Ribbon hentar betur í rými sem er 4x6 metrar eða minna. Stofan okkar er aðeins stærri.

Það hefur gengið illa að greiða þetta í gegnum netbanka sparisjóðanna (S24) þar sem eitthvað vandamál virðist vera hjá þeim með tengingu á ýmsum innsláttarboxum við "field" í gagnagrunni. Ég endaði á að fara niður í S24 og láta setja upp viðskiptavininn þar og greiða síðan í gegnum tölvu þar. Og þar sem ég var orðinn svona seinn, þá þurfti ég að taka flýtimeðferð á sendingunni. 800kr. auka þar.

Ég átti í framhaldinu 20 mínútna samtal við tölvugæja hjá tölvuþjónustu sparisjóðanna. Ég ætti að fá endurgreitt, a.m.k. þessar 800 kr. frá S24. Léleg þjónusta hjá banka sem ég hef annars fengið góða þjónustu hjá. Þeir verða að laga þessi mál.

Sabayon eða Debian Linux

Ég er áskrifandi að Linux Magazine. Því blaði, sem kemur út mánaðarlega fylgir DVD diskur, sem oftast inniheldur einhverja nýjustu Linux útgáfuna frá einhverjum "samsetningaraðila". Linux og GNU eru jú opinn hugbúnaður og getur hver sem er sett saman heldarpakka að sínum geðþótta. Meðal þeirra sem setja svona saman eru:

  • Debian
  • Red Hat
  • SuSE
  • Ubuntu
  • Knoppix
  • Slackware
svo nokkrir séu nefndir.

Í síðasta blaði fylgdi áhugaverð útgáfa, sem ég hafði ekki séð áður, Sabayon, sem er sett saman af ítölskum aðilum. Hún virtist mjög áhugaverð. En þar sem ég var með Open SuSE 10.2 fyrir, og nokkuð hress með þá útgáfu, þá ákvað ég að nota Open SuSE 10.3 til uppfærslu, svona til öryggis.

Uppfærslan gekk vel, en eftir ca viku og nokkrar öryggisuppfærslur, þá fór útgáfan að koxa, að því er virðist á KDE 4, sem var jú beta útgáfa. Þá ákvað ég að prófa Sabayon.

Sabayon kom á "Live DVD", sem þýðir að hægt er að keyra það sem stýrikerfi beint af DVD disknum án þess að setja það inn á harða diskinn. Þannig virtist það mjög áhugavert, með mikilli og góðri grafik og með alls konar aukahlutum sem sjaldnast koma uppsettir í öðrum útgáfum.

Ég prófaði að setja þetta inn og virtist það ganga vel, en þegar ég endurræsti vélina, þá var bara gamla ræsiforritið úr OpenSuSE 10.3 til staðar og ekki hægt að ræsa Sabayon.

Ég er með nokkuð flókna diskaskiptingu og nota sneiðar af þremur diskum, þar af einum SCSI, til að keyra Linuxinn sem hraðast. Það kom sem sé í ljós að Sabayon forritið og uppsetningarforritið með honum skildu hlutina á misjafnan hátt og nefndu diskana ekki eins. Ég reyndi ýmsar leiðir til þess að fá þessa aðila til að sættast en án árangurs.

Í septemberhefti Linux Magazine fylgdi nýjasta útgáfan af Debian, sem er ein virtasta útgáfan, en hefur verið talin svolítið erfið fyrir meðaljóninn. Meðal nýjunga hins vegar í þessari útgáfu (4.0 ETCH) var bætt uppsetningarforrit. Ég ákvað að prófa.

Og viti menn, uppsetningin rann í gegn og Debian virti allar hefðir varðandi diskanúmeringar og uppraðanir og um miðnætti á föstudagskvöld (byrjaði að skoða þetta um kvöldmatarleytið) byrjaði uppsetningarforritið að setja upp einhverja 600 pakka (forrit). Ég kíkti á það einhvern tíma um nóttina þegar ég vaknaði og þá var þetta allt komið.

Ég hafði ekki möguleika á að setja upp bæði Gnome og KDE desktoppaumhverfin í einu af diskinum -- varð að velja á milli -- svo að ég valdi það sem Debian tengir sig fyrst við (default), Gnome. Ég átti von á að geta sett restina upp af disknum, en Debian vildi ekki viðurkenna það, heldur beindi mér á ftp þjóna á vefnum. Þaðan valdi ég svo eitthvað á 5. hundrað forritapakka í viðbót (KDE forritin flest, LaTeX, Lilypond og eitthvað fleira) og gekk það aldeilis glimrandi.

Niðurstaða:

Ef þú setur Linux inn á einn disk og ert ekki með blöndu af IDE (ATA, SATA o.s.frv.) og SCSI, þá er óhætt að mæla með Sabayon. Örugglega skemmtileg reynsla. Annars mæli ég með Debian. 18.000 forrit tilbúin til uppsetningar og sjálfvirks viðhalds hlýtur að vega þungt.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Á að fá sér nýja hátalara?

Enn einn gamall draumur. Það er ekkert smá sem góðir hátalarar kosta. En líklega er ég kominn með lausnina. Mig langar að prófa "Transmission Line" kerfið og byggja það sjálfur. Ég ætla að kaupa eitt kit frá Englandi og láta sníða utan um það hér heima. Meira fljótlega um það.

Gídeon NT komin til landsins

Sveinbjörn hringdi í gærkvöldi og sagði mér að testamentin væru komin í hús. Það verður gaman að kíkja á verkið. Sé það á laugardag.