Gamli tíminn
Ætli það hafi ekki verið haustið 1969 eða 1970, sem ég keypti mér útvarpsmagnara, Tandberg Huldra 10, sem skilaði 2x15w í 4 óma hátalara. Hann var frábær og entist nokkuð vel. Hafði hins vegar þann "galla" að vera með silfurtengi og snertur. Það skilar náttúrulega mjög góðu þar sem ekki er loftmengun af völdum hitaveitu eða annarra umhverfisvalda, sem skila brennisteinsdíoxíði (eggjafýlu) út í umhverfið. Eins og allir vita, þá fellur fljótt á silfur á íslenskum hitaveitusvæðum, en það er brennisteinsdíoxíðið, sem hefur þessi tærandi áhrif á silfrið.Ég fékk mér Peerless 2-way hátalara "kit" hjá útvarpsvirkja í Skipholtinu, sem voru gefin upp fyrir 35w. Það samanstóð af 8" bassahátalara og 1" hátónahátalara af "dome" gerð. Hljóðkúrfan var mjög góð og miðað við a.m.m. 25-30 lítra boxin, sem þeir áttu að fara vel í, áttu þeir að skila +/-6db frá 45-20.000Hz. Eða hvort það var bara -6db.
Ég setti þá í um það bil helmingi stærri box og hljóðeinangraði þau vel og bólstraði utan. Hljómurinn var fínn, betri en í helmingi dýrari hátölurum, t.d. þar sem ég var síðar að vinna, í Gelli hf í Hafnarstræti 17.
Á þeim tíma fékk ég mér þennan rándýra og ekkert rosalega flotta en ótrúlega góða Empire spilara með 4ra rása pickupi, sem virkaði í venjulegu stereói með tíðnisvið nánast flatt frá 5-45.000Hz. Það var gífurlegur munur á hljóði og á gamla Lenco spilaranum, sem þó var ágætur.
Þegar Huldran dó, fyrir um 5 eða 6 árum síðan, eða um þrítugsaldurinn, þá var ég illa blankur, en áskotnaðist þokkalegur Yamaha útvarpsmagnari, eitthvað um 5-10 árum yngri (hef ekki leitað staðfestingar á aldrinum). Hann var kraftmeiri, ca 2x50w en hljómaði samt ekki eins vel og Huldran í þessa hátalara.
Og svo kom að því að Yamaha magnarinn fór að surga á ýmsum rofum -- reyndar flestum. Rásir duttu eða hálfduttu út o.s.frv. Ég var einu sinni búinn að taka hann í gegn og hreinsa tengi, en nú var þetta orðið verra en áður. Og ég var nánast hættur að setja plötu á fóninn -- eða disk í geislaspilarann.
Hátalarnir -- stoltið mitt -- sem ég smíðaði sjálfur! féllu smám saman í ónáð hjá konunni. Hún fór að spyrja hvort við gætum ekki farið að skipta um og fá eitthvað eins og fólk væri með. Ég náttúrulega svaraði og reyndi að dylja sært stoltið, að fólk væri ekki með góða hátalara almennt. Góðir hátalara væru afskaplega dýrir.
Ég kanna málið
Ég fór að líta í kringum mig í haust, fyrst á netinu og lítils háttar um jólaleitið í búðum. Verð á hátölurum, sem hljómuðu betur en mínir (og þá reyndar í miklu flottari græjum), kostuðu kringum 90 þúsund kallinn parið og yfir. Besta testið fyrir peninginn virtist vera Infinity 40 í Sjónvarpsbúðinni í Síðumúla 2, en mér fannst aðeins vanta upp á dýpsta bassann. Það er svolítið erfitt að segja hverju er um að kenna, hátölurum, magnara eða spilaranum. Hljómsýn í Ármúlanum var líka með flotta hátalara, en dýrari.Ég gerði tilraun til að kaupa hátalara á netinu. Súper díl hjá amerískri netverslun, sem virtist bjóða upp á að ég gæti keypt gegnum PayPal og látið senda með ShopUSA.com. Þetta voru ótrúlega flottir Infinity Kappa 600, sem þarna voru á rýmingarsölu á hálfvirði, eða um 65% af lægstu verðum, sem ég hafði séð annars staðar. Þeir skiluðu 30-25.000Hz tíðnisviðinu með aðeins -3dB fráviki og voru lokaðir (ekki bass reflex eða transmission line) og því engin truflun af baksveiflum sem koma úr reflextúbum á reflex hátalaraboxum. Ég hlakkaði mikið til að heyra í þeim.
En þegar ég var búinn að ganga frá greiðslunni gegnum PayPal, þá gerðist ekkert og greiðslan virtist ekki fara. Ég kannaði málið og fékk þá að vita að þeir tækju ekki greiðslu frá PayPal, sem kæmi utan Bandaríkjanna! Ástæðan? Enhverjum hafði einhvern tíma tekist að svindla á einhverjum gegnum PayPal! Mér finnst að það ætti að vera vandamál PayPal, ekki mitt.
En sem sé þetta gekk ekki.
Ég var líka búinn að kanna svokallaða "transmission line" hátalara og búinn að finna hátalarakit, sem framleidd eru í UK og kosta um 56.000 kr. ExWorks með öllu. Greinilega frábærir, og ég ákvað að bíða sumars -- við erum að kaupa íbúð og verður gengið frá í sumar, og því skynsamlegast að bíða og sjá hvað buddan leyfir þá. Með flutningskostnaði, tollum og VSK, má reikna með að þeir fari í 90.000 kr.
Ég skoðaði líka magnara af ýmsu tæi á þessum tíma, því að ég þóttist vita að til þess að keyra svona mikla hátalara væri betra að hafa þokkalega öfluga og vandaða magnara. Á endanum tók ég ákvörðun að setja stefnuna á Denon PMA 1500R MKII, sem skilar 2x140w m/v 0.7% THD (harmónísk bjögun alls) við 1000Hz í 4Ω eða 2X75w m/v 0.07% á tíðnisviðinu 20-20.000Hz í 8Ω. Og verðið aðeins kr. 67.000.
Ég fékk að hlusta þessa magnara hjá Einari Farestveit í Canton hátölurum, sem mér fundust reyndar lélegir, þrátt fyrir hátt verð. Diskantinn sár -- minnti á JBL og álíka eyrnabana. Ég hef aldrein heyrt þokkalega hljómandi JBL hátalara, hvorki í bíltækjum, stereógræjum eða bíó. En ég heyrði strax að Denon magnarinn var geysiþéttur og jafn.
Ég læt verða af því
Sem sé, hættur að spila og búinn að afskrifa hlutina til síðsumars. Þá bilaði sjónvarpið. --Eins og það komi þessu eitthvað við? Já, reyndar. ITT 28" sjónvarpstækið var orðið nær 18 ára gamalt og ég var farinn að halda að það myndi ekki gefast upp. Aðeins farið tvisvar í smáviðgerð. En allt í einu fór einn liturinn. Túban ónýt.Þá var að fara og kíkja á sjónvarpstæki. Og hvar ætli maður hafi endað eftir allgóða yfirferð á Höfuðborgarsvæðinu? Á Akranesi. Í Model á Akranesi fundum við gott 32" tæki með flatskjá á sértilboði á 84.900 kr. Þar var einnig tilboð á sambyggðu DVD/Vídeótæki á 19.900. Þegar ég bar mig upp við Guðna Tryggvason, eiganda Models, hvort hann væri ekki með hágæða magnara og sagði að ég hefði verið að kíkja á Denon, þá sagði hann, að það væri ekkert mál, hann ætti í viðskiptum við Einar Farestveit og það væri ekkert mál að fá magnarann.
Guðni lánaði okkur sjónvarpið og vídeóið heim til prufu yfir helgi og það þurfti ekki nema sólarhringinn til að sannfærast um að þetta væru tækin, sem við þyrftum. Svo kom magnarinn á miðvikudegi og hófst ég handa við að tengja.
Prófunin á PMA 1500R MKII
Magnarinn var tengdur við áðurnefnda Peerless hátalara, Empire plötuspilarann og JVC geislaspilarann, sem ég keypti á tilboði um árið í Frakklandi (Boulogne Sur Mère). Ég prófaði nokkra geisladiska af ýmissi tegund og þeir hljómuðu betur en nokkru sinni. Nýi diskurinn með Art Garfunkel, sem ég keypti í Kuala Lumpur í nóvember, var frábær, o.s.frv. En ég trúði vart mínum eigin eyrum, þegar ég spilaði Chess af vinýlplötunum. Hljómurinn var svo ótrúlega þéttur og tær allt frá 30Hz, sem eru það lægsta sem ég hef mælt þessa hátalara, og upp úr. Mér fannst þeir jafnvel ná ennþá neðar, en það get ég ekki sannað fyrr en ég næ mér í prufudisk. Stereógreiningin var einnig margfalt betri en ég hafði áður upplifað burtséð frá því þegar ég heyrði í Polk risunum í Faco á Laugaveginum fyrir allmörgum árum síðan.Stofan hefur alltaf gleypt bassann svolítið, og það var ennþá svo, en samt er það sjaldan að ég þurfi að nýta mér þau extra +8dB við 100 riðin, sem magnarinn býður upp á. Oftast get ég keyrt hann flatan, jafnvel á mjög lágum styrk. og á mjög lágum styrk, (ég ímynda mér 10-15w á rás eða jafnvel lægra), greina öll hljóðfæri og söngvarar sig. Ég heyri hluti á pötum og diskum, sem aldrei hafa komið fram áður í mínum tækjum. Allur sunginn texti verður skýr. Tilfinningin sem ég hef er að ég fái nákvæmlega það út, sem sett var inn á plöturnar og diskana. Það er varla hægt að biðja um meira.
Ég prófaði einnig 2. Píanókonsert Rachmaninofs með Dimitri Sgouros af vinýl, og ég hef aldrei heyrt hann betri og aldrei komist af með að hafa hann lægra stilltan til þess að njóta hans að fullu! Það eru einkenni á góðum græjum.
Ég hafði séð test á þessum magnara við ýmsa hátalara, gerða af prófessjónal fólki og neytendum, og voru sumir að agnúast út í að það vantaði bassa, hann hentaði ekki fyrir rokk o.s.frv. Ég segi: ef það var raunin, þá er lausnarinnar að leita annars staðar en í magnaranum. Fyrir 67.000 kr. er hann fullkominn.
Takk Denon, takk Einar Farestveit og takk Guðni í Model.
Ég held ég slái hátalarakaupum á frest.